Vegna ákvæðis og umræðu um fyrningu eldra orlofs
21 des. 2022
Flutningur orlofslauna milli orlofsára er óheimill samkvæmt orlofslögum og í kjarasamningum er jafnframt ákvæði sem kveður á um ákveðna fyrningu orlofs hinn 30. apríl nk.
,,Hafi starfsmaður sem átti gjaldfallið orlof þann 1. maí 2019 (2020 hjá sveitarfélögum öðrum en Reykjavíkurborg), allt að 60 dögum, ekki nýtt þá daga fyrir 30. apríl 2023, falla þeir dagar niður sem eftir standa.“
Þetta ákvæði var sett inn í kjarasamninga vegna breytinga sem urðu á orlofskaflanum og hugsað til þess að gefa þeim sem áttu eldra gjaldfallið orlof svigrúm til þess að taka út þá orlofsdaga. Í millitíðinni hefur heimsfaraldur haft mikil áhrif á það svigrúm og mörgum hverjum ekki verið gert kleift að taka út sína orlofsdaga vegna álags og undirmönnunar. Undanfarið hefur borið á tilkynningum frá atvinnurekendum um að starfsfólk þurfi að taka út orlof frá fyrra tímabili því allt eldra orlof fyrnist eftir 30. apríl 2023, með vísan til ákvæðisins.
BSRB hefur fundað með fulltrúum ríkis, Reykjavíkurborgar og Sambands íslenskra sveitarfélaga þar sem rætt var um ákvæðið og þýðingu þess. Þar kom fram sú afstaða BSRB að þó orlofsdagar geti fyrnst samkvæmt ákvæðinu þá eigi það ekki við um orlofslaunin og því þyrfti að greiða þau út eftir 30. apríl 2023.
Nýlega féll dómur hjá Evrópudómstólnum er varðar fyrningu orlofs og túlkun þeirrar vinnutímatilskipunar sem við byggjum okkar rétt á. Niðurstaðan er að réttur til orlofs, sem nýtur verndar samkvæmt ákvæðum vinnutímatilskipunarinnar, fyrnist „ekki sjálfkrafa“ samkvæmt ákvæðum landsréttar nema hlutaðeigandi starfsmanni hafi í raun verið gert kleift af hálfu atvinnurekanda að nýta þann rétt.
Málavextir voru þeir að við starfslok gerði starfsmaður kröfu um greiðslu orlofs vegna 101 ótekinna orlofsdaga á tímabilinu frá 2013 til 2017. Atvinnurekandi synjaði orlofskröfunni með vísan til þess að þriggja ára lögbundinn fyrningarfrestur slíkra krafna væri á enda runninn. Samkvæmt dómnum ber atvinnurekanda að hvetja starfsfólk sitt til að taka orlof og upplýsa með skýrum hætti og tímanlega þannig að orlofið geti veitt starfsmanni þá hvíld og slökun sem það á að stuðla að. Jafnframt ber að upplýsa um að ótekið orlof geti að öðru kosti fallið niður.
Evrópudómstóllinn lagði áherslu á að við framkvæmd reglna um veitingu orlofs yrði að líta á starfsmanninn sem veikari aðilann í vinnusambandinu. Atvinnurekandi þurfi því að bera hallann af því ef hann getur ekki sýnt fram á að hann hafi í raun og skilmerkilega gefi stafsmanninum kost á að nýta orlofsrétt sinn. Atvinnurekandi geti því ekki borið fyrir sig ákvæði laga um fyrningu kröfuréttinda til þess að komast undan skyldu sinni.
Það er afstaða lögfræðinga BSRB að ekki sé hægt að túlka ákvæði kjarasamnings um fyrningu þannig að launafólk verði sjálfkrafa svipt þessum réttindum sínum eins og mælt er fyrir um í ákvæðinu nema atvinnurekandi hafi sannanlega hvatt starfsmann til að taka orlof og gefið honum færi á að taka út sína orlofsdaga en ekki haft erindi sem erfiði.
Önnur heildarsamtök launafólks eru á sömu skoðun og það mun skýrast fljótlega hvort viðsemjendur okkar deili henni eða hvort reyna þurfi á þetta fyrir dómstólum hér á landi.