Vegið að velferðarkerfinu
15 sep. 2022
Í fjárlagafrumvarpi næsta árs er boðuð breyting á raunfjármögnun opinbera velferðarkerfisins. Heilbrigðismál munu fá umtalsverða raunlækkun á fjárframlögum og sérstaka athygli vekur að sjúkrahúsþjónusta fær krónutölulækkun upp á -1% sem þýðir verulega raunlækkun fjárframlaga að teknu tilliti til verðbólgu. Hjúkrunar- og endurhæfingarþjónusta fær einnig högg. Þetta kemur fram í grein sem Stefán Ólafsson prófessor emeritus við HÍ og sérfræðingur hjá Eflingu-stéttarfélagi skrifar í Kjarnann.
Greinina er hægt að lesa í held sinni hér.
,,Styrking heilbrigðisþjónustunnar er lykillinn að bættum lífskjörum almennings og því að veita megi öllum viðeigandi þjónustu óháð efnahag eða búsetu“, skrifar Sonja Ýr Þorbergsdóttir í grein á bsrb.is, og bendir á að veikleikar á tekjuhlið ríkissjóðs valdi því hins vegar að aðhaldi sé beitt á mikilvægar stofnanir þessara málaflokka þrátt fyrir ítrekuð neyðarköll frá heilbrigðiskerfinu. Í frumvarpinu er fjárveiting til reksturs sjúkrahúsþjónustu lækkuð um rúmlega 700 milljónir króna að raunvirði. Það er skortur á starfsfólki miðað við óbreyttar fjárveitingar, halli á rekstri og álag alltof mikið. Þá eru einnig lagðar til 800 m.kr. í lægri greiðsluþátttöku notenda þjónustunnar en samtímis eru rekstrartekjur stofnana, sem er hlutdeild notenda, hækkaðar um 700 m.kr. Það er því í reynd engin heildarlækkun á greiðsluþátttöku almennings. Á sama tíma boðar fjármála- og efnahagsráðherra aukna einkavæðingu í heilbrigðisþjónustu þrátt fyrir að allar kannanir sýni skýran vilja almennings um að heilbrigðisþjónusta sé rekin af hinu opinbera og aukinni einkavæðingu er hafnað. Enda veit fólk sem er, að aukin einkavæðing mun veikja opinberar heilbrigðisstofnanir enn frekar þegar þörf er á að styrkja þær.
Grein formanns BSRB má lesa í heild sinni hér.
Hækkun neysluskatta og breyting á vörugjöldum mun einnig bitna illa á launafólki. Afkomubati ríkissjóðs var um 120 m.kr. milli áranna 2021 og 2022 en þrátt fyrir það boðar frumvarpið aðhald á útgjaldahlið sem mun bitna illa á mörgum meginþáttum velferðarmálanna. Kemur fram í frumvarpinu að útgjöld eru almennt aukin mun minna en nemur verðbólgu á þessu ári og jafnframt minna en áætluð verðbólga á næsta ári.