Sumarorlof 2025
12 mar. 2025
Orlofsréttur skiptist í tvennt. Annars vegar er um að ræða rétt starfsmanns til að taka sér leyfi frá störfum og hins vegar rétt til launagreiðslna á meðan orlofinu stendur. Samkvæmt orlofslögum eiga allir sem vinna gegn launum rétt á orlofi og orlofslaunum.
Lágmarksorlof er tveir dagar fyrir hvern unninn mánuð á síðasta orlofsári, þar sem hálfur mánuður eða meira telst heill mánuður en skemmri tími telst ekki með.
Það telst til vinnutíma þó maður sé frá vegna veikinda eða slysa meðan hann fær greitt kaup eða hann er í orlofi. Sunnudagar og aðrir helgidagar teljast ekki orlofsdagar né heldur fyrstu fimm laugardagar í orlofi.
Opinberir starfsmenn eiga rétt til 30 orlofsdaga. Orlofsrétturinn reiknast alltaf hlutfallslega út frá starfshlutfalli og starfstíma. Eftir styttingu vinnuvikunnar er heildarorlof fyrir fullt starf 216 klukkustundir á ári, miðað við 36 stunda vinnuviku. Þar sem hver vinnudagur í dagvinnu er 7,2 klukkustundir, jafngildir þetta 30 orlofsdögum.
Þegar starfsmaður í vaktavinnu fer í orlof, skal hann fá óyggjandi upplýsingar um hvenær honum beri að mæta á vakt að orlofi loknu. Miðað skal að jafnaði við að vaktskrá haldist óbreytt.
Í kjarasamningum félaga innan BSRB er tímabil sumarorlofs almennt frá 1. maí til 15. september. Hjá flestum félögum á starfsmaður rétt á því að fá allt sitt orlof á því tímabili og að minnsta kosti 15 daga samfellda.
Þættir sem hafa þarf í huga vegna orlofstöku
- Orlof er greitt sem dagvinna.
- Vægi vinnuskyldustunda ávinnst ekki í orlofi.
- Orlof af vaktahvata er greitt jafnóðum (mánaðarlega)
- Orlof af vaktaálagi er greitt jafnóðum (mánaðarlega).
- Fyrir starfsmann í fullu starfi reiknast 7,2 klst. vinnudag.
- Ef vaktir eru styttri eða lengri getur það haft áhrif á hlutfall tíma sem teknir eru í orlofi eftir því hvernig það kemur niður á vaktaplaninu. Sérstaklega á það við ef um fastar vaktarúllur er að ræða.
Meðaltalsorlof
Mælt er með að orlof sé skráð sem meðaltalsorlof (ekki vaktir), að minnsta kosti þegar teknir eru samfellt fleiri en 3 orlofsdagar í röð.
Ástæður þess eru:
- Það skiptir máli m.t.t. vaktahvata að fá mætingu á hvern vinnudag þegar starfsmaður er í orlofi til að hann geti átt möguleika á vaktahvata (14-19 mætingar). Ef vaktir eru lengri eru mætingarnar færri.
- Meira gegnsæi er fyrir starfsmanninn á hvað fylgir með í orlofi og hvað ekki.
- Vinnuskil eru rétt. Geta verið í of miklum +/- ef orlof er sett á vaktir, m.t.t. rauðra daga sem falla á virka daga, vægis vinnuskyldustunda og vegna lengdar vakta.
- Jöfnun vinnuskila hafa áhrif til uppsöfnunar á tímum í vinnuskilum ef ekki er skráð meðaltalsorlof. Orlofsdagar eiga ekki að falla á rauða daga sem bera upp á virka daga.
- Ef orlof er ákveðið eftir að vinnuskýrsla liggur fyrir þarf að fjölga tímum í orlofi miðað við vaktir þar sem orlof tekur ekki mið af vægi vinnuskyldustunda.
- Við skráningu orlofs þarf alltaf að hafa í huga hvernig unnið er fyrir og eftir orlofið. Á það sérstaklega við þegar unnið er helgarvinnu í kjölfar orlofs í miðri viku
Orlofsuppbót á árinu 2025
Ríkið 58.000 kr.
Samtök fyrirtækja í velferðarþjónustu 58.000 kr.
Reykjavíkurborg 58.000 kr.
Samband íslenskra sveitarfélaga 59.500 kr.
Vinnustund – Sjálfsþjónusta – Leyfi
Staða orlofs birtist í sjálfþjónustu í Vinnustund undir „Leyfi“. Allir starfsmenn hafa aðgang að Sjálfþjónustu í Vinnustund og geta skoðaði upplýsingar um stöðu á orlofi, úttekið orlof og ávinnslur.
• Staða orlofs til úttektar miðað við daginn í dag
• Ávinnsla orlofs á orlofsárinu
• Orlofstímar fluttir frá fyrra tímabili