Starfsmannaskortur í heilbrigðisþjónustu – skýrt ákall frá Evrópuþinginu
9 apr. 2025
Á fundi í Evrópuþinginu þann 7. apríl 2025 komu þingmenn, fræðimenn og fulltrúar heilbrigðisstarfsfólks og alþjóðlegra verkalýðssamtaka saman til að fjalla um alvarlegan og vaxandi skort á starfsfólki í heilbrigðis- og félagsþjónustu um alla Evrópu. Fundurinn undirstrikaði að starfsmannaskorturinn er ekki lengur staðbundið eða tímabundið fyrirbæri, heldur kerfislæg, evrópsk áskorun sem kallar á samstilltar aðgerðir á vettvangi Evrópusambandsins og einstakra ríkja.
Fulltrúum frá EPN (European Practical Nurses) evrópusamtökum sjúkraliða, sem Sjúkraliðafélag Íslands á aðild að, var boðið á fundinn. Sandra B. Franks, formaður og Gunnar Örn Gunnarsson sóttu fundinn fyrir hönd félagsins.
Í persónulegum frásögnum hjúkrunarfræðinga og verkalýðsleiðtoga frá Rúmeníu og Belgíu kom í ljós að vinnuaðstæður eru orðnar óásættanlegar víða. Ræður þeirra Florence Ndebo og Razvan Gae lýstu mikilum mönnunarskorti, óásættanlegum launakjörum, sívaxandi skrifræði, andlegu og líkamlegu álagi starfsfólks, allt á sama tíma og eftirspurn eftir þjónustu eykst vegna öldrunar flókins og lakara heilsufari. Í Rúmeníu er enn greitt fyrir yfirvinnu samkvæmt taxta frá 2018 og heilbrigðisstarfsfólk fyllir út skýrslur bæði á pappír og rafrænt – sem veldur mistökum, álagi og kulnun. Í Belgíu hefur 41% menntaðra hjúkrunarfræðinga yfirgefið vettvanginn.
Prófessor Roland Erne frá Háskólanum í Dublin benti á hvernig ESB-stefna hefur tvíþætt áhrif, annars vegar styður hún aðgerðir til að bæta öryggi og réttindi starfsmanna, og hins vegar hefur hún með fjárlagareglum, markaðsvæðingu og samkeppnislögum þrýst heilbrigðiskerfum til niðurskurðar og einkavæðingar. Þetta hefur ýtt undir skort, aukið álag og skapað víðtækt vantraust.
Kallað eftir nýrri nálgun
Tilly Metz, þingkona Græningja og varaformaður nefndar um lýðheilsu, lagði fram skýr skilaboð: „Við verðum að setja starfsumhverfi, örugga mönnun og geðheilsuvernd í forgrunn – og hætta að fórna heilbrigðisþjónustu fyrir hernaðarútgjöld.“ Hún hvatti til þess að sett yrði samevrópsk tilskipun um lágmarksmönnun og sálfélagslegan stuðning á vinnustöðum heilbrigðisstarfsfólks.
Einnig kom fram gagnrýni á tilhneigingu sumra aðildarríkja til að flytja inn starfsfólk frá ríkjum í suðri án þess að virða menntun þeirra eða tryggja þeim öruggar og mannúðlegar aðstæður. Baba Ayelobola frá Public Services International kallaði þetta „hvítu sloppana þrælahald“ („la traite des blouses blanches“) og hvatti til gagnkvæmra og siðferðilega ábyrgra ráðninga á grundvelli tvíhliða samninga.
Þjóðfélagsleg og lýðræðisleg afleiðing skortsins
Í lok fundarins var vakin athygli á því hvernig brotinn heilbrigðiskerfi getur grafið undan samfélagslegri sátt. Of mikið álag og of lítil viðurkenning leiðir ekki aðeins til kulnunar og brottfalls á starfsfólki, heldur einnig til ójöfnuðar í þjónustu og að almenningur missir traust á kerfinu. Þetta geti grafið undan lýðræði og valdið örvæntingu hjá fólki.
Fundurinn endaði á ákalli til Evrópuþingsins og aðildarríkja um að fjárfesta í mannauð heilbrigðiskerfisins, ekki bara í steypu, gagnagrunnum eða markaðsvæðingu. Starfsfólk í heilbrigðisþjónustu þarf ekki aðeins að vera til staðar, það þarf að njóta virðingar, öryggis og faglegra skilyrða sem gera störfin arðbær og langlíf. Eins og Tilly Metz sagði: „Við verðum að hugsa um þá sem hugsa um okkur.“