Stærsta áskorunin er heilbrigðiskerfið
27 nóv. 2024
Heilbrigðismál voru umræðuefni á framboðsfundi sem fimmtán fagfélög í heilbrigðisþjónustu héldu saman í sal Sjúkraliðafélagsins við Grensásveg þann 22. nóvember sl. Þess má geta að í þessum fagfélögum eru 15 þúsund félagar.
Tíu frambjóðendur jafnmargra flokka svöruðu spurningum frá starfsfólki velferðarþjónustunnar. Eyrún Magnúsdóttir blaðamaður stjórnaði fundinum sem var streymt á mbl.is og visir.is eða hér: https://vimeo.com/event/4742410
Mörg stór verkefni brunnu á frambjóðendum og má þar nefna heilsugæsluna, þjónustu við eldri borgara svo sem með fjölgun hjúkrunarheimila og fækkun biðlista eftir læknisþjónustu. Þá voru allir sammála um að koma þyrfti í veg fyrir manneklu fagfólks í heilbrigðisþjónustu með hærri launum.
Hér á eftir fara svör þeirra við fyrstu spurningunni:
- Hvert er brýnasta forgangsmál þíns flokks í heilbrigðismálum og hvernig lítur áætlun flokksins út varðandi það mál
Guðmundur Ingi Guðbrandsson, VG, var fyrstur til að svara: „Það sem við leggjum á oddinn er að efla opinbera heilbrigðiskerfið sem við eigum öll að geta sótt þjónustu til. Nauðsynlegt er að efla heilsugæsluna um allt land og heilbrigðisþjónustu almennt. Við horfum til þess að koma á meira forvarnarbyggðu heilbrigðiskerfi þar sem við erum frekar að koma í veg fyrir að eitthvað „bili“ en að það þurfi að laga það. Þetta skiptir miklu máli vegna öldrunar þjóðarinnar. Þessi atriði ná bæði til líkama og sálar. Ég er að tala um aukna heilsueflingu og endurhæfingu.
Verkefni sem við Willum settum í gang, Gott að eldast, er einmitt þannig hugsað og ætlað til að umbylta þjónustu við eldra fólk svo það geti búið lengur heima hjá sér. Síðan er það geðheilbrigðisþjónustan. Við viljum efla geðheilbrigðisteymin og sálfræðiþjónustu inni á heilsugæslunni. Það er mjög áríðandi fyrir alla aldurshópa og ekki síst ungmenni. Efla bráðaþjónustu og gott aðgengi að fæðingarþjónustu á vel skilgreindum svæðum um allt land. Búa til starfsumhverfi þar sem starfsmenn eru ekki að sligast undan álagi. Vaktavinna er slítandi og hún er algeng á heilbrigðisstofnunum. Við þurfum að fjölga starfsmönnum, uppræta kynbundinn launamun og bæta launakjörin.“
Alma Möller, Samfylking: „Uppbygging innviða. Greiða til baka þá skuld sem safnast hefur upp, hvort sem er í mönnun, húsnæði, tækni eða rafrænum kerfum. Brýnasta einstaka úrræðaefnið er brotakennd þjónusta við eldra fólk þar sem á hverjum tíma eru tugir ef ekki hundruð að bíða eftir hjúkrunarrými á Landspítala og Sjúkrahúsinu á Akureyri með slæmum afleiðingum bæði hjá einstaklingum og kerfinu í heild. Það liggur mest á að byggja þau hjúkrunarrými sem vantar en samhliða þarf að byggja upp þjónustu sem gerir hinum aldraða kleift að vera heima eins lengi og unnt er. Heilsuefling er þar gríðarlega mikilvæg og ætti að hefjast strax í æsku. Heilsuefling eldri borgara er afar mikilvægt verkefni, að styðja við hvers kyns heimaþjónustu, dagdvöl, heimahjúkrun svo eitthvað sé nefnt. Það hefur mikið vantað upp á uppbyggingu hjúkrunarheimila.
Spurt er hvernig á að framkvæma þetta en ég hygg að slík framkvæmdaáætlun sé í gangi nú þegar og auðvitað þarf þá að vinna eftir henni. Ég heyri að ríki og sveitarfélög benda á hvort annað en það er vissulega búið að taka skref til að ríkið taki meiri ábyrgð en það þarf klárlega að taka samtalið þar.
Við viljum að fólk fái fastan tengilið við heilbrigðiskerfið. Það vantar mikið upp á fjölda heimilislækna svo það er ekki raunhæft að öll fái heimilislækni strax þótt það sé markmið til lengri tíma. Með því að fara í úrbætur fyrir eldra fólk er hægt að auka lífsgæði þess og minnka þörf fyrir aðra þjónustu. Umönnun er sömuleiðis brýn, það vantar öldrunarlækna, öldrunarsálfræðinga og sérhæfingu á hjúkrunarheimilum.“
Willum Þór Þórsson, Framsókn: „Það hvað mörg fagfélög standa á bak við þennan fund, breiðfylking fagfólks endurspeglar hversu víðfeðmt og stórt þetta verkefni er. Þetta er stærsta þjónustuafhendingarkerfi þjóðarinnar. Við viljum jafnt aðgengi allra óháð efnahag og búsetu. Við þurfum að virða þetta gagnkvæma samband fagfólks og sjúklinga ásamt því að hlúa að því. Það gerum við best með því að hlúa að mannauðinum sem verður stöðugt meiri áskorun en það þarf að manna kerfið okkar til að mæta vaxandi eftirspurn.
Nauðsynlegt er að standa að baki fagfólksins en á þeirri hugsun hef ég alið í ráðuneytinu undanfarin þrjú ár, til dæmis með því að gefa meira sjálfræði í skipulagi. Það er breið þekking hjá fagfólki sem þarf að vinna saman. Ég gæti í framhaldi af þessum rætt um allt það sem hvílir á okkur varðandi fjármögnunina til að allt gangi upp. Mönnun og fjármögnun, hlúa að starfsfólkinu til að skila þessu meginmarkmiði er kjarninn í nálguninni.“
Arnar Þór Jónsson, Lýðræðisflokkurinn: „Hér erum við örfáar hræður í þessu landi þar sem er verið að bruðla með okkar peninga. Þegar talað er um að ríkið ætli að veita pening í hitt og þetta eru það okkar peningar. Þeir bruðla þannig að það er verið að byggja rándýrar skrifstofur Alþingis. Það væsti ekkert um þá í eldri byggingum, ég kom inn í þær og get borið vitni um það sem varaþingmaður. Landsbankinn er kominn í rándýrt húsnæði og Utanríkisráðuneytið þarf ekkert nema fínt og dýrt en á sama tíma liggur fólk á göngum Landspítalans. Ég get sjálfur borið vitni um það þar sem ég hef heimsótt náinn aðstandanda á sjúkrastofnun síðustu vikur og mánuði.
Forgangsröðunin er greinilega á hvolfi og brýnasta verkefnið er að taka til í ríkisrekstrinum og beina fjármunum þangað sem eldarnir loga heitast. Þetta fólk sem situr hér við hliðina á mér hefur svikið allt sem lofað hefur verið. Þau eru samt að tala um einstaklingsmiðaða þjónustu sem er til í kerfinu. Í Covid þar sem Alma Möller og Willum báru mikla ábyrgð var allri hefðbundinni læknisþjónustu hent út um gluggann og ein meðferð, eitt lyf átti að duga fyrir alla. Heilbrigðisvandi þjóðarinnar var aukinn gríðarlega, sálfræðilega, félagslega og fjárhagslega. Þetta var aðför að réttarríkinu sem Íslendingar hafa enn ekki haft hugrekki til að horfast í augu við en aðrar þjóðir eru byrjaðar að gera. Ég segi að við þurfum að losa okkur við þetta fólk og þess vegna erum við að bjóða fram Lýðræðisflokkinn. Við viljum hreinsa til á Alþingi og láta heilbrigðiskerfið ganga fyrir, það er mál númer eitt.“
Jón Ívar Einarsson, Miðflokkur: „Ég er nýgræðingur í pólitík og ætla að byrja á því að gera mistök því ég vil hrósa Willum heilbrigðisráðherra. Ég tel að hann hafi staðið sig ótrúlega vel í starfi. Hann hefur tekið ákveðna nálgun á heilbrigðismál sem er praktísk nálgun sem byggir á því að leysa vandamál. Hann hefur ekki staðið fastur í pólitískum kreddum.
Forgangsmál að mínu mati er bætt aðgengi aldraðra. Við eldumst öll og mesti kostnaður í heilbrigðiskerfinu er öldrun og flóknustu vandamálin. Þetta fólk lendir oft inni á sjúkrahúsi sem kostar samfélagið mikið og aðbúnaður þess er oft til skammar. Það eru 30 ár síðan ég var í læknisfræði en þá lá eldra fólk og oft það yngra líka, á göngum spítalanna og það er þannig enn í dag. Það þarf að leysa þennan fráflæðisvanda svokallaða strax. Ég veit að Willum hefur verið að reyna það en betur má ef duga skal. Það þarf að byggja hjúkrunarheimili mun hraðar auk þess að bæta heimilisþjónustu fyrir aldraða svo fólk geti lifað sómasamlegu lífi heima hjá sér svo lengi sem unnt er. Þetta er mjög mikilvægt mál. Það þarf að eyða biðlistum en mjög margt eldra fólk er með vandamál sem tengjast liðverkjum og þarf að komast í liðskipti. Það hefur verið gert töluvert átak í þessum efnum en enn er langt í land að það sé fullleyst. Við vitum að lífsgæði fólks eru verulega skert þegar það fær ekki lausn sinna mála. Það er þjóðhagslega hagkvæmt að leysa þau mál fljótt og vel. Lágmarksþjónusta eldra fólks, hafandi verið aðstandandi, er að það hafi sitt eigið herbergi og salerni á hjúkrunarheimilum.“
Hanna Katrín Friðriksson, Viðreisn: „Við erum með lög um heilbrigðisþjónustu sem kveður á um jafnan rétt fólks til þjónustu óháð fjárhag og búsetu og það segir sitt. Við vitum að heilbrigðisþjónusta er samofin efnahagsmálum. Ég gæti sagt; komum skikki á hagstjórnina og málið er búið. Þetta er það stór útgjaldaliður í fjárlögunum. Það sem við höfum lagt áherslu á er kannski tvennt; biðlistar barna og eldra fólks. Það þarf að vinna á þessu tvennu og losa um stóru kerfin sem eru sjúkrahúsin og heilsugæslan. Hins vegar er það ekki bjóðandi og við í Viðreisn höfum vakið athygli á því að biðlistar fyrir börn hvort sem þau eru með líkamlega eða andlega sjúkdóma eru ekki boðlegir. Við eigum að gera betur. Þetta hefur mjög slæm áhrif á svo marga þætti í samfélaginu.
Biðlistar eldra fólks eftir þjónustu, til að mynda eftir hjúkrunarheimili eða læknisþjónustu, eru ekki boðlegir í okkar samfélagi. Þar höfum við lagt til hina ýmsu þætti. Okkur finnst ótækt að nýta ekki þjónustu nýsköpunarfyrirtækja sem eru með ýmis konar tæknilausnir. Við viljum einfalda kerfin og láta þau vinna saman til að einfalda lífið fyrir notendur, ekki síst úti á landi, og fagfólk. Þetta er risastórt mál sem bæði getur bætt þjónustu og dregið úr kostnaði. Það er ótækt hvað illa hefur gengið við uppbyggingu hjúkrunarheimila og þar komum við aftur að stöðu efnahagsmála. Gríðarlega dýrt er að byggja en ég veit að það gengur betur að koma einkareknum aðilum inn til dæmis með lögum um leigutekjur og annað. Svo eru kjör kvennastétta mikilvægt mál.“
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, Sjálfstæðisflokkur: „Brýnasta málið sem við setjum á oddinn er fjölgun úrræða fyrir eldra fólk í formi hjúkrunarrýma á grundvelli þess samkomulags sem Þórdís Reykfjörð Gylfadóttir og Willum Þór skrifuðu undir fyrr á árinu með því að áforma mjög skýrt að ríkið sæi alfarið um húsnæði undir rekstur hjúkrunarheimila. Þrátt fyrir skýra áætlun í fjármögnun hjúkrunarheimila hafa þau ekki risið samkvæmt henni. Ég myndi segja að þessi mál væru mjög tilbúin fyrir næstu ríkisstjórn að hlaupa hratt í og fjölga úrræðum. En það þarf að vera í takt við önnur skýr og mikilvæg úrræði eins og dagdvöl, jafnt sérhæfða sem almenna. Slík úrræði auka mjög öryggi og draga úr félagslegri einangrun. Allt þetta þarf að gera til að mæta þessari stóru áskorun.
Hitt stóra málið er almennt bætt þjónusta við fólk og umhverfi heilbrigðisstarfsfólks. Það er nátengt og ekki hægt að skilja í sundur því bætt umhverfi starfsfólks skapar betri umhverfi til að hlúa að velferð fólks. Efla þarf uppbyggingu á grunnþjónustu, heilsugæslunni. Þar er besta dæmið um kosti og nýtingu einkaframtaksins, að láta fé fylgja hverjum sérfræðilækni til að ýta undir fjölgun heimilislækna. Nauðsynlegt er að draga úr sóun, draga úr þeim tíma sem heilbrigðisstarfsfólk eyðir í að skrifa vottorð og skriffinnsku sem tekur tíma frá því til að sinna sjúklingum. Að Sjúkratryggingar geri samninga við alla aðila heilbrigðisþjónustu, hvort sem um er að ræða opinbera aðila eða einkaframtak til að laga biðlista.
Þá er nauðsynlegt að stórauka rafræna tækni, ég trúi því að íslenskt heilbrigðiskerfi geti verið í fremstu röð þjóða gagnvart því að vera með snjallvætt kerfi sem ýtir undir að við getum fókuserað enn betur á þjónustu við sjúklinga, hlúð betur að starfsfólki, nýtt fjármagn betur og nýtt þá kosti sem við höfum sem tæknivætt land fyrir allt samfélagið með enn betra heilbrigðiskerfi.“
Sanna Magdalena Mörtudóttir, Sósíalistaflokkur: „Við leggjum höfuðáherslu á að allir tekjustofnar ríkisins verða efldir, að skattheimta verði með réttlátum hætti og við höfum gert áætlun um betra plan í ríkisfjármálum. Við erum með skýra stefnu um að skattkerfi okkar verði sanngjarnt og markmið í því sambandi að vera með nógu góða skattstofna sem geta boðið upp á góða og öfluga heilbrigðisþjónustu. Við vitum að þegar tekjustofnar eru ekki nógu sterkir bitnar það á grunnþjónustu sem við þurfum öll á að halda og leiðir til niðurskurðarstefnu með tilheyrandi álagi á starfsfólk. Við viljum að nægt fjármagn verði sett inn í heilbrigðisþjónustuna en til þess að nýta það sem best þarf að hlusta á starfsfólkið sem vinnur við þessi mál á hverjum degi varðandi það hvernig úthlutun fjármagnsins á að fara fram. Við þurfum að hlusta á hvað starfsfólk innan ólíkra geira leggur til, hvað er brýnast að gera og hvernig má útfæra það. Við lítum á að það sé gríðarlega mikilvægt og samhliða þessu þurfum við lýðræðislegt vald með röddum þeirra sem best þekkja til á heilbrigðisstofnunum. Það þarf að koma í veg fyrir það að fólk treysti sér ekki til að vinna innan heilbrigðisþjónustunnar þar sem það sér ekki hvernig það geti sinnt starfi sínu sem best.“
Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, Píratar: „Fyrir okkur er brýnasta forgangsmálið að ráðast í heildarendurskoðun á því virðismati sem hefur komið okkur á þennan stað. Við erum að fara í gríðarmiklar tækniframfarir sem munu taka yfir mikið af störfum. Það sem verður ekki tekið yfir eru störf sem tengjast umönnun og því að lækna fólk og hlúa að því. Þetta eru verðmætustu störfin okkar og það er ekki komið fram við starfsfólkið samkvæmt því.
Við tölum fyrir endurmati á tvennu, ekki bara kvennastétta, heldur allra stétta sem koma að umönnun í samstarfi við það ótrúlega mikilvæga framlag sem þessi störf skaffa samfélaginu. Að snúa frá þeirri stefnu að tala um heilbrigðismál sem útgjöld á blaði í stað þess að sjá þessa stórkostlegu fjárfestingu og bjóða upp á fyrsta flokks heilbrigðisþjónustu og margvísleg úrræði. Við styðjum niðurgreiðslu á sálfræðiþjónustu en það þurfa ekki allir á henni að halda. Kannski bara smá ráðgjöf um hvernig eigi að taka til í mataræðinu eða takast á við tímabundnar áskoranir. Ef fólk fær aðstoð með það þá losum við okkur við dýrari vandamál síðar á lífsleiðinni. Ef við nálgumst málið frá þessari hlið, vellíðan, velsæld, að minnka afkomuótta, áhyggjur og minnka streitu þýðir það heilbrigðari þjóð og minna álag á heilbrigðiskerfið. Fyrsta forgangsmál okkar er að hlúa að mannauðinum og heilbrigðisþjónustu sem hefur upplifað mikla vanvirðingu og vanmat á virði þeirra starfa í mjög langan tíma. Við ætlum ekki að setja vélmenni í umönnunarstörf, það kemur ekkert í stað alvöru fólks að hugsa um annað fólk. Það þarf að bæta launakjör og stuðning í samræmi við mikilvægi þessara starfa og fara í það að snúa við þessu ranga virðismati.“
Kolbrún Baldursdóttir, Flokkur fólksins: „Það hefur verið áhugavert að hlusta á hvað frambjóðendur hafa sagt og ég er sammála næstum öllu. Fyrir mér er þetta bara spurning um að byrja á tvennu, mannauðnum en hvar sem litið er í kerfinu er mannekla. Það strandar allt á vöntun á fagfólki. Það þarf að hækka laun innan heilbrigðisstétta verulega og það er áríðandi að byrja á að taka frá fjármagn í það til að fá fagfólk í heilbrigðisþjónustu. Einnig þurfum við að fá læknana okkar heim. Það er ekki boðlegt þegar fólk kemur ekki heim eftir nám, til dæmis vegna húsnæðisskorts.
Mannsæmandi laun ættu að vera í boði fyrir hámenntað fólk. Það er mikil eftirspurn eftir læknum úti í heimi og þeir koma ekki heim. Við getum byrjað á að láta þessa hluti fara að ganga.
Nýi Landspítalinn er löngu sprunginn og strax kominn í vandræði. Síðan eru það hjúkrunarheimilin. Enginn staður fyrir fullorðið fólk sem er búið með sína meðferð á Landspítalanum. Ég vil líka horfa til barna með fjölþætt vandamál og mikla þjónustuþörf. Í gamla daga þegar ég starfaði sem sálfræðingur voru meðferðarheimili til að grípa allra verst settu börnin. Núna er ekki neitt. Það dynja yfir sjálfsvígsfréttir og við verðum að horfa til þessa hóps og gera eitthvað í málunum. Er það ásættanlegt að það getur tekið allt að fjórum mánuðum að fá að hitta lækninn sinn á heilsugæslunni? Þegar maður lítur yfir flóruna síðustu misserin hefur svo margt versnað. Ég veit að fólki hefur fjölgað mikið hér á landi en okkur hefur ekki tekist að grípa það. Að komast ekki til læknis á heilsugæsluna hlýtur að þýða stórkostlegan bakreikning síðar sem kemur í bakið á okkur. Við erum hlynnt niðurgreiðslu til sálfræðinga, kannski ekki til allra, en þurfum að gera verulega betur fyrir þá sem þess þurfa.“
Þeir sem stóðu að fundinum:
Læknafélag Íslands
Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga
Sjúkraliðafélag Íslands
Félag þroskaþjálfara
Sálfræðingafélag Íslands
Félag lífeindafræðinga
Félag íslenskra náttúrufræðinga
Félagsráðgjafafélag Íslands
Iðjuþjálfarafélag Íslands
Ljósmæðrafélag Íslands
Þroskaþjálfafélag Íslands
Tannlæknafélag Íslands
Félag geislafræðinga á Íslandi
Viska stéttarfélag sérfræðinga
Lyfjafræðingafélag Íslands