Sjúkraliðar lifa ekki af laununum sínum
20 feb. 2013
https://www.ruv.is/frett/sjukralidar-lifa-ekki-af-laununum
Mörgum sjúkraliðum á Landspítalanum reynist erfitt að lifa af launum sínum segir formaður stéttarfélags þeirra. Launin séu lág og einnig sé oft aðeins hlutastarf í boði. Vonir standi til þess að kjörin verði leiðrétt fljótlega.
Eftir að hjúkrunarfræðingar gengu frá stofnanasamningi við Landspítalann í síðustu viku hafa aðrar stéttir innan spítalans krafist launaleiðréttingar. Þar á meðal eru aðrar kvennastéttir, til dæmis lífeindafræðingar, geislafræðingar og ófaglærðir starfsmenn í eldhúsum og þrifum. Sömu sögu er að segja um sjúkraliða sem munu funda með stjórnendum spítalans í fyrramálið. Þeir telja laun sín allt of lág, þeir fái að meðaltali um 270 þúsund krónur fyrir fullt starf.
„Síðan hefur það sýnt sig líka þegar laun og launaþróun hafa verið skoðuð, að þetta hefur haldist,“ segir Kristín Guðmundsdóttir, formaður Sjúkraliðafélags Íslands. „Sjúkraliðar hafa dregist aftur úr öðrum viðmiðunarstéttum innan BSRB. Ástæðan fyrir því er sú að hjúkrunarfræðingar hafa ekki fengið nægjanlegar hækkanir á síðustu árum og hafa því „setið ofan á“ sjúkraliðum,“ bætir hún við.
Við bætist að fæstir sjúkraliðar eru í fullu starfi. Kristín segir að meðal starfshlutfallið sé í kringum 75 prósent. „Það hefur verið svarið frá yfirmönnum að þeir vilji ekki sjúkraliða í meiri vinnu því þetta séu erfið störf,“ segir hún. „ En þeim er ætlað að lifa á launum fyrir kannski 40 til 50% starfshlutfall, þótt þeir jafnvel telji sig vinna meira.“ Af þessum launum segir Kristín að sé útilokað að lifa.