Fréttir

Sjúkraliðar og hjúkrunarfræðingar starfsstéttir ársins

31 des. 2020

Á viðburðaríku ári sem nú er að líða yfirskyggði Covid-19 faraldurinn allt annað. Hann kom í veg fyrir að hægt væri að kynna kjarasamningana á fundum með sjúkraliðum, ræða um innihald þeirra og fá útskýringar. Faraldurinn reyndi einnig verulega á starfsþrek okkur sjúkraliða. Mörg okkar, voru og eru, í framlínunni. Aðrir sjúkraliðar standa vaktina í störfum sem ekki eru síður mikilvæg.

Á árinu höfum við skerpt faglega og stéttarlega ásýnd okkar. Sjúkraliðar eru í sókn. Morgunvakt Rásar 1 tilnefndi sjúkraliða og hjúkrunarfræðinga starfsséttir ársins. Það er ekki að ástæðulausu að ég finni fyrir stolti yfir því hve frábærlega sjúkraliðastéttin hefur staðið sig. Covid faraldurinn hefur dregið fram mikilvægi sjúkraliða sem í dag er lykilstétt í hjúkrun á Íslandi. Við sinnum nærhjúkrun, erum burðarstétt á spítölunum, á hjúkrunarheimilunum, og höldum uppi heimahjúkrun og heimaþjónustu.

Á árinu voru verkefni okkar margvísleg. Vegferð okkar heldur áfram að vera krefjandi því á nýju ári förum við saman í gegnum innleiðingaferli kjarasamninganna. Nú um áramótin gengur í gegn stytting vinnuvikunnar fyrir dagvinnufólk. Kjarasamningar okkar um kerfisbreytingu er veruleg kjarabót á íslenskum vinnumarkaði. Þessa samninga á sagan eftir að skrá sem kaflaskil í verkalýðsbaráttu hér á landi. Samkomulagið felur í sér áskorun um betri vinnustaðamenningu og aukin lífsgæði. Það er því mikilvægt að stjórnendur vinnustaða, eininga eða deilda, séu með réttar upplýsingar á hverjum tíma, og að félagsmenn okkar, sjúkraliðar, taki virkan þátt í innleiðingunni með því ræða málin og leggja fram eign óskir um útfærslu á styttri vinnuviku í umbótasamtali með stjórnendum.

Styttri vinnuvika í dagvinnu 1. janúar 2021

Við innleiðingu á því sem samið var um í kjarasamningum hefur því miður gætt misskilnings um neysluhlé. Sú breyting sem samið var um er að neysluhlé starfsmanna verða á forræði vinnuveitenda og tekin á vinnustaðnum. Þannig hefur það að jafnaði verið hjá okkur sjúkraliðum. Breytingin á þessu er því lítilsháttar fyrir sjúkraliða. Samkomulag um vinnutímann er því 36 stunda vinnuviku með neysluhléum. Á vinnustöðum þarf því ekki að endursemja um að fólk fái tíma til að nærast, heldur á samkomulagið að snúast um hvernig stytting vinnuvikunnar verður útfærð. Sjúkraliðar, ásamt stjórnendum á hverjum vinnustað fyrir sig, verða í umbótasamtali að finna leiðir til þess.  Niðurstaða samtalsins þarf svo að vinna með áfram og leggja undir atkvæði starfsmanna.

Betri vinnutími í vaktavinnu 1. maí 2021

Um breytingu á vinnutíma í vaktavinnu er þessu öðruvísi farið. Hjá vaktavinnufólki tekur vinnutímabreytingin gildi 1. maí 2021. Ástæða þess er að sú breyting er flókin í framkvæmd. Um þessar mundir er unnið að kerfislausnum og mótun á nýju vaktakerfi í vinnustund. Nýtt mönnunarlíkan er í kynningarferli fyrir stjórnendur og fjölmörg fræðslumyndbönd hafa nú þegar verið kynnt fyrir starfsmönnum.

Þrátt fyrir ítarlegt fræðsluefni og kynningar hefur því miður gætt misskilnings um þessar breytingar, lengd vakta, vetrafríin, sumarorlof og sjálfa innleiðinguna. Breytingin sem nú er í innleiðingarferli er risastór kerfisbreyting. Eðli málsins samkvæmt erum við sjúkraliðar hugsi yfir ferlinu. Fyrirspurnir og efasemdir um gæði kjarasamningana kemur ítrekað fram í samtölum mínum við sjúkraliða. Það er því ástæða að fara aðeins yfir eftirfarandi atriði:

  1. Innleiðingarferlið sem leitt af stýrihóp Ríkissáttasemjara stendur nú yfir. Fræðsluefni og námskeið fyrir stjórnendur og starfsfólk eru kynnt á betrivinnutimi.is. Vinnustaðir hjá hinu opinbera eru fjölbreyttir og endurspegla margvíslega þætti almannaþjónustunnar. Það er samtakamáttur launþega sem kom okkur í þessa vegferð og með áframhaldandi samtali og samvinnu við stjórnendur mun innleiðingin skila okkur betri vinnutíma og bættari lífskjör.
  2. Kerfisbreyting um betri vinnutíma er krefjandi verkefni og mun taka á okkur öll. Samkomulagið felur í sér að sjúkraliði í fullu starfi á 8 tíma vöktum þarf að koma 22 sinnum sjaldnar til vinnu á ári, sem er eins mánaðar vinnuframlag. Allflestir sjúkraliðar eru í 80 – 90% hlutastarfi, eða um 90% félagsmanna. Vonir eru bundnar við að félagsmenn ákveði að halda vinnuframlagi sínu óbreyttu, eða jafnvel bæti við sig vinnuframlagi ef það hentar stofnuninni. Í umbótasamtali með stjórnendum þarf vilji sjúkraliða að koma fram. Því markmið samtalsins er meðal annars að komumst hjá því það myndist hið svokallaða mönnunargat í heilbrigðiskerfinu. Útfærslur á vinnutíma verða eins misjafnar og við erum mörg, það er því ekki hægt að útskýra miðlægt hvernig niðurstaðan verður fyrir hvern og einn. Sú niðurstaða á að koma fram í umbótasamtali við stjórnendur.
  3. Vetrarfríin verða með sambærilegum hætti og verið hefur. Breytingin sem verður fellst í að nú fer fjöldi frídaga eftir fjölda helgidaga á hverju ári sem ber upp á virkan dag á árinu. Árleg vinnuskil dagvinnu- og vaktavinnufólks verði þau sömu. Það þýðir að fjöldi daga verða á bilinu 9 til 13 á ári, en voru alltaf 11 dagar, miðað við 8 tíma vaktir. Við úttekt á þessum frídögum verður hægt að koma til móts við óskir um samfellt frí ef það hentar starfseminni. Í samræmi við markmið samninganna um betri vinnutíma fellur bætingin niður.
  4. Yfir sumarorlofstímabilið eiga allir sjúkraliðar rétt á að fá allt að 30 daga orlof, þar af 15 daga samfellda. Meginbreytingin í þessu er sú að nú fá allir 30 daga í orlof, og þegar að er tekið utan hins skilgreinda sumarorlofstímabils, fæst einungis 25% lenging í þeim tilvikum þegar skrifleg beiðni yfirmanns liggur fyrir.

Verkefni okkar eru krefjandi og munu reyna á þolrif félagsmanna. Bóluefni gegn Covid-19 gefur okkur von um bjartari framtíð. Með samtakamætti stéttarinnar förum við í gegnum Covid-bylgur og innleiðum betri vinnustaðamenningu og bættari lífskjör.

Ég vil óska ykkur gleðilegs árs mínir kæru sjúkraliðar, og þakka ykkur fyrir dásamlegt samstarf á árinu sem var bæði krefjandi og árangursríkt. Það verður hver manneskja betri af því að vinna með fólki eins og ykkur.

Sandra B. Franks formaður Sjúkraliðafélags Íslands

Til baka