Sjúkraliðar með diplómapróf fá viðurkenningu í nýjum stofnanasamningi
1 júl. 2025
Sjúkraliðafélag Íslands og Samtök fyrirtækja í velferðarþjónustu (SFV) hafa gert tímamótasamkomulag um nýtt starfssvið og launaröðun fyrir sjúkraliða með diplómapróf. Samkvæmt nýjum stofnanasamningi raðast sérhæfðir sjúkraliðar í sérstakan launaflokk (S3) með aukna ábyrgð og skilgreind sérverkefni. Þetta er í fyrsta sinn sem viðbótarmenntun sjúkraliða fær formlega viðurkenningu í kjarasamningi.
„Þetta er stór áfangi í sögu sjúkraliðastéttarinnar. Nú liggja loks fyrir skýrar reglur um hvernig sjúkraliðar með diplómapróf fá viðurkenningu og faglegan framgang fyrir sérhæfingu sína,“ segir Sandra B. Franks, formaður félagsins.
Sjúkraliðar eru löggiltir heilbrigðisstarfsmenn með starfsleyfi frá Embætti landlæknis og starfa samkvæmt lögum nr. 34/2012. Með nýja samningnum hafa þeir sem lokið hafa diplómanámi fengið formlega stöðu sem lykilstarfsmenn í hjúkrunarteymum á hjúkrunarheimilum.
Sjúkraliðafélag Íslands fagnar samkomulaginu og lítur á það sem mikilvægt skref í að efla starfsþróun og framtíð sjúkraliðastarfsins.