Sjúkraliðar hafi áhrif á stefnumótun stjórnvalda
23 sep. 2020
Ályktun Fulltrúaþings Sjúkraliðafélags Íslands um stefnumótun –
29. fulltrúaþing Sjúkraliðafélags Íslands felur forystu félagsins að hefja markvissan undirbúning að stefnu félagsins um mönnun í heilbrigðisgeiranum. Tilgangurinn er að sjúkraliðar verði virkt og jákvætt afl í stefnumótun stjórnvalda á komandi árum.
Undirbúningurinn skal miða að því að félagið taki afstöðu til lykilþátta eins og opinberra mönnunarviðmiða, gæðaeftirlits með þjónustu stofnana, þjónustusamninga milli stofnana og ríkis, hlutverks heimaþjónustu og heimahjúkrunar með tilliti til öldrunar Íslendinga, æskilegs hlutfalls sjúkraliða í mannafla stofnana auk annarra mikilvægra þátta.
Við mótun stefnunnar skal m.a. hafa hliðsjón af þróun á Norðurlöndunum. Þar hefur hjúkrun og umönnun við aldraða í vaxandi mæli færst inn á heimilin og fjárframlög til heimaþjónustu eru nú 8 -15 sinnum hærra en á Íslandi (hlutfall af vergri landsframleiðslu).
Við undirbúning stefnumótun skal m.a. afla eftirfarandi grunngagna sem ekki liggja fyrir í opinberum gagnagrunnum:
- Í fyrsta lagi skal kortleggja núverandi stöðu sjúkraliða í heilbrigðiskerfinu með því að afla ítarlegra upplýsinga frá öllum heilbrigðisstofnunum um fjölda starfandi sjúkraliða, fjölda stöðugilda og hversu mörg stöðugildi eru æskileg að mati stjórnenda.
- Í öðru lagi skal fela sérfræðingum í samvinnu við fagstofnanir að greina þörf samfélagsins fyrir sjúkraliða fram til ársins 2030 með hliðsjón af spám um aldursþróun og öðrum lykilþáttum, s.s. auknu mikilvægi heimaþjónustu.
- Jafnframt skal forysta félagsins beita sér fyrir að stjórnvöld, þ.á.m. heilbrigðisráðuneyti, Embætti landlæknis og Ríkisendurskoðun, geri úttektir á stöðu og mikilvægi sjúkraliða fyrir heilbrigðiskerfið, tengsla milli gæða þjónustunnar og fjölda sjúkraliða.
Samþykkt þann 10. september 2020.