Sjúkraliðafélag Íslands fagnar 58 ára afmæli!
21 nóv. 2024
Í dag gleðjumst við yfir 58 ára afmæli Sjúkraliðafélags Íslands. Félagið, sem var stofnað sem fagfélag árið 1966, varð einnig stéttarfélag árið 1991 undir forystu Kristínar Á. Guðmundsdóttur. Þetta var stórt skref sem markaði tímamót í sögu félagsins og styrkti stöðu sjúkraliða í íslensku samfélagi.
Félagið hefur alla tíð staðið vörð um réttindi og hagsmuni sjúkraliða og sinnt fjölbreyttum verkefnum á breiðum grundvelli. Þrátt fyrir að starfa undir regnhlíf BSRB nýtur það sjálfstæðs samningsréttar í kjaraviðræðum, hvort sem litið er til kjarasamninga eða stofnanasamninga. Kjarabaráttan hefur ávallt verið í forgrunni, en hún er aðeins hluti af þeim fjölbreyttu verkefnum sem félagið vinnur að, meðal annars á sviði fræðslu-, útgáfu-, orlofs- og félagsmála.
Sjúkraliðafélagið leggur mikla áherslu á samstöðu og sterk tengsl við félagsmenn sína. Í dag eru rúmlega þrjú þúsund starfandi sjúkraliðar innan félagsins, sem gerir það að næstfjölmennustu heilbrigðisstétt landsins.
Sjúkraliðar hafa verið í stöðugri þróun og bæta sífellt við sig þekkingu og hæfni. Það er stórt skref fyrir stéttina að nú geta sjúkraliðar tekið viðbótarnám á háskólastigi, þróun sem opnar nýja möguleika til að taka á sig meiri ábyrgð og sækja sér betri kjör. Þessi vinna heldur áfram í nánu samtali við stjórnvöld.
Starf sjúkraliða er kjarni heilbrigðisþjónustunnar og gegna þeir lykilhlutverki í nærumhverfi sjúklinga og skjólstæðinga. Með einstakri umhyggju og fagmennsku styðja þeir við fólk á viðkvæmum tímum og vinna í fjölbreyttum aðstæðum – á sjúkrahúsum, heilsugæslustöðvum, dvalar- og hjúkrunarheimilum og sambýlum fyrir fatlaða. Þörfin fyrir sjúkraliða heldur áfram að aukast, samhliða hækkandi lífaldri og aukinni tíðni lífstílstengdra sjúkdóma. Atvinnumöguleikar sjúkraliða eru sterkir, og starf þeirra er lifandi, fjölbreytt og gefandi. Það er bæði áskorun og gleði að vera hluti af þessu mikilvæga starfi.
Við hjá Sjúkraliðafélaginu erum stolt af þeim árangri sem hefur náðst á þessum 58 árum og lítum björtum augum til framtíðar. Sjúkraliðar eru ekki aðeins mikilvægir í störfum sínum heldur eru þeir líka skemmtilegir, hugmyndaríkir og úrræðagóðir.
Innilegar hamingjuóskir með daginn, kæru sjúkraliðar – framtíðin er björt með ykkur!
Sandra B. Franks, formaður Sjúkraliðafélags Íslands