Sérhæfðir sjúkraliðar – vannýtt auðlind
8 nóv. 2024
Með því að nýta sérhæfða sjúkraliða ætti álagið að minnka á aðrar heilbrigðisstéttir. Það leiðir til betri nýtingar á mannafla og betri þjónustu.
Haustið 2021 fór Háskólinn á Akureyri af stað með diplómanám fyrir sjúkraliða í samstarfi við Sjúkraliðafélag Íslands og heilbrigðisáðuneytið. Í boði eru tvær námsleiðir, annars vegar öldrunar- og heimahjúkrun og hins vegar samfélagsgeðhjúkrun.
Ákveðið var að byrja á að hafa þessi tvö kjörsvið og var mikill og góður undirbúningur lagður í gerð námskrár, en báðar þessar námsbrautir eru 60 ECTS-einingar sem m.a. stuðla að aukinni fræðilegri þekkingu á áhrifum lyfja, verklegri þjálfun í lyfjagjöf, blóðtökum og uppsetningu æðaleggja, ásamt stjórnun og teymisvinnu.
Mikil áhersla er lögð á öldrunarsjúkdóma í öldrunar- og heimahjúkrunarnáminu auk sérhæfðrar þjálfunar í samtalstækni og framkomu við skjólstæðinga í krefjandi ástandi/aðstæðum í samfélagsgeðhjúkrun.
Í ljósi þess að með þessu nýja háskólanámi geta komið til starfa innan heilbrigðiskerfisins sjúkraliðar með enn víðtækari og öflugri menntun en fyrir var, sem geta sinnt fjölbreyttari og ábyrgðarmeiri störfum var reglugerð nr. 511/2013 um menntun, réttindi og skyldur sjúkraliða og skilyrði til að hljóta starfsleyfi uppfærð og aðlöguð í góðu samstarfi við Sjúkraliðafélag Íslands, Háskólann á Akureyri, heilbrigðisráðherra og heilbrigðisráðuneytið.
Í uppfærðri reglugerð með nýjustu breytingum frá 10. júlí 2024 kemur meðal annars fram í 5. gr. hvað sérhæfðir sjúkraliðar sem lokið hafa formlegu fagdiplómanámi á kjörsviði hjúkrunar í viðurkenndum háskóla hafi tileinkað sér með viðbótarmenntun og þjálfun. Slík verkefni geta verið að gefa ákveðin lyf samkvæmt verklagsreglum heilbrigðisstofnunar, þ.m.t. undir húð og í vöðva, blóðtaka, uppsetning þvagleggja og æðaleggja og fleira.
Því miður hafa ekki allir sérhæfðir sjúkraliðar sem lokið hafa þessu fagdiplómanámi fengið sérhæfð störf, þó svo að gríðarlegur skortur sé á fagfólki og þá sérstaklega sjúkraliðum.
Staðan er sú að árið 2023 útskrifuðust 20 sjúkraliðar með fagdiplómanám í öldrunar- og heimahjúkrun og einungis örfáir þeirra eru komnir með viðeigandi stöðu á heilbrigðisstofnunum síðan þá. Sumarið 2024 útskrifuðust níu sjúkraliðar með fagdiplómanám í samfélagsgeðhjúkrun, því miður hafa einungis tveir af þeim enn sem komið er fengið sérhæft starf eftir útskrift, þar sem námið er að nýtast heilbrigðisstofnunum og skjólstæðingum sem best.
Það er ekki beint hvetjandi fyrir sjúkraliða að bæta við sig sérhæfðri menntun ef þeir fá ekki tækifæri til þess að nýta starfskrafta sína með aukinni þekkingu í starfi. Auk þess sem skjólstæðingar fara þá einnig á mis við þessa sérhæfðu starfskrafta.
Hvað veldur?
Af hverju er tregða hjá stjórnendum heilbrigðisstofnana að ráða sérhæfða sjúkraliða?
Skýring stjórnenda var lengi vel að útlista þyrfti betur hvaða viðbótarverk sérhæfðir sjúkraliðar gætu tekið að sér. Nú liggur það fyrir með uppfærðri reglugerð nr. 511/2013.
Með því að nýta sérhæfða sjúkraliða ætti álagið að minnka á aðrar heilbrigðisstéttir. Það leiðir til betri nýtingar á mannafla og aukinnar starfsánægju heilbrigðisstarfsmanna auk betri þjónustu fyrir notendur heilbrigðisþjónustunnar. Aukið samstarf þvert á heilbrigðisstéttir eykur öryggi skjólstæðinga og ánægju starfsmanna sem leiðir til minni starfsmannaveltu.
Við í stjórn Sjúkraliðafélags Íslands hvetjum til þess að stjórnendur stofnana nýti tækifærið sem býðst með sérhæfðum sjúkraliðum sem hafa lagt á sig krefjandi nám og feli þeim störf við hæfi.
Höfundar eru í stjórn Sjúkraliðafélags Íslands.
Grein Magnúsar E. Smith, Láru Maríu Valgerðardóttur og Hafdísar Daggar Sveinbjarnardóttur var fyrst birt á mbl.is.