Sandra B. Franks sjálfkjörinn formaður til næstu þriggja ára
1 mar. 2024
Ég vil þakka sjúkraliðum sem hafa sýnt mér það mikla traust að fá að leiða okkar ágæta félag næstu þrjú árin. Ég fyllist alltaf stolti þegar ég kem fram fyrir hönd félagsins eins og ég hef gert í hartnær sex ár.
Mér þykir virkilega vænt um stétt sjúkraliða og starfið okkar. Ég veit það frá fyrstu hendi hversu mikilvægt starfið okkar er. Það sem meira er, þá veit ég að sjúklingar okkar og skjólstæðingar vita það einnig.
Kjarabarátta sjúkraliða
Á þessum tímamótum vil ég þó minnast sérstaklega á Kristínu Á. Guðmundsdóttur sem var formaður félagsins í 30 ár eða frá 1988 til 2018. Félagið stendur í mikilli þakkarskuld við Kristínu sem sinnti óeigingjörnu starfi í þágu okkar allra og í raun í þágu heilbrigðismála í heild sinni. Hún var í stafni á umrótatíma og var ófeimin að berjast fyrir hagsmunum okkar þannig að eftir því var tekið.
Með réttu má segja að Kristín hafi verið einn farsælasti verkalýðsleiðtogi þjóðarinnar síðustu áratugina. Undir hennar forystu blómstraði Sjúkraliðafélagið og náði fram mörgum af baráttumálum sínum. Það var á hennar tíma sem Sjúkraliðafélagið breyttist úr því að vera eingöngu fagfélag yfir í að vera einnig stéttarfélag. Þau tímamót áttu sér stað árið 1991 en þá voru sjúkraliðar í 32 mismunandi stéttarfélögum víðsvegar um landið. Um leið hófst mikil kjarabarátta og tókst hinu nýstofnaða stéttarfélagi m.a. að tryggja sér sérstakan kjarasamning og fjármuni í sjúkra- og orlofssjóði. Það munar um minna!
Kjarabarátta sjúkraliða hefur aldrei verið auðveld. Oft höfum við þurft að glíma við skilningsleysi stjórnenda og stjórnvalda. Þá hefur stéttin jafnvel mætt fordómum og stundum hreinum leiðindum innan stofnana. Þá skipti miklu máli að hafa manneskju eins og Kristínu í forsvari fyrir stéttina. Og við hlið hennar starfaði hinn ötuli skrifstofustjóri Birna Ólafsdóttir sjúkraliði til margra ára. Þær voru öflugt tvíeyki.
Framþróun sjúkraliðastarfsins
Sjúkraliðastarfið er stöðugt í mótun. Tæknin, gerfigreindin og framþróun starfa kallar á ný vinnubrögð og öflugar námsleiðir. Nú eru um 600 einstaklingar í sjúkraliðanámi og síðastliðið vor útskrifaðist fyrsti hópur sjúkraliða með diplómapróf á fagháskólastigi.
Framþróun sjúkraliðastarfsins kallar á nýjar áskoranir, bæði gagnvart stjórnvöldum og stofnunum. Í samræmi við stefnu stjórnvalda er hluti af námi sjúkraliða komið á háskólastig. Fagnám til diplómaprófs fyrir starfandi sjúkraliða er metnaðarfull 60 ECTS eininga námsbraut sem kennd er við Háskólann á Akureyri. Meginmarkmið námsins er efla klíníska færni og þekkingu á samskiptum sem meðferðartæki, þátttöku í þverfaglegu samstarfi og uppbyggingu aukinnar fagmennsku sjúkraliða. Skemmst er frá því að segja að heilbrigðisstofnanir um land allt hafa lengi kallað eftir slíkri færni og þekkingu á meðal sjúkraliða.
Ég bind einmitt miklar vonir við frekari framþróun sjúkraliðastarfsins enda kalla nýjir tímar einnig á breyttar áherslur í bæði starfi og menntun stéttarinnar. Sjúkraliðar eru í sókn, erum við næstfjölmennasta heilbrigðisstétt landsins. Það er því mikilvægt að við sjúkraliðar tökum okkur pláss. Rétt eins og Kristín okkar gerði svo vel og lengi.