Ríkisendurskoðun afhjúpar – Landspítali bregst sjúkraliðum
2 júl. 2025
Ríkisendurskoðun hefur nú opinberað það sem sjúkraliðar hafa lengi varað við. Að mönnun stéttarinnar á Landspítalanum er í algjöru lágmarki og þróunin stefnir að óbreyttu í kerfishrun. Samkvæmt nýju skýrslunni um Mönnun og flæði sjúklinga á Landspítala kemur fram að árið 2024 voru heil 379 stöðugildi sjúkraliða ómönnuð, aðeins 52% af áætlaðri mönnun var í raun fyllt. Það þarf ekki sérfræðing til að sjá að þetta er neyðarástand.
Sjúkraliðar vannýtt fagstétt í kerfinu
Meðalaldur sjúkraliða er hærri en hjá öðrum heilbrigðisstéttum og einungis 29% er í fullu starfi á spítalanum. Á sama tíma fjölgar útgefnum starfsleyfum, en þeir skila sér ekki í störfin á Landspítala.
„Við höfum ítrekað bent á þetta, og núna hefur Ríkisendurskoðun staðfest það sem við höfum bent á. Sjúkraliðar eru kerfisbundið hunsaðir og vannýttir, þrátt fyrir að bera mikla ábyrgð og sinna störfum sínum af fagmennsku,“ segir Sandra B. Franks, formaður Sjúkraliðafélags Íslands.
Landspítalinn kýs ófaglært starfsfólk fram yfir menntaða sjúkraliða
Staðan á bráða- og lyflækningasviði er grafalvarleg. Þar vantaði 177 sjúkraliða í stöður, en á sama tíma voru 174 ófaglærðir starfsmenn umfram áætlun. Þetta er óneitanlega skýrt merki um að Landspítalinn velur að treysta á ófaglært starfsfólk í stað þess að byggja upp fagmenntaða heilbrigðisstétt með framtíðarsýn og ábyrgð. Þetta er ekki fagleg stefna, heldur stjórnunarleg undanbrögð.
Ríkisendurskoðun lætur engan vafa liggja á því að Landspítalinn þurfi að bregðast við nú þegar. Í skýrslunni er skýrt kveðið á um að grípa þurfi til markvissra aðgerða ef spítalinn ætlar sér að snúa þessari þróun við. Þar segir meðal annars að tryggja verði raunhæfar starfsþróunarleiðir fyrir sjúkraliða og bæta nýliðun, meðal annars með öflugu samstarfi við menntastofnanir. Þá sé nauðsynlegt að nýta menntun og hæfni sjúkraliða í samræmi við breyttar reglugerðir um réttindi þeirra, og að viðurkenna verði faglegt hlutverk þeirra innan hjúkrunarteyma, í stað þess að reiða sig áfram á ófaglært starfsfólk. Þetta eru ekki ný sjónarmið, heldur þau sömu sem sjúkraliðastéttin hefur endurtekið bent á í mörg ár.
Nauðsynlegt að tryggja framtíð sjúkraliða innan heilbrigðiskerfisins
Þessi staða er ekki aðeins ófagleg heldur kerfisbundin vanvirðing við heilbrigðisstétt sem hefur menntun, hæfni og lögverndað hlutverk innan heilbrigðisþjónustunnar. Það sýnir svart á hvítu að vilji Landspítalans til að byggja upp stöðugildi sjúkraliða er lítill sem enginn.
Sjúkraliðafélagið hefur ítrekað lýst yfir vilja sínum til að vinna með spítalanum að því að snúa þessari þróun við, en þeim vilja hefur að mestu verið mætt með þögn, tregðu og aðgerðaleysi.
Skýrslan frá Ríkisendurskoðun dregur fram skýra ábendingu um að Landspítali verði að setja sér markmið um að fjölga sjúkraliðum, hvetja ófaglært starfsfólk til að fara í nám, og tryggja að þeir sem ljúka sjúkraliðanámi fái tækifæri til að starfa í faginu. Sjúkraliðafélagið hefur talað fyrir því að sjúkraliðar starfi í samræmi við sína menntun og bent á að ekki er nóg að gefa út starfsleyfi, heldur þurfi líka að vera raunveruleg starfsþróun og raunverulegur framgangur í starfi, þannig að fólk velji sjúkraliða að ævistarfi.
Sjúkraliðafélagið leggur áherslu á að aðgerðir þurfa að koma strax. Við köllum eftir því að Landspítalinn:
- Innleiði raunverulegar starfsþróunarleiðir fyrir sjúkraliða, ekki bara á blaði heldur í verki.
- Setji markvissa nýliðunarstefnu í samstarfi við heilbrigðis- og menntastofnanir. Þar sem raunhæfir kostir eru í boði, s.s. launað námsleyfi, kynna sjúkraliðastarfið í framhaldsskólum og samfélaginu og nýta raunfærnimat til að hjálpa ófaglærðum yfir í menntun.
- Viðurkenni faglegt hlutverk sjúkraliða í hjúkrunarteymum og hætti að treysta á ófaglært starfsfólk til að fylla í skörðin.
- Tryggi að sjúkraliðar með diplómapróf fái stöður sem endurspegla aukna sérhæfingu þeirra og í samræmi við reglugerð um sjúkraliða.
- Tryggi bæði faglegan og launalegan framgang sjúkraliða innan spítalans.
Staðreyndirnar liggja nú fyrir, staðfestar af Ríkisendurskoðun. Það er komið að stjórnendum Landspítala að taka ábyrgð. Ekki með orðum, heldur með skýrum, tímasettum aðgerðum. Annars munu sjúkraliðar einfaldlega leita annað, og enginn getur kennt þeim um. Aðrar stofnanir sýna þeim áhuga og virðingu. Það gerir Landspítalinn ekki.