Fréttir

Reglur fyrir Vinnudeilu- og Verkfallssjóð Sjúkraliðafélags Íslands

22 júl. 2011

1. gr.

Sjóðurinn heitir Vinnudeilu- og verkfallssjóður Sjúkraliðafélags Íslands. Lögheimili hans og varnarþing er í Reykjavík.

 

2. gr.

Tilgangur sjóðsins er að aðstoða félagsmenn ef til vinnudeilu eða verkfalls kemur, eftir því sem ástæða þykir til, þó ekki til að standa undir venjulegum kostnaði af gerð kjarasamninga.

 

3. gr.

Stjórn sjóðsins er heimilt að veita öðrum stéttarfélögum sem eiga í kjaradeilum fjárhagsaðstoð.

 

4.  gr.

Stjórn sjóðsins skipa fjórir  menn auk tveggja varamanna og skulu þeir kosnir beinni kosningu til tveggja ára á fulltrúaþingi félagsins.
Á fyrsta fundi nýkjörinnar stjórnar skal hún kjósa sér formann, varaformann, ritara og gjaldkera. Fráfarandi formaður kallar stjórnina saman til fundar eigi síðar en mánuði eftir fulltrúaþing.

 

5.  gr.

Stjórn sjóðsins fer með framkvæmdavald í málefnum hans milli fulltrúaþinga og gerir því grein fyrir störfum sínum. Sjóðurinn skal vera sjálfstæður og ávaxtaður sérstaklega og hafa sjálfstætt bókhald.
Kjósa skal tvo endurskoðendur til að yfirfara reikninga hans. Reikningar sjóðsins skulu lagðir fyrir fulltrúaþing félagsins, samhliða reikningum þess.

 

6.  gr.

Stjórn sjóðsins skal í upphafi úthlutunar hverju sinni, setja meginreglur um greiðslur og skulu þær bókaðar í fundargerðarbók. Halda skal sérstaka gerðabók yfir styrkbeiðnir og styrkveitingar og/eða lán úr sjóðnum. Stjórninni er heimilt hvort heldur að veita félagsmönnum sem eiga í verkfalli, styrk eða lána til framfærslu, á kjörum sem hún ákveður.

 

7.  gr.

Fulltrúaþing  SLFÍ ákveður fastar tekjur sjóðsins hverju sinni. Tekjur hans skulu miðast við hlutfalls af félagsgjöldum, er innheimtast til félagsins.

 

8.  gr. 

Stjórn félagsins er heimilt ef þörf krefur, að taka að láni f.h. Vinnudeilu og verkfallssjóðs upphæð sem svara til allt að tveggja ára föstum tekjum sjóðsins.

 

9.  gr.

Stofnfé sjóðsins skal vera sérstakt framlag og endurgreiðslur á lánum sem veitt voru félagsmönnum sem áttu í verkfalli í lok ársins 1994. Sjóðurinn skal ávaxtaður á  tryggan hátt og leitast við að koma í veg fyrir aföll hans. Stjórn SLFÍ er heimilt að nota sjóðinn vegna tímabundinna fjárfestingar við kaup eða byggingu fasteigna vegna félagsstarfsemi eða orlofmála. Vextir sjóðsins skulu þá reiknast þeir sömu og venjulegir útlánsvextir í banka á hverjum tíma. Þess skal gætt að a.m.k. 2/3 hlutar sjóðsins séu ávalt lausir til ráðstöfunar.

 

10.  gr. 

Verði vinnudeilu- og verkfallssjóður félagsins lagður niður, ráðstafar fulltrúaþing Sjúkraliðafélags Íslands eignum hans.

 

11.  gr.

Reglum þessum má aðeins breyta á fulltrúaþingi félagsins. Um breytingar á reglum sjóðsins skulu  gilda sömu reglur og um breytingar á lögum félagsins.

 

12.  gr.

Reglur sjóðsins, voru samþykktar á fulltrúaþingi Sjúkraliðafélags Íslands 13. maí 1995.

Til baka