Reglur Svæðisdeilda Sjúkraliðafélags Íslands
1.gr.: Heiti deildar og starfsvettvangur
Innan Sjúkraliðafélags Íslands eru starfandi sjálfstæðar svæðisdeildir sem skiptast að meginreglu eftir heilbrigðisumdæmum. Hver svæðisdeild kýs sér stjórn og fer að lögum félagsins og reglum svæðisdeilda. Starfsvettvangur deildar og verkefni er að þjónusta alla þá sem rétt hafa til að bera starfsheitið sjúkraliði og búa og/eða starfa á starfssvæði viðkomandi deildar.
Lögheimili deildanna og varnarþing er í Reykjavík. Félagssvæði Sjúkraliðafélags Íslands er allt landið. Nöfn og starfssvæði deildanna eru:
- Svæðisdeild Höfuðborgarsvæðisins.
- Svæðisdeild Suðurnesja.
- Svæðisdeild Vesturlands
- Svæðisdeild Vestfjarða.
- Svæðisdeild Norðurlands vestra – frá og með Brú í Hrútafirði að Siglufirði.
- Svæðisdeild Norðurlands eystra – frá og með Siglufirði að og með Langanesi.
- Svæðisdeild Austurlands.
- Svæðisdeild Suðurlands að Vestmannaeyjum frátöldum.
- Svæðisdeild Vestmannaeyja.
2. gr.: Réttur til aðildar að deild
Félagsmenn eru allir félagsmenn Sjúkraliðafélags Íslands sem búsettir eru á félagssvæði deildarinnar.
3. gr.: Lög deildanna
Lög Sjúkraliðafélags Íslands eru lög deilda og félagsmanna eftir því sem við á.
4. gr.: Markmið og hlutverk deildar
Hlutverk deilda og markmið eru þau sem kveðið er á um í 2. kafla laga Sjúkraliðafélags Íslands og ber forystu hennar að vinna að framgangi þeirra stefnumiða á sínum starfsvettvangi. Með því að:
- standa vörð um hagsmuni félagsmanna, vernda réttindi þeirra og beita sér gegn hvers konar misrétti í launagreiðslum og starfskjörum.
- vinna að samstöðu félagsmanna og efla samheldni stéttarinnar m.a. með útgáfustarfsemi, fræðslufundum, skemmtunum og annarri félagsstarfsemi.
- stuðla að aukinni og bættri menntun félagsmanna.
- hvetja félagsmenn til að viðhalda hæfni sinni og auka þekkingu sína.
- upplýsa og þjálfa trúnaðarmenn félagsins.
- gæta virðingar stéttarinnar og vera málsvari hennar.
- efla samvinnu og samstarf þeirra sem starfa við heilbrigðisþjónustu svo og annarra opinberra starfsmanna.
- að við brautskráningu sjúkraliðanema, sé þeim afhentar heillaóskir félagsins og þeir boðnir velkomnir til starfa, tryggja virka samvinnu við sjúkraliðanema í náminu svo sem efna til nemadag
- Halda í heiðri EPN daginn og sýna virka samstöðu á degi verkalýðsins 1. maí.
5. gr.: Stjórnir deilda
Stjórnir deildanna skipa: formaður, fjórir meðstjórnendur sem skipta með sér verkum, og einn til vara og skal kjörin á aðalfundi til tveggja ára. Endurkjör stjórnarmanna er heimilt. Kosning stjórnar skal fara fram árlega og kosnir tveir stjórnarmenn hverju sinni.
Formaður skal kosinn sérstaklega.
Einungis félagsmenn með fulla aðild að félaginu, sem ekki hafa gerst brotlegir við siðareglur félagsins, eru kjörgengir í stjórn.
6. gr.: Formannskjör deilda
Kjörstjórn skal auglýsa eftir frambjóðendum til formannskjörs á viðurkenndum fjölmiðli eigi síðar en 1. júní. Frambjóðendur skulu senda skriflega tilkynningu um framboð sitt til kjörstjórnar fyrir 1. september.
Láti formaður af embætti áður en kjörtímabili lýkur tekur stjórn deildar ákvörðun um lausn málsins, þar til nýr formaður er kosinn.
7. gr.: Störf stjórnar
Stjórn deildar er tengiliður milli félaga deildarinnar og félagsstjórnar Sjúkraliðafélags Íslands. Formenn deildanna eru sjálfkjörnir í félagsstjórn Sjúkraliðafélags Íslands.
Formenn boða stjórnarfundi og aðra fundi deilda. Að loknu stjórnarkjöri skal formaður boða til stjórnarfundar við fyrstu hentugleika. Á fundinum skiptir stjórnin með sér verkum. Stjórnir deilda geta skipað nefndir og starfshópa til að vinna að einstökum málefnum fyrir viðkomandi deild, félagið og félagsmenn.
8. gr.: Fjármál
Stjórn deildar skal gera fjárhagsáætlun og leggja fyrir aðalfund til samþykktar. Samþykkt fjárhagsáætlun, ásamt samþykktum reikningum og fylgiskjölum fyrra árs skal senda til skrifstofu félagsins fyrir 1. febrúar.
Við gerð fjárhagsáætlunar og reikningsskil deildanna skulu eftirtaldir útgjaldaliðir áætlaðir/færðir sérstaklega:
- Útgjöld vegna aðal og félagsfunda
- Útgjöld vegna stjórnarfunda
- Ferðakostnaður
- Ritföng og skrifstofukostnaður
- Annar kostnaður, til dæmis gjafir vegna útskrifta eða sérstakra viðburða
Fjármunir sem einstakar deildir afla með sérgjöldum, söfnun eða á annan hátt skal ekki færa sem tekjur í reikninga deildarinnar.
9. gr.: Aðalfundir deilda
Aðalfundir deilda skulu haldnir árlega á tímabilinu september – desember. Skýrslur deildanna skal senda félagsstjórn fyrir 1. febrúar ásamt fjárhagsáætlun og fjárbeiðni, auk tillagna og greinargerða sem leggja á fyrir fulltrúaþing eða félagsstjórn.
Til aðalfundar skal boða með a.m.k. 2 vikna fyrirvara. Fundurinn skal auglýstur í viðurkenndum fjölmiðli. Þess skal getið í fundarboði ef fyrirhugaðar eru breytingar á reglum deildar. Ennfremur skal þess getið í fundarboði þegar formannskjör er og hverjir eru í kjöri.
Dagskrá aðalfundar:
- Kosning fundarstjóra.
- Skýrsla stjórnar um starfsemi deildarinnar.
- Reikningar deildarinnar
- Fjárhagsáætlun deildarinnar fyrir næsta starfsár.
- Breytingar á reglum deilda.
- Kosning formanns til tveggja ára.
- Kosning stjórnar
- Kosning kjörstjórnar og uppstillingarnefndar
- Kosning fulltrúa deildarinnar til setu á fulltrúaþingi Sjúkraliðafélags Íslands samkvæmt ákvæðum 15. gr. laga félagsins.
- Önnur mál.
10. gr.: Fundir deilda
Fundi skal halda svo oft sem þurfa þykir. Fundi skal boða með minnst þriggja sólarhringa fyrirvara með tryggilegum hætti.
Stjórn deildar er skylt að boða til fundar ef fimmtungur félagsmanna krefst þess og tilgreinir fundarefni.
11. gr.: Kjörstjórn
Skipa skal kjörstjórn með þremur fulltrúum og einum til vara til tveggja ára. Hlutverk hennar er að sjá um undirbúning atkvæðagreiðslu um kjör formanns deildarinnar samkvæmt 6. gr.
Kjörstjórn úrskurðar um úrslit í atkvæðagreiðslum og kosningum, um vafaatkvæði og önnur ágreiningsatriði sem upp koma í atkvæðagreiðslum sem hún annast.
12. gr.: Uppstillingarnefnd
Uppstillingarnefnd skipuð þremur félagsmönnum og einum til vara, skal kosin á aðalfundi til tveggja ára. Hlutverk nefndarinnar er að gera tillögu um félaga í stjórn, nefndir og fulltrúa deildarinnar á fulltrúaþing félagsins.
13. gr.: Trúnaðarmenn
Stjórn svæðisdeildar sér um að trúnaðarmaður sé á hverjum vinnustað. Kjósa skal trúnaðarmann fyrir hvern vinnustað sem hefur rétt til að hafa trúnaðarmann. Strax að kosningu lokinni skal á tilheyrandi eyðublaði tilkynna til skrifstofu Sjúkraliðafélags Íslands.
14. gr.: Sé deild lögð niður
Komi til þess að deild leggist af skulu fjármunir sem í eigu hennar eru ganga til Sjúkraliðafélags Íslands.
15. gr.: Breyting á reglum
Reglum má aðeins breyta á fulltrúaþingi. Tillögur til breytinga á þessum reglum skulu hafa borist stjórn Sjúkraliðafélags Íslands eigi síðar en sex vikum fyrir fulltrúaþing. Breytingar á reglunum öðlast ekki gildi fyrr en þær hafa hlotið staðfestingu fulltrúaþings Sjúkraliðafélags Íslands, að fenginni umsögn laganefndar félagsins
Reglur svæðisdeilda lagðar fram til samþykktar á fulltrúaþingi
Fulltrúaþing 14. og 15. maí 2004 og samþykktar þannig breyttar.
Fulltrúaþing 31. maí 2007 og samþykktar þannig breyttar.
Fulltrúaþing 10. maí 2012 og samþykktar þannig breyttar.
Fulltrúaþing 12. maí 2017 og samþykktar þannig breyttar.
Fulltrúaþing 18. maí 2021 og samþykktar þannig breyttar.
Fulltrúaþing 12. maí 2022 og samþykktar þannig breyttar.