Fréttir

Ráðherra á fundi með velferðarvaktinni

15 sep. 2011

Velferðarvaktin er mikilvægur álitsgjafi stjórnvalda sem ber að vera gagnrýnin, benda á brotalamir og gera tillögur um úrbætur. Þetta hefur tekist vel sagði Guðbjartur Hannesson velferðarráðherra sem sat fund með velferðarvaktinni í gær til að fara yfir tillögur hennar og ábendingar um mikilvæg verkefni í velferðarmálum.

Ráðherra á fundi með velferðarvaktinni

Ráðherra lagði áherslu á aðvelferðarvaktin skuli vera óháð og sjálfstæð í störfum sínum og að stjórnvöld eigi á engan hátt að reyna að stýra henni. „Það er geysimikil þekking og yfirsýn yfir aðstæður í samfélaginu fyrir hendi í velferðarvaktinni enda margar veigamiklar stofnanir, félög og samtök sem eiga þar fulltrúa með mikla þekkingu á velferðarmálum. Öll þessi þekking og vitneskja kemur að miklum notum og mikilvægt að hún skili sér til stjórnvalda.“

Velferðarvaktin skilaði ráðherra fyrir skömmu nýrri áfangaskýrslu með upplýsingum um félagslegar og fjárhagslegar afleiðingar kreppunnar og ábendingum til stjórnvalda um úrbætur á ýmsum sviðum. Tillögur velferðarvaktarinnar varða aðstæður barna og barnafjölskyldna, ungmenni, skóla og atvinnumál, skuldavanda heimilanna og vinnumarkaðsúrræði.

Fulltrúar velferðarvaktarinnar ásamt ráðherraSkýrslan og tillögur velferðarvaktarinnar voru til umfjöllunar á fundinum með ráðherra sem gerði grein fyrir því helsta sem unnið er að til úrbóta á þeim sviðum sem ábendingar velferðarvaktarinnar taka til og svaraði fyrirspurnum fulltrúa vaktarinnar. Viðstaddir lýstu sérstakri ánægju með þær aðgerðir sem gripið hefur verið til í málefnum fólks án atvinnu með átakinuNám er vinnandi vegur þar sem fólki yngra en 25 ára er tryggð skólavist í framhaldsskólum uppfylli það hefðbundin inntökuskilyrði og sköpuð eru ný námstækifæri fyrir atvinnuleitendur í framhaldsskólum, frumgreinadeildum, háskólum og framhaldsfræðslu.

Áhyggjur af stöðu einstæðra foreldra og ungmenna sem standa utan kerfis

Á fundinum var sérstaklega rætt um erfiða stöðu einstæðra foreldra og barnafjölskyldna þar sem báðir foreldrar eru án atvinnu. Var minnt á skýrslu nefndar til félags- og tryggingamálaráðherra síðan í apríl 2009 þar sem lagt var til að tekið yrði upp nýtt kerfi barnatrygginga og hvort ekki bæri að skoða þessar tillögur frekar.

Margt fleira var til umræðu á fundinum en fulltrúar velferðarvaktarinnar sögðu sérstaklega mikilvægt að huga að þeim hópi ungmenna sem virðist hvað erfiðast að ná til, sem sé án vinnu, stundar ekki nám, á ekki rétt til atvinnuleysisbóta og þar með ekki hefðbundnum vinnumarkaðsúrræðum. Þetta væri ekki stór hópur en mjög brýnt að taka á aðstæðum þeirra sem í honum væru.

Velferðarvaktin kynnt á fundi UNICEF og OECD í París

Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna (UNICEF) og Efnahags- og framfarastofnunin (OECD) halda málþing í París í nóvember þar sem fjallað verður um velferð barna. Óskað hefur verið eftir því að formaður velferðarvaktarinnar flytji erindi á þinginu og fjalli um hvernig Íslendingar hafi staðið vörð um velferð barna í kreppunni. Í boðsbréfi segir það veki athygli hvernig sumar þjóðir standi sig ávallt vel í alþjóðlegum samanburði á stöðu barna og er Ísland nefnt sérstaklega í því sambandi ásamt öðrum Norðurlandaþjóðum og Hollandi.

Til baka