Ræða formanns SLFÍ á 33. fulltrúaráðsþingi
17 maí. 2024
Kæru sjúkraliðar.
Ég vil byrja að bjóða ykkur öll innilega velkomin á þetta stórglæsilega fulltrúaþing félagsins. Það er alltaf gaman að hittast í okkar góða hópi. Starfsárið hefur verið fjölbreytilegt að vanda og langar mig að stikla hér á stóru og segja frá því helsta sem gerðist á árinu. Við vitum að starf sjúkraliða er fjölbreytt, lifandi og yfirleitt ófyrirséð. Og við finnum fyrir því að sjúkraliðastarfið er í stöðugri mótun.
Nú eru um 600 einstaklingar í sjúkraliðanámi, sem gefur okkur von um að einhver fjölgun verði í stéttinni. Innan skamms mun annar hópur sjúkraliða með diplómapróf útskrifast á fagháskólastigi, en fyrsti hópurinn sem sérhæfði sig í öldrunar- og heimahjúkrun útskrifaðist í fyrra. Og þessi hópur sem útskrifast nú í vor, er með sérhæfingu í samfélagsgeðhjúkrun.
Ég bind einmitt miklar vonir við frekari framþróun sjúkraliðastarfsins enda kalla nýir tímar einnig á breyttar áherslur í bæði starfi og menntun stéttarinnar. Á þriðja þúsund sjúkraliða eru nú starfandi á Íslandi. Þróun sjúkraliðastarfsins kallar á nýjar áskoranir, bæði gagnvart stjórnvöldum en einnig stofnunum.
Þessi síkvika þróun sjúkraliðastarfsins kallar jafnframt á öflugt starf á skrifstofu félagsins. Undanfarin ár hef ég reynt að sinna því starfi af alúð og umhyggju, og fyrir nær tveimur árum síðan tók ég upp á því að skrifa vikulega pistla um það sem er að gerast hjá félaginu á hverjum tíma. Ég skynja að sjúkraliðar og samstarfsfélagar okkar kunna að meta þetta framtak og þessa upplýsingagjöf.
Við erum sjö sem störfum á skrifstofunni og eru verkefnin okkar ansi fjölbreytileg. Við erum félagsmönnum okkar til taks um nánast allt sem brennur á þeim. Við erum öflugt hagsmuna- og verkalýðsfélag gagnvart stofnunum og stjórnvöldum.
Við afgreiðum yfir 1000 umsóknir sjúkraliða, sem sækja um styrki í fræðslusjóði félagsins, til að standa straum af kostnaði vegna náms og símenntunar og vegna fræðsluferða. Og sömuleiðis styrkjum við stofnanir, vinnustaði sjúkraliða, sem vilja efla starfsemi sína og starfsumhverfi sjúkraliða.
Við leggjum metnað í orlofsmálin, niðurgreiðum ferðaávísanir, flugmiða, veiðikort og útileigukort og við höfum fjölgað orlofshúsunum okkar. Þá stendur til að fjölga þeim enn frekar, og fer nýtt hús til viðbótar í útleigu í sumar. Talandi um orlofshúsin okkar þá er ánægjulegt að rifja upp þegar félagið tók þátt í að útvega húsnæði fyrir Grindvíkinga sem voru á hrakhólum vegna jarðhræringanna.
Gæðamálin og innleiðing á skráningu rafrænna gagna á skrifstofunni eru í sífelldri þróun og höfum við unnið þrekvirki á þeim vettvangi, þótt ég segi sjálf frá, og skrifstofan nú næstum pappírslaus.
Þá skrifum við greinar í fjölmiðla, umsagnir til stjórnvalda og eru þessi skrif okkar orðin nokkrir tugir á starfsárinu. Þá hef ég sótt ráðstefnur, verið í pallborði til að vekja athygli á baráttumálum okkar og farið í nokkur viðtöl í fjölmiðlum. Nú nýverið við japanska ríkissjónvarpið sem vildi fá upplýsingar um starfumhverfi sjúkraliða á Íslandi, launakjör stéttarinna á þessum kynskipta vinnumarkaði. En við náðum heimsathygli þegar haldinn var fjölmennasti útifundur Íslandssögunnar „kvennaverkfallið“ síðastliðið haust, sem við studdum og tókum virkan þátt í.
Sjúkraliðar eru lykilstétt í heilbrigðiskerfinu sem ber að umbuna í samræmi við álag, færni og ábyrgð. Það þýðir ekki fyrir stjórnvöld að tala eingöngu vel um sjúkraliða eins og aðrar heilbrigðisstéttir á tyllidögum heldur þurfum við að sjá beinharðar aðgerðir. Í ljósi þess að 70 prósent opinberra starfsmanna eru konur og nánast önnur hver kona sem er á vinnumarkaði er opinber starfsmaður, er kjarabarátta opinberra starfsmanna einnig jafnréttisbarátta.
Kæru félagar
Á árinu fórum við einnig í markvissa stefnumótunarvinnu sem mörg ykkar tóku þátt í. Félagið hafði áður tekið afgerandi skref í slíkri vinnu en nú var komið að aðgerðabinda markmiðin okkar. Við greindum meðal annars ásýnd og fagsýn stéttarinnar og ræddum hugmyndir á starfsárinu um hvernig hægt væri að útfæra markmiðin. Jafnframt skoðuðum við aðgerðir sem miða að því rétt þjónusta sé veitt á réttum stað og heldur þessi vinna áfram á komandi starfsári.
Við reynum annars að vera í góðu sambandi við trúnaðarmenn okkar um allt land og þá er fulltrúaþingið okkar og aðrir fundir félagsins ætíð vel sóttir. Stundum tökum við á móti gestum s.s. þingmönnum eða fulltrúum annarra hagsmunasamtaka eða förum til þeirra. Starfsfólkið okkar er duglegt að sækja sér fræðslu og kynningar til að efla eigin færni til að takast betur á við verkefni skrifstofunnar. Jafnlaunastofa hélt námskeið í vetur um starfsmat sem haldið var í London. Jafnlaunastofa vinnur að því að byggja upp og miðla þekkingu á sviði jafnlaunamála með það að markmiðið að útrýma launamisrétti. Námskeiðið var vel sótt af hópi embættismanna og fulltrúum stéttarfélaga sem mættu til að afla sér upplýsinga og fræðast um aðferðafræði á virðismati starfa.
Eins og við vitum öll þá er eitt stærsta baráttumál samtímans að jafna kynbundinn launamun sem tilkominn er vegna þess að vinnumarkaðurinn er kynskiptur. Þetta mál stendur okkur sjúkraliðum mjög nærri þar sem um 97 prósent félagsmanna okkar eru konur. Við funduðum einnig með félögum okkar í EPN, sem eru Evrópusamtök sjúkraliða. En síðastliðið haust var fundað í Osló og nú nýverið í Luxemburg. Á þessum vettvangi ræðum við um stöðu og þróun sjúkraliðastarfsins. Við kynnumst líka uppbyggingu sjúkraliðanámsins í aðildalöndum samtakana. Núna gengir Svíþjóð formennsku EPN. Og á síðast aðalfundi voru gerðar smávægilegar breitingar á reglum samtakana sem snúa að því, að ráðstefnurnar sem haldnar voru samhliða aðalfundum, annað hvert ár, verða nú á þriggja ára fresti. Næsta ráðstefna verður því í Svíþjóð í byrjun júní árið 2026.
Ég vil líka segja ykkur frá á heimsókn okkar á Nýja Landspítalann. Þar fengum við frábæra kynningu á uppbyggingu spítalans og öllum þeim viðbótarbyggingum sem eru að rísa á svæðinu. Eftir kynninguna fengum við leiðsögn um byggingarsvæðið. Þótt ég hafi verið meðvituð um framkvæmdirnar gerði ég mér enga grein fyrir hve umfangsmikil þessi framkvæmd er í raun og veru, fyrr en ég stóð þarna á miðju byggingasvæðinu. Enda er þessi uppbygging sögð vera eitt stærsta fjárfestingaverkefni Íslandssögunnar. Eins og kunnugt er þá er Landspítalinn fjölmennasti vinnustaður landsins og verandi næstfjölmennasta heilbrigðisstétt landsins skiptir uppbygging hans okkur sjúkraliða verulega miklu máli.
Kæru sjúkraliðar
Í vetur áttum við hjá Sjúkraliðafélaginu frumkvæði að því, að við formenn lækna, hjúkrunarfræðinga, ljósmæðra og sjúkraliða, myndu hittast með reglulegum hætti. Þessir fundir hafa gefið góða raun og hlakka ég til frekari samstarfs með þessum ágætu samstarfsfélögum okkar. Það er gott að geta borið saman bækur okkar á þessum fundum, ekki síst þegar kemur að sameiginlegum baráttumálum gagnvart stjórnvöldum og einstökum heilbrigðisstofnunum.
Annað samtal sem er stöðugt í gangi er við ráðherra og önnur stjórnvöld. Á starfsárinu hafa þeir fundir verið nokkrir. Sem dæmi um samtal okkar við menntamálaráðherra varðar tengsl menntakerfisins við mönnunarvanda í heilbrigðiskerfinu. Það er ljóst að skortur er á sjúkraliðum og áhyggjur okkar í þeim efnum er mikill. Ekki síst vegna þess að meðalaldur stéttarinnar er um 48 ár og um 40 prósent sjúkraliða fer á lífeyrisaldur á næstu 15 árum.
Við bentum ráðherra á að fyrirhugaðar framkvæmdir vegna stækkunar framhaldsskólanna og aukin áhersla á starfsnám, þurfi að taka mið af heilbrigðistengdu starfsnámi eins og sjúkraliðanámi. Þá kynntum við fyrir ráðherra leiðir til að fjölga nemendum í heilbrigðistengdu starfsnámi á framhaldsskólastigi, t.d. með launuðu námi eins og þekkist í Danmörku. Launað nám heilbrigðisstétta gæti einmitt verið afar mikilvægt skref í að mæta þeirri þörf eftir heilbrigðismenntuðu fólki sem nú þegar er til staðar og sem mun aukast enn frekar á næstu árum. Skemmst er frá því að segja að menntamálaráðherra tók afar vel í hugmyndir okkar og sagði hvatastyrki í námi spennandi hugmynd.
Fundir með heilbrigðisráðherra voru allnokkrir á starfsárinu því við erum í þéttu samtali við hann vegna framþróun starfa sjúkraliða. Þar höfum við rætt um breytingu á reglugerð sjúkraliða og að tryggja þurfi breytingar á starfsviði sjúkraliða með diplómapróf. Þessir fundir hafa verið krefjandi og ýmsar ófyrirséðar hindranir verið í veginum. En samstarfið heldur áfram og er ég vongóð um að samvinnan núna muni skila okkur árangri innan tíðar.
Eins og flestir vita þá starfar Sjúkraliðafélagið undir regnhlíf BSRB en þar erum við næstfjölmennasta aðildarfélagið. BSRB er stærsti vettvangur opinberra starfsmanna á Íslandi og tökum við því virkan þátt þar í málum sem snerta verkalýðs- og réttindamál. Mér finnst skipta miklu máli að talað sé af sanngirni um það starf sem opinberir starfsmenn vinna. Opinberir starfsmenn gegna lykilhlutverki í nútímahagkerfi og þeirra störf hafa djúpstæð og víðtæk áhrif á samfélagið, þar sem þeir sinna grundvallarþáttum í að viðhalda velferð og hagvexti. Það er ekki aðeins mikilvægt fyrir einstaklinga sem þiggja þjónustu hins opinbera, heldur einnig fyrir þá sem veita hana og samfélagið í heild sinni.
Almannaþjónusta, eins og velferðar- og heilbrigðisþjónusta, grunnskólar og leikskólar, eftirlit og löggæsla, rannsóknir og vísindi, sem hið opinbera sinnir, er oft ósýnilegur þáttur í hagkerfinu, en hún er samt sem áður lykilatriði í að styðja við efnahagslega og félagslega uppbyggingu. Heilsulaus maður leggur minna til mælanlegrar landsframleiðslu en sá hrausti. Þá skapar hjúkrun og umönnun sjúkraliða á eldri borgurum landsins tækifæri fyrir aðstandendur að sinna sinni vinnu. Verðmætasköpun hins opinbera er því augljós.
Í vetur gafst mér tækifæri að sækja alþjóðlegt þing stéttarfélaga í opinberri þjónustu (PSI). Þingið sem bar yfirskriftina „People over profit“ var vægast sagt upplýsandi og áhrifaríkt. Fram kom að verkalýðsfélög um allan heim eru í reynd að kljást við mjög svipaðar áskoranir og við erum að vinna að hér heima. Fjallað var um nauðsyn þess að bæta velferðarþjónustu ríkja og í því sambandi var sérstök áskorun til stjórnvalda samþykkt sem í raun hefði getað verið gömul ályktun Sjúkraliðafélagsins.
Kæru félagar
Það vita allir sem inn á spítala hafa komið að sjúkraliðar vinna krefjandi starf. Starfið krefst bæði líkamlegrar og andlegrar færni sem óneitanlega getur tekið sinn toll. Þá er vinnutíminn oft mjög óreglulegur enda vinna um 90 prósent sjúkraliða í vaktavinnu. Flest erum við sammála um að slík vinna eigi að vera metin að verðleikum til launa þannig að hægt sé að lifa mannsæmandi lífi. Slík staða er því miður ekki hjá öllum sjúkraliðum.
Í nýrri könnun Vörðu, um stöðu launafólks á vinnumarkaði, gafst okkur tækifæri til skoða sjúkraliðastéttina sérstaklega og bera stöðu hennar saman við aðra launahópa. Í könnuninni kemur fram að um 42 prósent sjúkraliða eiga erfitt með að ná endum saman og er það hærra hlutfall en hjá öðrum launahópum. Um 41 prósent sjúkraliða telur sig ekki getað mætt óvæntum 80.000 kr. útgjöldum án þess að stofna til skuldar. Þessi tala rýkur upp í tæp 70 prósent hjá þeim sjúkraliðum sem eru í leiguhúsnæði. Þá kemur fram að um 57 prósent sjúkraliða telur sig ekki getað séð fyrir sjálfum sér og börnum sínum án aðstoðar. Hjá öðrum launahópum í könnuninni var þessi tala um 45 prósent. Þetta er vissulega ekki nógu góð staða. Að þessu sögðu vil ég þó draga fram nokkra jákvæða punkta sem varða kjaramál sjúkraliða undanfarin fimm ár.
Í fyrsta lagi hafa dagvinnulaun sjúkraliða hækkað um rúm 32 prósent á þessu fimm ára tímabili. En dagvinnulaun hjúkrunarfræðinga hækkuðu um tæp 27 prósent.
Í öðru lagi þá hafa heildarlaun sjúkraliða hækkað um tæp 25 prósent á þessu sama tímabili. En heildarlaun hjúkrunarfræðinga hækkað um tæp 21 prósent.
Í þriðja lagi þegar hlutfall launa sjúkraliða er borið saman við laun hjúkrunarfræðinga má sjá að á árinu 2019 voru dagvinnulaun sjúkraliða um rúm 69 prósent af dagvinnulaunum hjúkrunarfræðinga. Fimm árum síðar er þetta hlutfall rúmlega 72 prósent.
Sé litið til heildarlauna þá voru sjúkraliðar með tæp 73 prósent af launum hjúkrunarfræðinga árið 2019, og var komið í um rúm 75 prósent árið 2023. Á árinu 2006 var hlutfallið á milli heildarlauna sjúkraliða og hjúkrunarfræðinga talsvert lægra, eða um 65,3 prósent. Ég veit að þetta eru margar tölur en af þessu sést að laun sjúkraliða hafa hækkað hlutfallslega meira en hjá hjúkrunarfræðingum á þessu fimm ára tímabili. Ég segi þetta hér, því í gegnum árin hefur verið litið til launakjara hjúkrunarfræðinga, þegar laun og launaþróun sjúkraliða eru metin.
Þessu tengt þá fengum við nýlega þá ánægjulegu niðurstöðu úr könnun sem Sjúkraliðafélagið lét gera, að mikill meirihluti sjúkraliða telur að Sjúkraliðafélagið standi sig vel í kjarabaráttunni. Við vitum að sjúkraliðar hafa sterkar skoðanir á kjörum sínum, enda fer launamyndun stéttarinnar fram á vöktum, sem reynir á félagslega, andlega og líkamlega þætti í miklu meira mæli en hjá öðrum launahópum sem vinna hefðbundna dagvinnu.
Ég tel að ein mesta kjarabót fyrir sjúkraliðastéttina hafi náðst þegar yfirgripsmikil samvinna innan launþegahreyfingarinnar, aðildarfélaga BSRB, BHM, Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga og annarra stéttarfélaga náðist við launagreiðendur, þ.e. ríkið, sveitarfélög og Reykjavíkurborg um betri vinnutíma. Þegar vinnuskylda vaktavinnufólks var lögð að jöfnu við dagvinnufólk, og fór úr 40 stundum niður í 36 stundir, og í sumum tilvikum niður í 32 stundir. Þessi kerfisbreyting skiptir mjög miklu fyrir sjúkraliða, einkum vegna þess að um 90 prósent stéttarinnar vinnur á vöktum og allflestir voru í 80 – 90 prósent hlutastarfi. Þetta þýðir að 80 prósent starfshlutfall, eins og allflestir sjúkraliðar voru í, er nú metið 10 prósentum hærra – og jafnvel enn hærra ef unnið er á fjölbreyttum vöktum, fyrir sama vinnuframlag. Það hefur ekki farið fram hjá neinum að innleiðingarferlið á þessari kerfisbreytingu var krefjandi þar sem hún reyndi mikið á bæði starfsfólk og stjórnendur. Þá hefur vaktahvatinn reynst erfiður enda er hann ógagnsær og kvikur.
Í fyrra var samið til eins árs og áhersla lögð á að verja kaupmátt launa, sníða vaktahvatann betur til og hækka stórhátíðarálag. Samið var um krónutöluhækkanir, eins og árið 2019, en það hefur skilað sjúkraliðum hlutfallslega meiri launahækkun en öðrum launahópum eins og ég nefndi áðan. Núna í yfirstandandi kjarasamningalotu hafa línur verið lagðar og verður líklega samið til lengri tíma um nokkuð hógværar launahækkanir, líkt og samið var um á almenna markaðinum, í þeirri von að verðbólga og vextir munu lækka. Við höfum rýnt í aðgerðir stjórnvalda og sjáum að þær munu nýtast sjúkraliðastéttinni sem og öðrum launahópum.
Hávær krafa sjúkraliða um að breyta þurfi vaktahvatanum hefur verið tekin til skoðunar. En í vaktahvatanum eru verðmæti sem þarf að koma til þeirra sem vinna á fjölbreyttum vöktum. Kröfur sjúkraliða hafa verið teknar til skoðunar í sérstökum starfshópi og hefur niðurstaða þeirrar vinnu verið kynnt fyrir kjaramálanefndinni. Við erum semsagt ennþá í þeirri vegferð að sníða agnúana af kerfisbreytingunni. Þá er sérstakur starfshópur undir stjórn Ríkissáttasemjara að vinna áfram í að finna leiðir til að leiðrétta laun á milli markaða. Við gerum því ráð fyrir að niðurstaða þeirrar vinni skili sér til sjúkraliða á samningstímanum. Kjarabaráttan heldur því áfram, og hún er alltaf krefjandi.
Kæru félagar
Sjúkraliðar eru lykilstétt í heilbrigðiskerfinu sem ber að umbuna í samræmi við álag, færni og ábyrgð. Það þýðir ekki fyrir stjórnvöld að tala eingöngu vel um sjúkraliða eins og aðrar heilbrigðisstéttir á tyllidögum heldur þurfum við að sjá beinharðar aðgerðir. Í ljósi þess að 70 prósent opinberra starfsmanna eru konur og nánast önnur hver kona sem er á vinnumarkaði er opinber starfsmaður, er kjarabarátta opinberra starfsmanna einnig jafnréttisbarátta.
Eitt af því sem við þreytumst seint á að berjast gegn, er hinn kynskipti vinnumarkaður. Kynskiptur vinnumarkaður hefur allt of lengi haldið launum kvennastétta niðri. Hér í jafnréttisparadísinni Íslandi er við lýði kynbundinn launamunur á hinum kynskipta vinnumarkaði. Þótt launamunur hafi farið minnkandi síðustu ár, þá er hann enn um 10 prósent. Fyrir konur sem hafa um 700.000 kr. laun á mánuði, þýðir 10 prósent launamunur um 80.000 kr. á mánuði, eða 960.000 kr. á ári. Yfir starfsævina nemur fjárhæðin yfir 47 m.kr. Þá eru ótalin áhrifin á lífeyrisgreiðslur og efnahagslega stöðu kvenna á efri árum.
Þessu þarf að breyta. Því launamunur kynjanna er ekki aðeins tölfræðilegt viðfangsefni heldur er hann félags- og efnahagslegur veruleiki. Launamisréttið hefur þannig áhrif á lífsgæði og fjárhagslegt öryggi kvenna alla þeirra ævi.
Við erum búin að heyra lengi um aðgerðarhópa, átakshópa og nefndavinnu í jafnréttismálum en við viljum núna fara að sjá aðgerðirnar. Innleiðing á virðismati starfa hjá ríkisstarfsfólki þar sem tekið er meira tillit til eðli svokallaðra kvennastétta en áður, er gott og gilt. En við viljum einnig sjá önnur verkfæri nýtt í þessum tilgangi og má þar nefna stofnanasamninga.
Kæru sjúkraliðar
Ákall eftir þjónustu sjúkraliða mun óneitanlega aukast næstu árin enda fer fjöldi eldri borgara vaxandi og mun tvöfaldast á næstu 25 árum. Þá er ljóst að geðræn vandamál hafa aukist undanfarna áratugi og munu vafalaust gera það áfram. Þessi þróun kallar á æ sérhæfðari heilbrigðisþjónustu sem stjórnvöld sjá fyrir. Sjúkraliðar eru í sókn og eftirsóttir um land allt. Sjúkraliðar geta nú stundað nám á fagháskólastigi og bætt við sérhæfingu sína. Það má ekki gleyma því að við sinnum nærhjúkrun – eins og Florence Nightingale, sem var frumkvöðull í stríðinu á Krímskaganum fyrir um 200 árum síðan.
Við erum burðarstétt á spítölunum, á hjúkrunarheimilunum, og höldum uppi kjarnastarfsemi heimahjúkrunar. Við sinnum nærhjúkrun með sambærilegum hætti og Florence Nightingale gerði á sínum tíma. Við verðum því að minnast þess að hún er okkar. Mér þykir virkilega vænt um stétt sjúkraliða og starfið okkar. Ég veit það frá fyrstu hendi hversu mikilvægt starfið er. Það sem meira er, þá veit ég að sjúklingar okkar og skjólstæðingar vita það einnig.
Í lokin vil ég þakka ykkur, og öllum sjúkraliðum, fyrir vinnuframlag, ósérhlífni við að sinna þeim sjúku, slösuðu og öldruðu, af umhyggjusemi og alúð. Ég er virkilega stolt af því að tilheyra okkar öflugu fagstétt.
Takk fyrir!