Ræða formanns á fulltrúaráðsþingi
13 maí. 2022
Góðir félagar – kæru sjúkraliðar.
Það er mér mikil ánægja að bjóða ykkur öll hjartanlega velkomin til fulltrúaþingsins, sem ég set nú í fjórða sinn sem formaður. Þetta er búið að vera meira árið! Og ekki bara eitt ár. Það þarf auðvitað ekki að segja nokkrum manni hér inni hversu mikið hefur mætt á sjúkraliðum og öðru heilbrigðisstarfsfólki. Við vitum hversu megnug við erum en það er bara vonandi að stjórnvöld fari að fatta það líka! Allavega, kæru félagar, þá markaði starfsárið 2021 gleðileg tímamót í sögu sjúkraliðafélagsins. Því verður minnst í framtíðinni að þetta ár kom í ljós árangur af langri baráttu okkar fyrir betri vinnutíma og aukinni menntun.
Sá áfangi einn og sér á eflaust eftir að styrkja og efla stétt sjúkraliða til muna en meira um þetta tvennt hér á eftir. Auðvitað setti Covid-faraldurinn mark sitt á starfsumhverfi sjúkraliða allt árið og fram á það nýja en vonandi gefst brátt tími til að huga að því hvaða lærdóma megi draga af reynslu síðustu ára. Á tímum faraldursins stóðu Íslendingar líkt og aðrir jarðarbúar frammi fyrir margvíslegum áskorunum. Þá kom vel í ljós að fátt er mikilvægara í augum þjóðarinnar en heilbrigðismál. Þjóðin beinlínis kallar eftir því að stjórnvöld geri mun betur á þeim vettvangi en gert hefur verið. Hækkandi lífaldur þjóðarinnar og framfarir í læknavísindum kalla sömuleiðis óhjákvæmilega á aukið fjármagn og betri mönnun á heilbrigðisstofnunum. Við þessu þurfa stjórnvöld að bregðast.
Nýverið var kynnt ný fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar upp 6.000 milljarða króna og er til fimm ára. Í þessu lykilplaggi kemur framtíðarsýn stjórnvalda skýrlega í ljós. Þegar rýnt er í skjalið má sjá að Covid-samdrátturinn var minni en sviðsmyndir gerðu ráð fyrir. Ríkishallinn minnkar hraðar en búist var við. Ríkisútgjöldin stefna í það sem þau voru fyrir Covid. Skuldahorfur hafa stórbatnað frá því sem var talið í upphafi faraldursins. Þetta er jákvæð staða. En hvað segir svo hin nýja fjármálaáætlun um þróun útgjalda til heilbrigðismála?
Árleg aukning til heilbrigðismála til ársins 2026 er á bilinu 1,3-til-1,7%. Þessi aukning nær hins vegar ekki að halda í árlega fjölgun og öldrun þjóðarinnar. Það má fastlega gera ráð fyrir að verðbólgan verði nokkuð há næstu árin, – en í ár er gert ráð fyrir um 7%-8% verðbólgu.
Það sem vekur einnig athygli er að á síðasta ári fjármálaáætlunarinnar lækka útgjöldin til heilbrigðismála um 2%-stig á milli ára! Lækkun! Af hverju er þá lækkun?
Þessu til viðbótar lækka framlög til hjúkrunar- og endurhæfingarþjónustu á næstu fimm árin og það þrátt fyrir mikla fjölgun eldri borgara. Árið 2019 námu heilbrigðisútgjöld vegna þeirra sem voru 65 ára og eldri, 48% af öllum heilbrigðisútgjöldum hins opinbera. Í skýrslu um langtímahorfur í opinberum fjármálum kemur fram að vegna lýðfræðilegrar þróunar, fólksfjölgunar og öldrunar þjóðarinnar muni hækkun á heildarútgjöldum til heilbrigðismála þurfa að nema um 50% á föstu verðlagi á næstu þremur áratugum ef viðhalda á óbreyttu þjónustustigi.
Í þessu sama skjali kemur skýrt fram að mönnun í heilbrigðisþjónustunni sé „ein af stærstu áskorununum“ og það þurfi að „fjölga heilbrigðisstarfsfólki“. Þá sé það áætlun stjórnvalda að „heilbrigðisstofnanir verði eftirsóttir vinnustaðir“ og að „huga þurfi að samkeppnishæfni íslensks heilbrigðiskerfis um hæft starfsfólk.“ Þá stendur sérstaklega í plagginu að „mikil áhætta felst í því ef ekki tekst að snúa þessari þróun við, því að heilbrigðisþjónusta verður ekki veitt án heilbrigðisstarfsfólks.“ Ef þetta eru markmið stjórnvalda, af hverju birtast þau ekki í tölum fjármálaáætlunarinnar?
Það er ansi merkilegt að sjá að heilbrigðismálin er sá málaflokkur sem mælist ítrekað vera sá mikilvægasti í augum landsmanna. Í raun mætti tala um ákall þjóðarinnar til stjórnvalda um að gera mun betur í heilbrigðis- og velferðarmálum en nú er gert.
Þegar ný ríkisstjórn kynnti stjórnarsáttmála sinn koma fram vilji til að leggja aukna áherslu á að þróa „heilbrigðiskerfið í takt við breytta samsetningu þjóðarinnar, mönnunarþörf og lífsstílssjúkdóma.”Undir þessa yfirlýsingu tóku sjúkraliðar enda er sjúkraliðastéttin mjög vel meðvituð um hina brýnu þörf í heilbrigðiskerfinu. Þá fögnuðu sjúkraliða boðaðri styrkingu Landspítalans „sem mikilvægustu heilbrigðisstofnunar landsins“ þar sem „sérstök áhersla er lögð á að fylgja eftir uppbyggingu gjörgæslu og bráðadeildar.“ Sjúkraliðafélagið hét því að fylgjast grannt með því hvernig loforð nýrrar ríkisstjórnar yrðu efnd og sendi frá sér ályktun þar sem lýst var yfir miklum áhyggjum af stöðunni á bráðamóttöku Landspítalans.
Mikil umræða skapaðist á síðasta ári um bráðamóttökuna og voru raddir lækna og hjúkrunarfræðinga einkum áberandi í henni en þegar leið á árið birtu sjúkraliðar grein um málið út frá sínu sjónarhorni og vakti hún nokkra athygli. Það er ekki boðlegt starfsumhverfi þegar heilbrigðisstarfsfólk þarf ítrekað að stíga fram og lýsa yfir neyðarástandi, hvort sem er á bráðamóttökunni eða á öðrum stöðum. Metnaður sjúkraliða sem og annars starfsfólks stendur til þess að geta veitt skjólstæðingum þá faglegu hjúkrunarþjónustu sem þeir eiga rétt á lögum samkvæmt og þarfnast á meðan þeir eiga við veikindi að stríða.
En við stóðum líka vaktina þegar kom að umsögnum til stjórnvalda. Við bentum ráðherra og Alþingi á nauðsynina að fjölga fulltrúum starfsfólks í nýrri stjórn Landspítala , svo það væri tryggt að sjúkraliði gæti setið þar. Þá sendum við inn umsögn um fjárlögin, um heilbrigðisstefnu fyrir aldraða, um samúðarþreytu og um geðheilbrigðisstefnu svo eitthvað sé nefnt. Hluti af störfum okkar á skrifstofunni er einmitt að vakta frumvörp og opna augu ráðherra og þingmanna þegar þeir villast af leið.
Kæru sjúkraliðar.
Eins og ég gat um í upphafi míns máls þá var eitt af því sem ávannst á síðasta ári var innleiðingin á styttri vinnuviku. Stytting vinnuvikunnar hefur verið eitt af helstu baráttumálum Sjúkraliðafélags Íslands um árabil en í síðustu kjarasamningum náðist loks heilmikill árangur. Stytting vinnuvikunnar sem nú hefur verið innleidd hjá dagvinnufólki er allt að 4 klukkustundir á viku, fer úr 40 í 36 virkar vinnustundir með sérstöku samkomulagi meirihluta starfsfólks á viðkomandi stofnun um aðlögun vinnutíma að þörfum stofnunar og starfsfólks. Hjá fólki sem vinnur á vöktum styttist vinnuvikan úr 40 klukkustundum í 36 á viku og er frekari stytting möguleg, í allt að 32 klukkustundir, sem grundvallast á vægi vinnuskyldustunda.
Um 90% sjúkraliða í vaktavinnu voru fyrir breytingarnar í hlutastarfi. Hjá þeim sem ákváðu að vinna áfram jafn margar stundir og áður hækkaði starfshlutfallið í samræmi við fjölda og vægi vinnustunda. Undir lok árs kannaði Sjúkraliðafélagið hvernig innleiðing á styttingu vinnuvikunnar hefði gengið og hvað sjúkraliðum fyndist um framkvæmdina. Í ljós kom að innleiðingin gekk misvel hjá einstökum stofnunum og vinnuveitendum og kom þar margt afar forvitnilegt í ljós.
Þátttaka í könnuninni var mjög góð og staðfesti hún mikinn metnað sjúkraliða og áhuga á starfsumhverfi sínu en svör bárust frá 1.240 sjúkraliðum. Ég vil þakka ykkur sérstaklega fyrir þessa góðu þátttöku en hún skiptir máli.
Um 79% þeirra sem tóku þátt störfuðu við vaktavinnu en tæplega 21% við dagvinnu. Hjá þeim sem störfuðu við dagvinnu hafði stytting vinnuvikunnar verið útfærð hjá nánast öllum. Könnunin sýndi að stytting vinnuvikunnar hefur mjög jákvæð áhrif þar sem hún er innleidd í samráði við starfsfólk og mönnun er bætt. Könnunin sýndi einnig mikilvægi þess að laga og leiðrétta þá annmarka sem hafa komið í ljós því þetta er langtímaverkefni sem fylgja þarf eftir. Þá er ljóst af könnuninni að sjúkraliðar í vaktavinnu upplifa minni jákvæða breytingu af styttingunni en dagvinnufólkið. Innleiðingin hefur gengið misvel hjá vinnuveitendum og sums staðar er henni ekki að fullu lokið. Þá er tölfræðilegur munur á milli vinnuveitenda þegar kemur að einstaka þáttum styttingarinnar og við því þarf að bregðast. Kerfisbreytingin sem felur í sér breytingar á skipulagi á vinnutíma vaktavinnufólks er umfangsmikil og flókin í framkvæmd en um leið nauðsynleg.
Mikill tími fór hjá félaginu í fundarhöld með stofnunum ríkisins vegna nauðsynlegrar uppfærslu á stofnanasamningum og starfslýsingum sjúkraliða. Við samningagerðina var lögð áhersla á að fjölga símenntunarþrepum og reynt að uppfæra röðunarkaflann samhliða yfirfærslunni á nýja launatöflu. Jafnframt var lögð áhersla á að uppfæra starfslýsingar sem víða voru orðnar úreltar. Á flestum stofnunum voru viðræðurnar lausnarmiðaðar en fulltrúum sjúkraliða þótti gangurinn stundum frekar hægur. Það sýndi sig að þar sem uppfærsla samninga gekk vel og breytingar náðust inn varðandi röðun og símenntun hvað aðkoma fulltrúa sem vel þekktu til á viðkomandi svæðum var mikilvæg. Þekking á aðstæðum er svo mikilvæg eins og þið þekkið svo vel.
Eitt langþráð baráttumál sjúkraliða náðist í höfn þegar stofnuð voru ný fagráð hjá öllum heilbrigðisstofnunum landsins þar sem gert er ráð fyrir þátttöku sjúkraliða. Lækna- og hjúkrunaráð voru lögð niður enda voru þau fyrir löngu orðin úrelt og við tóku eðlilegar breytingar í kjölfar lagasetningar. Sjúkraliðar fögnuðu þessum áfanga og því að geta loks tekið þátt í því að móta hjúkrunarstefnu á heilbrigðisstofnunum. Þar með var þó ekki fullnaðarsigur unninn í þeirri baráttu að fá sjúkraliða inn í fagráð vegna þess að hjúkrunarheimilin voru ekki talin með í lögunum og kallaði fulltrúaþing Sjúkraliðafélagsins eftir breytingu á þeim í fyrra. Ný fagráð á hjúkrunarheimilum yrðu vettvangur þar sem sjúkraliðar og aðrar heilbrigðisstéttir gætu miðla reynslu sinni, bætt öryggi sjúklinga og aukið gæði þjónustunnar.
Ítrekað hefur Sjúkraliðafélagið kallað eftir því að stjórnvöld marki skýra stefnu um mönnun í heilbrigðiskerfinu. Engin lágmarksviðmið eru til af hálfu hins opinbera og eini vísirinn að þeim eru viðmiðunarreglur frá Embætti landlæknis sem ekki eru bindandi. Þetta stefnuleysi hefur verið harðlega gagnrýnt meðal heilbrigðisstétta og einnig í úttekt Ríkisendurskoðunar fyrir nokkrum misserum. Þá er það gagnrýnivert hve lítið ber á sjúkraliðum í umfjöllun stjórnvalda um mönnun kerfisins. En staðreyndin er sú að það er sjúkraliðastéttin sem ber uppi hina svokölluðu nærhjúkrun í landinu. Í úttektum frá Embætti landlæknis kemur fram að þegar fagfólk skortir á hjúkrunarheimili minnka gæði þjónustunnar. En engar leiðbeiningar eru til um það hvert hlutfall sjúkraliða í kerfinu eigi að vera.
Sjúkraliðafélagið hefur beint þeim eindregnu tilmælum til heilbrigðisyfirvalda að hlutast til um að Embætti landlæknis geri ítarlega og nákvæma úttekt á mönnunarviðmiðum, þar sem tengsl gæðavísa við hlutfall fagmenntaðra hjúkrunarstétta, þ.e.a.s. sjúkraliða og hjúkrunarfræðinga verði könnuð til hlítar.
Sjúkraliðar benda iðulega á mikilvægi þess að aukin menntun og sérhæfing þeirra sé metin að verðleikum. Það sé brýnt að stjórnendur í heilbrigðiskerfinu svari aukinni menntun sjúkraliða með nýjum starfslýsingum eða nýjum tækifærum til aukins starfsframa og bættra kjara. Þá hefur forysta félagsins minnt á áratugagamlar leiðbeiningar frá Landlækni um að stjórnendum heilbrigðisstofnana beri að uppfæra starfslýsingar og fela sjúkraliðum störf sem fylgi hærra menntunar- og færnistigi. Lítið hefur þó áorkast í þessum efnum. Það var því fagnaðaefni á síðasta ári þegar sérstöku landsráði um mönnun og menntun í heilbrigðisþjónustu var falið að fjalla um verkaskiptingu heilbrigðisstétta með áherslu á að efla starf sjúkraliða, með tilliti til aukinnar menntunar og hæfni sjúkraliða.
Á trúnaðarmannaráðsfundi Sjúkraliðafélag Íslands síðastliðið haust var skorað á stjórnendur heilbrigðisstofnana að þróa frekari starfsleiðir og starfsmöguleika í samræmi við síhækkandi menntunarstig sjúkraliða. Bent var á að æ fleiri sjúkraliðar munu útskrifast með háskólamenntun á næstu árum og þurfa bæði stjórnvöld og stjórnendur heilbrigðisstofnana að taka tillit til þess. Það er öllum í hag, ekki síst almenningi að störf sjúkraliða séu metin að verðleikum og að tekið sé tillit til aukinnar menntunar þeirra og færni. Sé slíkt ekki gert, er hætta á sjúkraliðar leiti á önnur mið og eftir stæði veikara heilbrigðiskerfi fyrir alla.
Á árinu 2021 skipaði Sjúkraliðafélag Íslands verkefnastjórn sem ætlað er að annast átaksverkefni um að fjölga sjúkraliðum. Starf verkefnastjórnar byggir á tillögum sem settar voru fram í skýrslunni Tillögur um menntun og viðbótarmenntun sem leitt geta til fjölgunar útskrifaðra sjúkraliða. Tillögurnar snúa að því að fjölga útskrifuðum sjúkraliðum auk þess að efla starf sjúkraliða, gera það áhugaverðara og finna leiðir til að gefa starfandi sjúkraliðum færi á framgangi í starfi.
Nú þegar hefur sjúkraliðanemum fjölgað talsvert undanfarin ár og samkvæmt gögnum frá Menntamálastofnun var fjöldi nemenda skráðir í sjúkraliðanám um 800 á árinu 2021 og hefur þeim fjölgað talsvert undanfarin ár.
Eftir árangursríka samvinnu Sjúkraliðafélags Íslands og stjórnsýslu mennta- og heilbrigðismála opnaði Háskólinn á Akureyri loks dyrnar fyrir sjúkraliðum haustið 2021 og bauð þar með fyrstur upp á fagháskólanám fyrir starfandi sjúkraliða. Þetta voru mikil tímamót og fagnaðefni. Framhaldsnám á fagháskólastigi mun án efa gera starf sjúkraliða meira aðlaðandi í augum ungs fólks því nú er í fyrsta sinn boðið upp á samfellda námsleið fyrir sjúkraliða frá framhaldsskólastigi yfir á háskólastig.
Í náminu er lögð áhersla á persónumiðaða nálgun í heildrænni umönnun aldraðra einstaklinga og fjölskyldna þeirra. Náminu er ætlað að bæta þekkingu á notkun mismunandi aðferða til samskipta og tryggja þannig gæði í meðferð og fræðslu. Þá mun námið veita þekkingu á skipulagi og virkni þjónustukerfa sem eru í boði fyrir þennan aldurshóp, auk notkunar velferðartækni og þátttöku í teymisvinnu. Mikill áhugi var á náminu meðal starfandi sjúkraliða og færri komust því að en vildu. Þar stunda nú 20 sjúkraliðar sérhæft nám í öldrunar-og heimahjúkrun. Þá er enn og aftur vakin athygli á mikilvægi þess að stjórnendur í heilbrigðiskerfinu geri sér grein fyrir því nýja atgervi sem verður til með háskólamenntuðum sjúkraliðum. Með þeim verður til ný auðlind innan kerfisins. Sjúkraliðar með viðbótarmenntun á háskólastigi er mikilvæg fyrir velferðar-og heilbrigðiskerfið, og þá ekki síst vegna vaxandi lífaldri þjóðarinnar, fjölþættari verkefna og meiri áherslu á þverfaglegt samstarf og þjónustu.
Stjórnvöld hafa lýst yfir vilja til að auðvelda eldra fólki að búa sem lengst heima með viðeigandi stuðningi og þjónustu jafnframt því að heilsugæslan verði styrkt enn frekar sem fyrsti viðkomustaður notenda og byggð upp þverfagleg teymisvinna þar sem unnið er að stöðugum umbótum. Það er nokkuð ljóst að þessum markmiðum verður ekki náð án sjúkraliða. Þeir gegna lykilhlutverki við heimahjúkrun ásamt því að vera hluti af margvíslegri þverfaglegri teymisvinnu innan heilbrigðisþjónustunnar. Án sjúkraliða verður heimahjúkrun ekki bætt.
Sjúkraliðar bundust samtökum fyrir áratugum síðan og hafa unnið markvisst að því að bæta kjör sín. Margt hefur áunnist en eitt af þeim stóru málum sem sífellt þarf að eiga við aftur og aftur er kynskiptur vinnumarkaður. Rannsóknir sem gerðar hafa verið á launamun kynjanna sýna að laun karla eru almennt hærri en laun kvenna. Þessi kynbundni launamunur er meðal annars tilkominn vegna kynskipts vinnumarkaðar og þeirrar staðreyndar að konur og karlar gegna mismunandi störfum. Laun eru almennt lægri hjá́ þeim starfsstéttum þar sem konur eru í meirihluta.
Krafan um að greiða skuli konum og körlum jöfn laun, ekki bara fyrir jafnverðmæt störf heldur einnig milli starfsstétta, er hins vegar bæði eðlileg og sanngjörn. Treglega hefur gengið að ná fram skilningi samfélagsins og vilja stjórnvalda á hverjum tíma til að beita sér fyrir því að eyða kynbundnum launamun. Þó baráttan hafi á undanförnum árum skilað árangri blasir sú staðreynd við að launamunur kynjanna er enn til staðar í okkar samfélagi. Það er fullkomlega óásættanlegt.
Til að útrýma launamun sem stafar af kynskiptum vinnumarkaði þarf samfélagið allt að ákveða að verðmæti starfa sé metið að jöfnu hvort heldur sem konur eða karlar sinni þeim. Þetta er eitt stærsta jafnréttisverkefni samtímans.
Kæru félagar, töluverðar breytingar urðu á skrifstofu félagsins þegar Birna Ólafdóttir, einn af stofnendum sjúkraliðafélagsins, lét af störfun. Í hennar stað kom Ragnhildur Bolladóttir og verða hennar meginverkefni ráðgjöf og þjónusta í tengslum við mennta- og kjaramál félagsins og mun hún m.a. halda utan um námsmat félagsmanna og fræðslumálin. Ákveðið var að ráða einnig tímabundið til starfa ráðgjafa með hagfræðiþekkingu í hlutastarf til að styrkja stöðu félagsins í samningaviðræðum. Þá var tekið upp nýtt tölvu- og skjalavörslukerfi, og ráðast í breytingar á húsnæðinu með það fyrir augum að bæta móttökuna.
Þetta ár er því búið að vera viðburðarríkt. Félaginu er fátt óviðkomandi og við finnum að félagsmenn eru óragir við að leita til okkar með hin ýmsu mál. Og við reynum að leysa úr þeim málum sem til okkur berast.
Áfram gakk, mínir kæru sjúkraliðar. Með hækkandi sól og sjálfstraust þessarar mikilvægu stéttar að leiðarljósi set ég þetta 31. fulltrúaþing Sjúkraliðfélags Íslands.
Ræða formanns, Söndru B. Franks, var flutt á fulltrúaráðsþingi Sjúkraliðafélags Íslands þann 12. maí 2022.