Nýr starfsmaður á skrifstofu félagsins
17 ágú. 2021
Ragnhildur Bolladóttir er nýr starfsmaður á skrifstofu Sjúkraliðafélags Íslands og hefur hún þegar hafið störf hjá félaginu. Meginverkefni Ragnhildar verða ráðgjöf og þjónusta í tengslum við kjara- og menntamál félagsins og mun hún m.a. halda utan um námsmat félagsmanna og fræðslu- og starfsþróunarsjóði.
Ragnhildur er með B.A gráðu í uppeldis- og menntunarfræði frá Háskóla Íslands og framhaldsnám með áherslu á fræðslustarf fullorðinna og mannauðsþróun.
Ragnhildur starfaði um árabil hjá Framvegis miðstöð símenntunar, fyrst sem verkefnastjóri og síðar sem framkvæmdastjóri. Þá sinnti hún um tíma teymisstjórn á kjaradeild Reykjavíkurborgar en síðastliðin ár starfaði hún hjá Menntamálastofnun þar sem hún sinnti þjónustu og ráðgjöf í málefnum framhaldsskóla og leiddi m.a. undirbúning innleiðingar nýrrar reglugerðar um vinnustaðanám og bar ábyrgð á ritstýringu og innleiðingu á rafrænni ferilbók fyrir starfsnámsnema.