Nýr kjarasamningur við SFV undirritaður
29 okt. 2024
Í gær var undirritaður nýr kjarasamningur milli Sjúkraliðafélags Íslands og Samtaka fyrirtækja í velferðarþjónustu. Samningurinn verður kynntur fyrir félagsmönnum sem starfa á kjarasamningi SLFÍ og SFV. Sjúkraliðar sem starfa á grundvelli þessa samnings fá sent teams fundarboð á kynningarfund sem verður þriðjudaginn 5. nóvember kl. 15:00.
Samningurinn, sem hefur verið lengi í undirbúningi og vinnslu, náðist loks seinni part dags þann 28. október. Helstu atriði samningsins eru:
- Launahækkanir: Samningurinn tryggir sambærilegar launahækkanir þeim sem samið hefur verið um á almenna- og opinbera vinnumarkaðnum, sem munu koma til framkvæmda á næstu fjórum árum. Hækkunin er afturvirk og verður 23.750 kr. frá 1. apríl 2024, og svo aftur þann 1. apríl árin 2025, 2026, og 2027. Fyrsta hækkunin verður greidd 1. desember 2024 með afturvirkni frá 1. apríl 2024.
- Persónu- og orlofsuppbót: Persónuuppbót greidd í desember, verður 106.000 kr. árið 2024, – 110.000 kr. árið 2025, – 114.000 kr. árið 2026, – 118.000 kr. árið 2027.
- Orlofsuppbót verður 58.000 kr. árið 2024, – 60.000 kr. árið 2025, 62.000 kr. árið 2026, – 64.000 kr. árið 2027.
- Vinnitími: Vinnuvika starfsmanna í fullu starfi er 36 virkar vinnustundir.
- Betri vinnutími: Nýr samningur felur í sér umbætur á „betri vinnutíma“ sem tryggir aukinn sveigjanleika, sem gerir sjúkraliðum kleift að samræma betur vinnu og einkalíf. Breytingar verða gerðar á reikningsreglum fyrir yfirvinnu og vaktaálag frá 1. nóvember 2024.
- Vaktahvatinn: Lagt er upp með að sníða helstu agnúana af vaktahvatanum sem bent hefur verið á, vægið aukið og viðmiðunartíminn lengdur í þrjá mánuði til að auka stöðugleika hvatans.
- Mæðravernd og tæknifrjóvgun: Ný ákvæði komu inn um barnshafandi konur sem eiga rétt til nauðsynlegra fjarvista frá vinnu vegna mæðraskoðunar sem halda launum þegar þær fara mæðravernd og hins vegar ákvæði um þá starfsmenn sem þurfa að vera fjarverandi vegna tæknifrjóvgunar halda rétti til greiðslu dagvinnulauna og eftir atvikum vaktaálags skv. reglubundinni vaktskrá.
- Frítaka í stað yfirvinnugreiðslu: Inn í samninginn kemur ákvæði sem gefur þann möguleika að taka frí fyrir yfirvinnu, þ.e. fyrir hverja yfirvinnustund er mögulegt að tak 1,62 klst. frí í dagvinnu fyrri hvern yfirvinnutíma.
- Sérmál sjúkraliða: Bókað sértækt um að mótuð verði sértæk starfslýsing fyrir sjúkraliða sem lokið hafa diplómanámi. Sú vinna á að hafa það að markmið að styrkja faglega stöðu sjúkraliða og tryggja áframhaldandi starfsþróun innan stéttarinnar m.a. með nýrri starfaflokkun S3.
Samningurinn verður kynntur fyrir félagsmönnum Sjúkraliðafélags Íslands þar sem Sandra B. Franks formaður, ásamt kjaramálanefnd félagsins, mun fara yfir helstu atriði samningsins og svara spurningum félagsmanna. Félagsmenn okkar sem starfa hjá Samtökum fyrirtækja í velferðarþjónustu (SFV) eru hvattir til að mæta á teams-fundina.
Kjaramálanefnd Sjúkraliðafélags Íslands, segir samninginn vera í takt við þá samninga sem gerðir hafa verið við aðra viðsemjendur félagsins, en því miður hafi samningaferlið verið hægt og frekar þungt á köflum. Kjaramálanefndin er sátt við árangurinn og telur að ekki hafi verið hægt að komast lengra í þessari samningslotu.
Atkvæðagreiðsla um kjarasamninginn hefst kl. 16:00 þriðjudaginn 5. nóvember og verður rafræn. Atkvæðagreiðslu lýkur 13. nóvember klukkan 12.00.
Niðurstöður atkvæðagreiðslunnar verða kynntar að atkvæðagreiðslunni lokinni, og ef samningurinn verður samþykktur gildir hann frá og með 1. apríl 2024.