Fréttir

Nýr kjarasamningur við Reykjavíkurborg undirritaður

1 júl. 2024

Í síðustu viku var undirritaður nýr kjarasamningur milli Sjúkraliðafélags Íslands og Reykjavíkurborgar, sem var kynntur fyrir félagsmönnum í dag. Samningurinn, sem hefur verið lengi í undirbúningi, var samþykktur af samninganefnd beggja aðila og er nú kominn í atkvæðagreiðslu meðal félagsmanna.

Helstu atriði samningsins:

  • Launahækkanir: Samningurinn tryggir launahækkanir sambærilegum þeim sem samið var um á almenna markaðinum, sem munu koma til framkvæmda á næstu fjórum árum. Fyrsta hækkunin verður greidd 1.ágúst 2024 með afturvirkni frá 1. apríl 2024.
  • Betri vinnutími: Nýr samningur felur í sér umbætur á „betri vinnutíma“ sem tryggir aukinn sveigjanleika, sem gerir sjúkraliðum kleift að samræma betur vinnu og einkalíf.
  • Fræðsla og þjálfun: Aukin fræðsla og þjálfun eru einnig stór þáttur í nýja samningnum. Reykjavíkurborg hefur skuldbundið sig til að bæta fræðslu fyrir stjórnendur um gerð vaktskrár, gagnsæi á vinnutíma og vinnuskilum. Þá er símenntunarþrepum fjölgað úr 3 í 4 fyrir sjúkraliða og tryggt að diplómapróf sjúkraliða verði metið að verðleikum og til launa, 3 þrep.
  • Vinnuaðstæður: Sérstök áhersla er lögð á að bæta vinnuaðstæður sjúkraliða með því að tryggja betri aðbúnað og aukna aðstoð í starfi.

Samningurinn var kynntur fyrir félagsmönnum Sjúkraliðafélags Íslands í dag á teams fundi þar sem Sandra B. Franks formaður, ásamt kjaramálanefnd félagsins, fór yfir helstu atriði samningsins og svaraði spurningum félagsmanna. Kynningin var vel sótt og ljóst að mikill áhugi er á þeim breytingum og umbótum sem samningurinn felur í sér. Atkvæðagreiðsla um nýja samninginn hófst strax í kjölfarið og mun standa yfir næstu vikuna. Félagsmenn okkar hjá Reykjavíkurborg eru hvattir til að taka þátt í atkvæðagreiðslunni.

Kjaramálanefnd Sjúkraliðafélags Íslands, segir samninginn vera skref fram á við fyrir sjúkraliða.  „Við höfum við barist lengi fyrir þessum umbótum. Við erum sátt því við sáum að ekki var hægt að komast lengra í þessari samningslotu. Það er von okkar að félagsmenn sjái hvað þessi samningur hefur að bjóða og kjósi honum í vil.“ sagði Sandra B. Franks á kynningunni í dag.

Niðurstöður atkvæðagreiðslunnar verða kynntar að viku liðinni og ef samningurinn verður samþykktur mun hann taka gildi frá og með 1. apríl 2024. Sjúkraliðafélag Íslands mun áfram vinna að því að tryggja að nýi samningurinn verði framfylgt og að félagsmenn fái þann stuðning sem þeir þurfa. Frekari upplýsingar um samninginn og atkvæðagreiðsluna má finna á „mínum síðum“ heimasíðu Sjúkraliðafélags Íslands.

Til baka