Fréttir

Ný námsleið í undirbúningi

8 júl. 2020

Formaður Sjúkraliðafélagsins, Sandra B. Franks, verður fulltrúi sjúkraliða í verkefnahóp sem mun undirbúa diplómanám á háskólastigi fyrir sjúkraliða við Háskólann á Akureyri. Þáttaskil urðu í menntasögu sjúkraliðastéttarinnar í vor þegar ríkisstjórnin féllst á eindregnar óskir félagsins um að koma slíku námi á fót.

Arnrún Halla Arnórsdóttir aðjúnkt við HA, hjúkrunarfræðingur og doktorsnemi, verður formaður verkefnahópsins en hún vann mjög ítarlega skýrslu um undirbúning námsins við HA fyrir menntamálaráðuneytið sem skilað var í febrúar 2019. Skýrslan verður lögð til grundvallar skipulagi námsins. Fyrir sjúkraliða er mikill fengur að Arnrún var fengin til að leiða vinnuna.

Auk þess verða í verkefnahópnum tveir fulltrúar frá heilbrigðisvísindasviði Háskólans á Akureyri, þær Hafdís Skúladóttir lektor, og Áslaug Lind Guðmundsdóttir verkefnastjóri. Einn fulltrúi frá Verkmenntaskólanum á Akureyri mun einnig sitja í henni sem ekki hefur enn verið tilnefndur.

Sjúkraliðafélagið hefur sett upp sérstakan bakhóp til að vinna með Söndru formanni. Í honum verður Birna Ólafsdóttir, skrifstofustjóri, sem ötullega hefur unnið að menntamálum sjúkraliða í gegnum árin, Hulda Birna Frímannsdóttir sjúkraliði með sérnám á Hrafnistu og Jakobína Rut Daníelsdóttir sjúkraliði með sérnám og starfar á Landakoti.

Til baka