Fréttir

Niðurstöður könnunar – Ánægja, en töluvert álag: Vannýtt tækifæri

1 júl. 2022

Sjúkraliðafélag Íslands stóð nýverið fyrir umfangsmikilli könnun um líðan sjúkraliða þar sem tæplega 900 sjúkraliðar svöruðu. Margt jákvætt kom fram í þessari könnun og ekki síst hversu margir sjúkraliðar eru ánægðir (87%) í starfi sínu. Þá lýsa flestir sjúkraliðar bæði jákvæðum starfsanda (83%) og samskiptum við samstarfsfélaga (97%).

Auðvitað er ýmislegt sem þarf að gera betur og mun Sjúkraliðafélagið gangast fyrir því. Ekki síst þarf að greina niðurstöðurnar eftir vinnustöðum. Sem dæmi lýsa færri sjúkraliðar á hjúkrunarheimilum jákvæðum starfsanda en á öðrum vinnustöðum.

Líklega kemur það ekki á óvart að flestir sjúkraliðar upplifa álag (80%) og streitu (70%) í vinnunni. Sjúkraliðar á Landspítalanum mælast með meira álag og streitu en á öðrum vinnustöðum.

Sérstök áskorun er sá tæpi þriðjungur (31%) sem upplifir alvarlega eða miðlungskulnun í starfi og er hlutfallið aðeins hærra hjá vaktavinnufólki. Að sjálfsögðu er sérhver sjúkraliði sem telur sig upplifa ógnvekjandi aðstæður í starfi sínu (8% hefur upplifað slíkt mjög eða nokkuð oft) eða hefur orðið fyrir áreitni (4%), þeim sjúkraliðum of mikið, slíkar aðstæður á engin að vinna við.

Það er áhyggjuefni að meira en 20% sjúkraliða telja að það hafi verið litið niður á sig af hálfu yfirmanna.

Könnunin sýnir einnig að það eru vannýtt tækifæri fyrir stjórnendur að nýta sér enn meira þá reynslu og menntun sem sjúkraliðar hafa og enn eru ekki nægjanleg tækifæri til framþróunar í starfi að mati meirihluta sjúkraliða. Margir sjúkraliðar eru að kalla eftir meiri ábyrgð í starfi.

Fyrir stjórnvöld er það einnig talsvert áhyggjuefni að meira en fjórði hver sjúkraliði telji að það sé mjög eða talsvert líklegt að þeir muni hætta í núverandi starfi næsta árið (hæst hjá þeim sem starfa hjá hjúkrunarheimilum). Kannski helst það í hendur við hið mikla álag sem mælist en einnig þá staðreynd að næstum helmingur sjúkraliða telur að mönnunin sé aldrei eða sjaldan fullnægjandi á vinnustaðnum.

Helstu niðurstöður:

  1. Rúmlega 87% sjúkraliða eru mjög eða nokkuð ánægðir í starfi sínu.

2. Rúmlega 83% sjúkraliða (rúmlega 88% þeirra sem vinna hjá LSH, 74% hjá hjúkrunarheimilunum, 90% hjá heilbrigðisstofnunum, 86% í heimahjúkrun) lýsa starfsanda á vinnustað sínum sem mjög eða nokkuð góðum. Tæplega 16% sjúkraliða lýsa starfsandanum sem frekar eða mjög slæmum.

3. Um 64% sjúkraliða telja að það sé borin mjög oft eða nokkuð oft virðing fyrir störfum þeirra á vinnustaðnum.

4. Um 97% sjúkraliða lýsa samskiptum við samstarfsfélaga sína sem mjög eða frekar góðum.

a. Um 16% sjúkraliða (rúmlega 18% þeirra sem vinna hjá LSH, tæp 17% hjá hjúkrunarheimilunum, 11,5% hjá heilbrigðisstofnunum, 18,5% í heimahjúkrun) telja að stundum sé litið niður á þá á vinnustaðnum af hálfu yfirmanna. En 78% telja að svo sé aldrei eða sjaldan. Um 5% telja að slíkt gerist nokkuð eða mjög oft (samanlagt yfir 20% með þeim sem telja slíkt gerast stundum eða nokkuð oft).

5. Um 13% sjúkraliða (rúmlega 15% þeirra sem vinna hjá LSH, rúm 17% hjá hjúkrunarheimilunum, 13,5% hjá heilbrigðisstofnunum, 10% í heimahjúkrun) telja að stundum sé litið niður á þá á vinnustaðnum af hálfu samstarfsfélaga. En 83% telja að svo sé aldrei eða sjaldan. Um 3% telja að slíkt gerist nokkuð eða mjög oft.

6. Um 11% sjúkraliða telja að sjaldan eða aldrei sé hlustað á þá á vinnustaðnum.

7. Tæplega 80% (86% hjá LSH, 81% hjá hjúkrunarheimilunum, 80% hjá heilbrigðisstofnunum og tæplega 69% í heimahjúkrun) sjúkraliða upplifa mikið eða nokkuð álag í vinnunni.

8. Tæplega 70% sjúkraliða (rúmlega 72% vaktavinnufólks, 77% þeirra sem vinna hjá LSH, 71% hjá hjúkrunarheimilunum, 67% hjá heilbrigðisstofnunum, 60% í heimahjúkrun) hafa upplifað alvarlega eða miðlungsstreitu í starfinu.

9. Tæplega 31% sjúkraliða (um 32% vaktavinnufólks en 25% dagvinnufólks, 36% þeirra sem vinna hjá LSH, 34,5% hjá hjúkrunarheimilunum, 21% hjá heilbrigðisstofnunum, 25% í heimahjúkrun) hafa upplifa alvarlega eða miðlungskulnun í starfi. Um 42% sjúkraliða hafa ekki upplifað kulnun í starfi.

10. Tæplega 77% (84% vaktavinnufólks) finnst starf sitt vera mjög eða talsvert erfitt.

11. Um 42% sjúkraliða (45% hjá LSH, tæplega 49% hjá hjúkrunarheimilunum, 38% hjá heilbrigðisstofnunum, 34% í heimahjúkrun) telja að mönnun sé aldrei eða sjaldan fullnægjandi á vinnustaðnum.

12. Um 92% sjúkraliða telja að kröfurnar til starfsins séu miklar eða nægilega miklar.

13. Um 94% sjúkraliða telja að markmið starfsins séu skýr eða yfirleitt skýr.

14. Um 54% sjúkraliða telja að menntun sín og reynsla sé vel nýtt á vinnustaðnum. Hins vegar telja um 20% sjúkraliða að svo sé ekki gert eða sjaldan.

15. Um 50% sjúkraliða (um 50% þeirra sem vinna hjá LSH, 43% hjá hjúkrunarheimilunum, 56% hjá heilbrigðisstofnunum, 55% í heimahjúkrun) telja að þátttaka sín í teymisvinnu sé á jafnræðisgrundvelli en um 9% telja að svo sé ekki.

16. Um 52% sjúkraliða (um 48% þeirra sem vinna hjá LSH, 57% hjá hjúkrunarheimilunum, 53% hjá heilbrigðisstofnunum, 54% í heimahjúkrun) telja ekki að það séu nægileg tækifæri til framþróunar í starfi á vinnustað sínum.

17. Tæplega 36% sjúkraliða hafa stundum eða sjaldan upplifað áreitni á vinnustaðnum en um 4% sjúkraliða telja að slíkt gerist nokkuð oft eða mjög oft. Rúmlega 59% (62% þeirra sem vinna hjá LSH, 50% hjá heilbrigðisstofnunum, 67% hjá hjúkrunarheimilunum, 62% í heimahjúkrun) telja að slíkt hafi aldrei gerst.

18. Um 66% sjúkraliða (tæplega 62% þeirra sem vinna hjá LSH, yfir 68% þeirra hjá hjúkrunarheimilunum og hjá heilbrigðisstofnunum, 78% í heimahjúkrun) hafa stundum eða sjaldan upplifað ógnvekjandi aðstæður í starfi sínu en um 8% sjúkraliða hafa upplifað slíkt nokkuð oft eða mjög oft.

19. Um 21% sjúkraliða hafa nokkuð oft eða mjög oft íhugað að hætta starfi sínu  en um helmingur hefur aldrei eða sjaldan gert það.

20. Um 28% sjúkraliða (um 30,5% þeirra sem vinna hjá LSH, rúmlega 32% hjá hjúkrunarheimilunum, 15% hjá heilbrigðisstofnunum) telja mjög líklegt eða talsverðar líkur á því að þeir hætti í núverandi starfi sínu næstu 12 mánuði.

Til baka