Meta ávinning af starfi VIRK í fyrra á 21,3 milljarð
10 maí. 2021
Ávinningur af starfsemi VIRK Starfsendurhæfingarsjóðs á árinu 2020 var metinn á um 21,3 milljarða króna að því er fram kemur í frétt á vef sjóðsins.VIRK starfsendurhæfingarsjóður var stofnaður í kjölfar bankahrunsins haustið 2008 af aðilum vinnumarkaðarins, þar á meðal BSRB, í þeim tilgangi að standa fyrir starfsendurhæfingu í kjölfar hrunsins.
Talnakönnun hefur nú tekið saman skýrslu um starfsemi sjóðsins þar sem metið er hver ávinningur samfélagsins var af starfsemi VIRK á síðasta ári. Á sama tíma og ávinningur af starfseminni nam 21,3 milljörðum var rekstrarkostnaður sjóðsins um 3,5 milljarðar króna. Þetta eru sambærilegar tölur og á árinu þar á undan.
Í skýrslu Talnakönnunar var einnig reiknaður út ávinningur samfélagsins af virkni hvers einstaklings sem útskrifaðist úr starfsendurhæfingu á árinu 2020. Sá ávinningur nam um 13,3 milljónum króna að meðaltali á hvern einstakling.
Þetta er áttunda árið í röð sem Talnakönnun greinir árangurinn og ávinninginn af starfsemi VIRK. Eins og áður var unnið út frá mælikvarða á sparnað af starfsemi VIRK sem tók mið af raunverulegum árangri, árangri sem felst í að flýta endurhæfingu, stytta tímabil óvinnufærni einstaklinga og minnka tíðni örorku.
Aðstæður einstaklinganna sem leita til VIRK eru misjafnar. 80% þeirra sem leita til VIRK hafa ekki starfsgetu vegna andlegra sjúkdóma eða stoðkerfisvandamál og þeim einstaklingum sem glíma við bæði stoðkerfisvanda og geðrænan fer fjölgandi.
Samkvæmt þjónustukönnunum telja einstaklingarnir að starfsendurhæfingarþjónusta VIRK hafi haft mikil og jákvæð áhrif á stöðu þeirra hvað varðar bætta sjálfsmynd og aukna vinnugetu og meta heilsu sína og lífsgæði mun betri við lok þjónustu en við upphaf hennar.
Sýnt er fram á í skýrslunni að ábatinn af starfsendurhæfingarþjónustu á vegum VIRK skilar sér til Tryggingastofnunar, lífeyrissjóða og ríkisins í formi aukinna skatttekna. Ofan á þetta kemur svo bættur hagur einstaklinga, bæði fjárhagslegur auk þeirra lífsgæða sem felast í því að geta tekið fullan þátt í samfélaginu.