Launagreiðslur á stórhátíðardögum samanborið við greiðslu fyrir aukavakt/yfirvinnu í öllum kjarasamningum okkar
14 des. 2023
Eins og kunnugt er hefur innleiðingarferli á betri vinnutíma í vaktavinnu, þar sem vinnuskyldan fór úr 40 klst á viku í 36 klst. – og í allt að 32 klst viku fyrir starfsfólk á fjölbreyttum vöktum, reynst okkur öllum afar krefjandi. Í raun er það ekkert skrítið því aldrei, hvorki í sögu okkar né annarra stéttarfélaga, hefur jafn viðamikil kerfisbreyting verið gerð á vinnutíma fólks.
Meginmarkmið þessara breytinga er að bæta starfsumhverfi og launamyndun vakavinnufólks meðal annars með því að:
- stytta vinnutíma vaktavinnufólks
- 80% hlutastarf í gamla kerfinu er að jafnaði metið sem fullt starf
- auka stöðugleika í mönnun
- draga úr þörf og hvata til yfirvinnu
Í raun hafa markmið sem að var stefnt náðst. Stöðugildum hefur fjölgað. Álagsgreiðslur hafa aukist. Yfirvinnan hefur minnkað á milli ára, enda ljóst að greiðsla fyrir aukavakt á stórhátíðardögum er lægri en sú greiðsla sem fæst fyrir að standa skráða vakt.
Á stórhátíðardegi þýðir þetta að sá sem er til dæmis í launaflokki 21-0 þar sem dagvinnutaxtinn er 3.365,72 kr. og yfirvinnutaxtinn er 5.530,54 kr. verður útkoman þessi:
- Fyrir aukavakt/yfirvinnu er greitt stórhátíðarkaup: 7.322,58 kr. á tímann án álags. Á aukavakt á stórhátíðardögum er semsagt greitt stórhátíðarkaup.
- Fyrir þann sem skráður er á vakt á stórhátíðardegi frá kl. 00:00 til 24:00 er greitt 120% álag, þ.e. 4.038,86 + 3.365,72 = 7.404,58 kr. á tímann.
- Fyrir þann sem skráður er á vakt aðfangadag og gamlársdag frá kl. 16:00 til 24:00 og á jólanótt og nýársnótt frá kl. 00:00 til 08:00 er greitt 165% álag = 5.553,44 kr. + 3.365,72 = 8.919,16 kr. á tímann.