Fréttir

Kröfur BSRB gagnvart stjórnvöldum ræddar á formannaráðsfundi

19 okt. 2022

Formannaráð BSRB kom saman til fundar í Stykkishólmi dagana 17. og 18. október. Meginefni fundarins var að ræða væntanlegar kröfur BSRB gagnvart stjórnvöldum í aðdraganda kjarasamninga.

Fundurinn hófst með stuttri yfirferð á stefnu bandalagsins og síðan tók við stefnumótunarvinna og umræður undir stjórn Sonju Ýr Þorbergsdóttur, formanns BSRB. Markmiðið var að draga fram grunn að helstu kröfum BSRB á stjórnvöld í aðdraganda kjarasamninga.

Ræddar voru helstu áskoranir sem félagsfólk bandalagsins stendur frammi fyrir, stefnumálum BSRB forgangsraðað og í framhaldinu tók við hópavinna þar sem rætt var um helstu áherslur innan þeirra forgangsmála sem fyrir valinu urðu. Næsta skref er að taka umræðuna inn á samningseiningafund BSRB þar sem niðurstöðurnar verða ræddar í breiðari hóp.

Seinni dagurinn var helgaður umræðu um fræðslumál þar sem markmiðið var að draga fram sóknarfærin í fræðslumálum og greina hvað BSRB og aðildarfélög geta mögulega gert betur til að tryggja að fræðsla félagsfólks verði sem best meðal annars til að mæta þeim breytingum sem vinnumarkaðurinn stendur frammi fyrir.

Á fundinum var Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, hagfræðingur BSRB, einnig með stutt innlegg annars vegar um stöðuna í heilbrigðismálum og hinsvegar í húsnæðismálum.

Fundurinn var vel heppnaður. Umræður voru líflegar og hópavinnan árangursrík og komist að kjarnanum í ýmsum málefnum sem fundarmenn brenna fyrir.

Formannaráð BSRB er skipað formönnum aðildarfélaga bandalagsins hverju sinni. Ráðið mótar stefnu og megináherslur BSRB í málum sem koma upp milli þinga bandalagsins og fylgir eftir framkvæmd samþykkta þingsins og annarra mála sem þingið vísar til ráðsins. Fundir ráðsins, sem haldnir eru að minnsta kosti þrisvar á ári, er einnig vettvangur samráðs aðildarfélaga bandalagsins. Formaður BSRB er jafnframt formaður ráðsins.

Til baka