Kjarasamningur við ríkissjóð samþykktur
11 júl. 2024
Í dag lauk atkvæðagreiðslu á nýgerðum kjarasamningi Sjúkraliðafélags Íslands við fjármála- og efnahagsráðherra f.h. ríkissjóðs og var hann samþykktur með meirihluta greiddra atkvæða. Samningurinn gildir frá 1. apríl 2024 til 31. mars 2028.

Samkvæmt þessum nýja samningi munu mánaðarlaun hækka um að lágmarki 23.750 krónur eða 3,25% á mánuði og verða launahækkanir til útborgunar um næstu mánaðarmót, afturvirkt frá 1. apríl 2024. Þá var 0,7% af kostnaðarmati kjarasamningsins sett á launaflokka í töflu þannig að laun sjúkraliða munu hækka um rúmlega 18% á samningstímanum, eða frá 95.000 kr. til 130.000 kr. á launaflokk. Þá munu laun sjúkraliða fylgja launaþróun á almennum markaði. Desember- og orlofsuppbætur munu einnig hækka einnig á milli ára.
Til viðbótar við þetta náðist samkomulag um að breyta reiknireglu vaktahvatans sem leiðir til þess að minni launasveiflur verða á milli mánaða. Einnig var gert samkomulag um að bæta viðverukerfin og fara í
fræðsluátak varðandi notkun og nýtingu kerfanna enda mikilvægt að auka gagnsæi á fyrirkomulagi vaktskrár og vaktahvatanum.
Þá náðist einnig samkomulag um að tryggja stöðu sjúkraliða í helbrigðiskerfinu enn betur og þá einkum sjúkraliða með diplómaprófi. Samhliða þessum kjarasamningi samþykkti heilbrigðisráðherra breytingu á reglugerð um menntun, réttindi og skyldur sjúkraliða og skilyrði til að hljóta starfsleyfi. Reglugerðarbreytingin felur í sér viðurkenningu á viðbótarmenntun sjúkraliða við Háskólann á Akureyti sem gerir þeim kleyft að takast á við flóknari verkefni og takast á hendur aukna ábyrgð í stöfum sínum. Kjarasamninginn má lesa hér:
Kjarasamningur Sjúkraliðafélags Íslands og fjármála- og efnahagsráðherra f.h. ríkissjóðs