Fréttir

Kjarasamningar og áherslur sjúkraliða

26 feb. 2024

Línur hafa verið lagðar um hógværar launahækkanir, sterkara bótakerfa og lækkun verðbólgu og vaxta. Við sjáum yfirlýsingar um að aðilar leggi sitt af mörkum til að ná stöðugleika í efnahagsmálunum. Eins og staðan er nú er erfitt að draga upp skýra mynd af því hvernig málin þróast á næstunni. Óvissan er nokkur en ef breið samstaða myndast á vinnumarkaði um sameiginlegar kröfur og trúverðuga aðkomu launagreiðenda og stjórnvalda, þá opnast möguleiki til að ræða kjarasamninga til lengri tíma

Ákall um betri starfskjör brenna á sjúkraliðum. Það sama má segja um allflesta launþega í þessu landi. Allt kapp er lagt á að verja kaupmátt launa því þegar verðbólgan verður hærri en launahækkanir þá rýrnar kaupmátturinn. Það er því brýnt að stuðla að breiðri sátt á vinnumarkaði til að stemma stigu við vaxtahækkunum og verðbólgu. Það er því verk að vinna fyrir okkur í verkalýðshreyfingunni.

Sandra B. Franks, formaður SLFÍ

Sjúkraliðar leggja línurnar
Áhersluatriði sjúkraliða eru skýr og endurspeglast kröfugerðum á hendur launagreiðendum. Rétt er að minna á að um 97% sjúkraliða eru konur og um 90% stéttarinnar vinna á vöktum. Það kemur því ekki á óvart að sjúikraliðar setji fram skýrar kröfur um að gripið verði til aðgerða til að endurmeta virði kvennastarfa, þannig að kynbundinn launamunur verði leiðréttur í eitt skipti fyrir öll.

Þó launamunur hafi farið minnkandi síðustu ár, þá er hann en um 10%. Fyrir konur sem hafa um 700.000 kr. laun á mánuði, þýðir 10% launamunur um 80.000 kr. á mánuði, eða 960.000 kr. á ári. Yfir starfsæfina nemur fjárhæðin yfir 47 m.kr. Þá eru ótalin áhrifin á lífeyrisgreiðslur og efnahagslega stöðu kvenna á efri árum. Þessu þarf að breyta. Því launamunur kynjanna er ekki aðeins tölfræðilegt viðfangsefni heldur er hann félags- og efnahagslegur veruleiki. Launamisréttið hefur þannig áhrif á lífsgæði og fjárhagslegt öryggi kvenna alla þeirra ævi.

Sömuleiðis gera sjúkraliðar kröfu um afgerandi breytingar verði gerðar á betri vinnutíma í vaktavinnu. Vaktahvatinn hefur reynst sjúkraliðum erfiður, hann er flókinn, ógagnsær, og skilar sjúkraliðum ófyrirséðum launasveiflum milli mánaða. Við því þarf bregðast. Þá þarf einnig að leiðrétta yfirvinnutaxta, hátíðarálag og fleiri þætti sem snúa að styttingu vinnuvikunar / betri vinnutíma.

Hugmynd að breiðri sátt verður til
Það kemur ekki á óvart að aðilar innan verkalýðshreifingarinnar geri með sér samstarf um kjaraviðræður í þeirri viðleitni að jafnvægi náist um efnahagsmálin. Kjaramálanefnd Sjúkraliðafélags Íslands veitti BSRB umboð til að leiða viðræður um sameiginlegu málin. BSRB hefur því átt í viðræðum við viðsemjendur fyrir hönd aðildarfélaga bandalagsins, með það að markmiði að stuðla að breiðri sátt á vinnumarkaði til að stemma stigu við vaxtahækkunum og verðbólgu.

Samhliða kröfum um hóflegar launahækkanir hefur BSRB lagt fram kröfur gagnvart stjórnvöldum að því markmiði að stuðla megi að félagslegum stöðugleika með auknum barnabótastuðningi, fríum skólamáltíðum, hækkun hámarksgreiðslna í fæðingarorlofi, húsnæðisstuðningi, aukinni uppbyggingu leiguíbúða í almenna íbúðakerfinu hjá Bjargi íbúðafélagi í eigu ASÍ og BSRB, bilið milli fæðingarorlofs og leikskóla verði brúað og gripið verði til aðgerða til að endurmeta virði kvennastarfa.

Að undanförnu hefur meginþunginn í viðræðunum farið í að ræða launalið, styttingu vinnuvikunnar í vaktavinnu en þar ber hæst umræða um vaktahvatann og jöfnun vinnuskila. Þá hefur starfshópur um jöfnun launa milli markaða haldið áfram störfum.

Sandra B. Franks, formaður Sjúkraliðafélags Íslands

Til baka