Vaktavinna

Hvernig er matar- og kaffitímum vaktavinnumanna háttað?

Starfsmenn í vaktavinnu hafa ekki sérstaka matar- og kaffitíma. Starfsmönnum er þó heimilt að neyta matar og kaffis við vinnu sína á vaktinni þegar því verður við komið starfsins vegna.

Hvenær á vaktaskýrsla að liggja fyrir?

Þar sem unnið er á reglubundnum vöktum skal leggja fram drög að vaktaskýrslu 6 vikum áður en hún tekur gildi. Við gerð vaktskrár skal kappkostað að uppsöfnun vinnutíma sé takmörkuð eins og frekast er unnt. Starfsmenn fá í framhaldinu einnar viku svigrúm til að gera athugasemdir og óska eftir breytingum á fyrirliggjandi drögum að vaktskrá. Endanleg vaktskrá skal svo lögð fram mánuði áður en fyrsta vakt skv. skránni hefst nema samkomulag sé við starfsmenn um skemmri frest.

Hvaða rétt hef ég þegar gerðar eru breytingar á vaktaskýrslu?

Breyting á vaktskrá krefst almennt samþykki starfsmanns. Ef vaktaskýrslu er breytt með skemmri fyrirvara en 24 klst. skal viðkomandi starfsmanni greitt breytingagjald sem nemur 2% af mánaðarlaunum í hverjum launaflokki og þrepi.
Sé fyrirvarinn 24-168 klst. (ein vika) skal breytingagjald sem nemur 1,3% af mánaðarlaunum í hverjum launaflokki og þrepi. Hér er eingöngu átt við breytingar á skipulagðri vakt en ekki aukavakt.

Taki starfsmaður vakt umfram vinnuskyldu, með minna en 24 klst. fyrirvara á tímabilinu 17:00-24:00 á föstudögum, kl. 24:00-08:00 mánudaga til föstudaga, kl. 00:00-24:00 laugardaga, sunnudaga og sérstaka frídaga, sbr. 2.1.4.2 miðað við 8 klst. vakt, skal greiða breytingargjald sem nemur 1,3% af mánaðarlaunum í hverjum launaflokki og þrepi og hlutfallslega fyrir lengri eða styttri vaktir.

Hvað eiga vaktir að vera langar?

Að jafnaði skulu vaktir vera á bilinu 4 - 10 klst. Heimilt er að semja um aðra tímalengd vakta.

Frídagar í vaktavinnu

Þeir sem vinna vaktavinnu, skulu í viku hverri fá 2 samfellda frídaga þannig að næturfrí komi fyrir og eftir frídagana. Samningsaðilum er heimilt að semja um að frídagarnir séu veittir hvor í sínu lagi þó þannig að næturfrí komi jafnan fyrir og eftir frídagana eða ekki skemmri tíma en 36 klst. samfellt fyrir hvorn dag. Heimilt er í samráði við starfsmenn með samþykki stéttarfélags að flytja frídaga milli vikna.

Hver er réttur minn þegar unnið á sérstökum frídögum?

Fyrir slíka vinnu skal greiða yfirvinnu- eða stórhátíðakaup, þó aldrei minna en 8 klst. fyrir hvern merktan vinnudag fyrir fullt starf. Aðfangadagur jóla og gamlársdagur reiknast sem hálfir frídagar og er lágmarksgreiðsla því 4 klst.

Hver er réttur minn þegar vakt hefur verið stytt eða felld niður vegna frídagsins?

Kemur frí í stað greiðslu. Algengt er að starfsmenn telji að þeir eigi að halda fullri greiðslu fyrir daginn þótt gefið sé frí en það er ekki rétt. Yfirvinnugreiðslan er einmitt tilkomin af því að starfsmaðurinn á ekki frí þennan dag, en ef hann fær frí fellur greiðslan niður á móti fyrir jafnmargar klukkustundir og frí er gefið.

Hver er réttur minn þegar frí er á sérstökum frídögum?

Fyrir slíka daga skal greiða starfsmanni í fullu starfi 8 klst. á yfirvinnukaupi, eins þó um stórhátíðardag sé að ræða. Skiptir þá ekki máli þótt starfsemi liggi niðri þann dag. Aðfangadagur jóla og gamlársdagur bætast að hálfu. Greitt skal hlutfallslega fyrir hlutastarf, þ.e. greiða skal hlutastarfsmanni meðalstundafjölda í stað 8 klst.

Hvað er frítökuréttur?

Hafi stjórnandi metið það svo að brýn nauðsyn sé til að starfsmaður mæti til vinnu áður en 11 klst. lágmarkshvíld er náð, skapast frítökuréttur, 1½ klst. (í dagvinnu) fyrir hverja klukkustund sem hvíldin skerðist. Ávinnsla frítökuréttar einskorðast ekki við heilar stundir. Starfsmaður á ekki að mæta aftur til vinnu fyrr en að aflokinni 11 klst. hvíld nema hann hafi sérstaklega verið beðinn um það. Mæti starfsmaður eigi að síður áður en hann hefur náð hvíldinni, ávinnur hann sér ekki frítökurétt.

Getur starfsmaður fengið frí í stað yfirvinnu?

Frítaka skal veitt í samráði við starfsmann enda sé uppsafnaður frítökuréttur a.m.k. fjórar stundir og skal frítaka ekki veitt í styttri lotum en það. Leitast skal við að veita frí svo fljótt sem auðið er eða með reglubundnum hætti til að koma í veg fyrir að frí safnist upp. Þá er heimilt er að greiða út ½ klst. (í dagvinnu) af hverri 1½ klst. sem starfsmaður hefur áunnið sér í frítökurétt, óski hann þess.

Til baka