Launalaust leyfi að ósk starfsmanns
Almennt er ekki skylt að verða við ósk starfsmanns um launalaust leyfi frá störfum í þjónustu ríkisins. Frá þessu kunna þó að vera undantekningar í kjarasamningi eða lögum, sbr. eftirfarandi dæmi:
Bjóðist starfsmanni tækifæri og/eða styrkur til að vinna að tilteknu verkefni tengdu starfi hans kann hann að eiga rétt á launalausu leyfi, sbr. ákvæði í kjarasamningi. Slíkt leyfi skal tekið í samráði við yfirmann stofnunar.
Starfsmaður kann að eiga rétt á foreldraorlofi til að annast barn sitt, sbr. VII. kafla laga nr. 95/2000, um fæðingar- og foreldraorlof.
Hafi starfsmaður verið kjörinn á þing á hann rétt á launalausu leyfi í allt að fimm ár, sbr. 4. gr. laga nr. 88/1995, um þingfararkaup alþingismanna og þingfararkostnað.
Ákvörðun um launalaust leyfi frá störfum að ósk starfsmanns er í höndum hlutaðeigandi stofnunar.
Það eru engar almennar reglur til sem setja launalausum leyfum frá störfum skorður hvað varðar lengd. Ákvarðanir varðandi lengd launalausra leyfa eru því undir hlutaðeigandi stofnunum komnar nema í þeim undantekningartilvikum þegar það er sérstaklega tiltekið í lögum, kjarasamningum eða öðrum reglum.
Almennt verður að telja óæskilegt að veita launalaust leyfi frá störfum til lengri tíma en 12 mánaða. Í því sambandi er m.a. rétt að hafa í huga að það getur verið vandkvæðum bundið að manna störf í slíkum tilvikum, með tilliti til auglýsinguskyldu og fleira, auk þess sem slíkt kostar oft tíma og fjármuni.
Ef starfsmanni er veitt launalaust leyfi frá störfum er áríðandi að leyfið sé veitt í tiltekinn tíma þannig að ljóst sé hvenær starfsmaður byrjar í leyfi og hvenær hann á að mæta aftur til starfa.
Mikilvægt er að ganga skriflega frá launalausu leyfi þannig að það sé ljóst hvað var ákveðið og að auðvelt sé að færa sönnur á að það ef til ágreinings kemur.