Fæðingar- og foreldraorlof

Á starfsmaður að fá greidda yfirvinnu í fæðingarorlofi?

Nei, allar launagreiðslur falla niður í fæðingarorlofi og er það raunar ein af forsendum þess að starfsmaður geti átt rétt á fæðingarorlofi.

Er hægt að hefja fæðingarorlof á fæðingardegi?

Þegar um fæðingu fyrir tímann er að ræða á móðir að sjálfsögðu rétt á að hefja fæðingarorlof þann dag. Í öðrum tilvikum er einnig hægt að hefja fæðingarorlof á raunverulegum fæðingardegi, svo fremi sem launagreiðandi hefur samþykkt tilkynningu starfsmanns þess efnis. Þá er mikilvægt að starfsmaður taki fram í umsókn til Fæðingarorlofssjóðs að hann óski eftir því að greiðslur hefjist á raunverulegum fæðingardegi.

Er ráðning skilyrði fyrir greiðslum í fæðingarorlofi?

Það er ekki skilyrði fyrir greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði að viðkomandi sé með gilda ráðningu út fæðingarorlofið.

Hvaða áhrif hefur það á rétt til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði hafi starfsmaður skömmu áður verið í fæðingarorlofi vegna fæðingar eldra barns?

Samkvæmt upplýsingum frá Fæðingarorlofssjóði telst starfsmaður vera á vinnumarkaði þann tíma sem hann er í fæðingarorlofi og nýtur greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði. Litið er á greiðslurnar úr Fæðingarorlofssjóði sem launagreiðslur. Þær eru því lagðar til grundvallar við útreikning á greiðslum í næsta fæðingarorlofi ef þær lenda inn á viðmiðunartímanum.

Hvar á að sækja um greiðslur í fæðingarorlofi og hver sækir um þær?

Starfsmaður á yfirleitt rétt á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði en þær taka mið af þeim tekjum sem viðkomandi hefur haft. Ellegar á starfsmaður rétt á fæðingarstyrk. Starfsmaður sækir sjálfur um þessar greiðslur. Auk greiðslna frá Fæðingarorlofssjóði kann starfsmaður að eiga rétt á greiðslum úr sjúkra- eða styrktarsjóði stéttarfélags. Þá kann starfsmaður að eiga réttindi til greiðslna/ávinnslu orlofslauna, persónuuppbótar og orlofsuppbótar, þ.e. skv. ákvæðum í kjarasamningi.

Hvar má finna reglur og umfjöllun um fæðingarorlof?

Reglur um fæðingarorlof er annars vegar að finna í ákvæðum laga nr. 95/2000, um fæðingar- og foreldraorlof, og reglugerð nr. 909/2000, um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks. Á vef velferðarráðuneytisins er almenn umfjöllun um fæðingar- og foreldraorlofsmál.

Hve lengi þarf starfsmaður að vera á vinnumarkaði til að öðlast rétt til fæðingarorlofs?

Foreldri öðlast rétt til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði eftir að hafa verið samfellt í sex mánuði á innlendum vinnumarkaði fyrir upphafsdag fæðingarorlofs í a.m.k. 25% starfi. Taka skal til greina starfstíma foreldris í öðrum EES-ríkjum eða aðildarríkjum stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu, hafi foreldri unnið hér á landi í a.m.k. einn mánuð á síðustu sex mánuðum fyrir upphafsdag fæðingarorlofs.

Hver er réttur barnshafandi konu sem treystir sér ekki til að vinna lengur?

Ef öryggi og heilbrigði þungaðrar konu, konu sem hefur nýlega alið barn eða konu sem er með barn á brjósti er í hættu samkvæmt sérstöku mati, skal vinnuveitandi gera nauðsynlegar ráðstafanir til að tryggja öryggi konunnar með því að breyta tímabundið vinnuskilyrðum og/eða vinnutíma hennar. Ef því verður ekki við komið af tæknilegum eða öðrum gildum ástæðum, skal vinnuveitandi fela konunni önnur verkefni en að öðrum kosti veita henni leyfi frá störfum í svo langan tíma sem nauðsynlegt er til að vernda öryggi hennar og heilbrigði.

Þær breytingar sem teljast nauðsynlegar á vinnuskilyrðum og/eða vinnutíma konu, skulu ekki hafa áhrif á launakjör hennar til lækkunar eða önnur starfstengd réttindi.

Ef veita þarf þungaðri konu leyfi frá störfum samkvæmt ákvæði þessu, á hún rétt á greiðslu fæðingarorlofs.

Hver er réttur einstæðs foreldris til fæðingarorlofs þegar fyrirséð er að það muni fara eitt með forsjá væntanlegs barns?

Í slíkum tilvikum er litið svo á að forsjárforeldrið eigi til viðbótar sínum sjálfstæða 3ja mánaða rétti tilkall til þess hluta sem telst sameiginlegur réttur foreldra (3 mánuðir), enda er réttur til fæðingarorlofs bundin forsjá barns. Með samþykki forsjárforeldris getur hið forsjárlausa þó nýtt sér sinn sjálfstæða rétt. Sjálfstæður réttur hvors foreldris um sig er óframseljanlegur. Forsjárforeldrið getur því ekki nýtt sér sjálfstæðan rétt þess forsjárlausa enda þótt hið síðarnefnda hafi ekki óskað eftir að taka sinn sjálfstæða rétt.

Hvernig er ávinnsla sumarorlofs í fæðingarorlofi þegar fæðingarorlofinu er skipt?

Ávinnsla sumarorlofs hjá opinberum starfsmanni í fæðingarorlofi er nákvæmlega hin sama og það hlutfall af fæðingarorlofi sem hann tekur hverju sinni. Dæmi: Starfsmaður dreifir þriggja mánaða fæðingarorlofi á 3 tímabil; fyrst tekur hann fullt orlof í 1 mánuð, svo 50% orlof í 2 mánuði og loks 25% orlof í 4 mánuði. Ávinnsla sumarorlofs er þá með sama hætti og allir hlutarnir umreiknaðir í heila mánuði: (1x100%)+(2x50%)+(4+25%)=3. Ávinnsla sumarorlofs vegna unnins tíma sem fellur annað hvort inn á milli fæðingarorlofstímabila eða er samhliða því reiknast eins og vant er.

 

Hvert er samspil fæðingarstyrks og greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði, þ.e. þegar annað foreldrið á rétt á styrknum en hitt á greiðslum úr sjóðnum?

Verðandi foreldrar fylla bæði út sama umsóknareyðublaðið til Fæðingarorlofssjóðs, jafnvel þó að annað sæki um fæðingarstyrk en hitt um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði. Ef annað foreldrið notar hluta af sameiginlegum rétti foreldra til fæðingarorlofs og nýtur fæðingarorlofssjóðsgreiðslna, styttist greiðslutímabil fæðingarstyrks hins foreldrisins sem því nemur og öfugt.

Má starfsmaður sem er í fæðingarorlofi taka launað sumarorlof á vinnustað á sama tíma?

Nei, það má ekki taka launað sumarorlof né neitt annað launað leyfi á meðan foreldri er í fæðingarorlofi. Allar launagreiðslur eiga að falla niður á meðan.

Reiknast fæðingarorlof til starfstíma við mat á starfstengdum réttindum?

Fæðingarorlof telst yfirleitt til starfstíma við mat á starfstengdum réttindum, enda sé um gilda ráðningu að ræða. Það á t.d. við rétt hans til töku orlofs, veikindaréttar og uppsagnarfrests.
Það sama á almennt við um réttindi til greiðslna orlofslauna, orlofsuppbótar og desemberuppbótar. Hjá stærstum hluta ríkisstarfsmanna ber að reikna fæðingarorlof til starfstíma við útreikning þessara greiðslna. Sjá nánar dreifibréf 2/2001. Athygli er vakin á því að greiðslurnar eiga að vera hlutfallslegar þegar starfsmenn haga töku fæðingarorlofs með sérstökum hætti og dreifa henni á lengri tíma. Dæmi: sé sex mánaða rétti til fæðingarorlofs frá fullu starfi dreift á 12 mánuði ber að haga útreikningum eins og um 50% starf væri að ræða.

Seinkar fæðingarorlof starfslokum þegar um tímabundna ráðningu er að ræða?

Fæðingarorlof starfsmanns hefur engin áhrif á tímabundna ráðningarsamninga. Þeir renna sitt skeið á enda með sama hætti og endranær. Það breytir engu þó að starfsmaður sé í fæðingarorlofi eða hafi verið frá vinnu vegna fæðingarorlofs.

Þarf að taka fæðingarorlof samfellt eða má skipta því á tvö eða fleiri tímabil?

Starfsmaður á rétt á að taka fæðingarorlof í einu lagi. Honum er þó heimilt með samkomulagi við vinnuveitanda að haga töku þess með öðrum hætti, m.a. með lengingu og breyttu launahlutfalli. Þá er starfsmanni nú heimilt að vera að hluta til í fæðingarorlofi og að hluta til í starfi og gætu foreldrar þannig t.d. verið í fæðingarorlofi á sama tíma, annað fyrir hádegi og hitt eftir hádegið. Einnig er gefinn kostur á að taka fæðingarorlof þannig að það skiptist niður á fleiri tímabil en þó aldrei styttri tíma en viku í senn. Töku fæðingarorlofs skal þó vera lokið, þegar barn nær 18 mánaða aldri.

Veita veikindi starfsmanns í fæðingarorlofi honum rétt á lengra fæðingarorlofi?

Starfsmaður á ekki rétt á lengra fæðingarorlofi þó að hann veikist í fæðingarorlofi. Það er þó heimilt að lengja fæðingarorlof móður um tvo mánuði vegna alvarlegra veikinda hennar í tengslum við fæðingu. Í slíkum tilvikum þarf að liggja fyrir læknisvottorð og starfsmaður þarf að bera ósk um lengingu undir tryggingayfirlækni.

Til baka