Fréttir

Jóla- og áramótakveðja frá formanni Sjúkraliðafélags Íslands

20 des. 2024

Nú þegar skammdegið umlykur okkur og jólaljósin lýsa upp myrkrið, er kjörið að staldra við og líta yfir farinn veg. Þetta ár hefur verið bæði krefjandi og lærdómsríkt. Sjúkraliðar um allt land hafa sinnt sínu mikilvæga starfi af einstökum metnaði, hlýju og samhygð, bæði fyrir sjúklinga og aðstandendur þeirra. Hvert og eitt ykkar er ómissandi hlekkur í keðju heilbrigðisþjónustunnar, því án ykkar vinnu og elju myndi kerfið ekki standast álagið. Þessi stéttarvitund og seigla sem þið sýnið á hverjum degi er ómetanleg, rétt eins og ljósið sem rýfur myrkrið í skammdeginu. Takk fyrir ykkar einstaka starf.

Á árinu sem er að líða höfum við náð mikilvægum áföngum í kjarasamningum, þrátt fyrir að efnahagsaðstæður hafi verið krefjandi. Verðbólga og háir vextir hafa sett margar fjölskyldur í þrönga stöðu, en árangurinn sem við höfum náð skiptir miklu máli fyrir kaupmátt og lífskjör sjúkraliða. Kjarabæturnar sem við höfum barist fyrir eru ástæða til bjartsýni, því þær styrkja stöðu stéttarinnar og stuðla að réttlátari vinnumarkaði. Þetta ár sýnir að samstaða, skýr framtíðarsýn og staðföst barátta geta leitt til raunverulegra umbóta.

Það er sérstaklega gleðilegt að sjá hve margir hafa lokið námi á sjúkraliðabrautum framhaldsskólanna. Hjá Fjölbrautaskólanum í Breiðholti útskrifuðust 24 nemendur í vikunni, frá Fjölbrautaskólanum við Ármúla útskrifuðust 10 nemendur í síðustu viku og frá VMA á Akureyri útskrifuðust 5 nemendur. Ég óska þessum frábæru einstaklingum innilega til hamingju með þennan mikilvæga áfanga og hlakka til að fylgjast með þeim taka sín fyrstu skref í þessari einstöku starfsgrein. Þið eruð framtíðin, og með ykkar krafti, metnaði og þekkingu munuð þið hafa mikil áhrif á heilbrigðisþjónustu landsins.

Framtíðin er björt fyrir sjúkraliða, sem mynda kjarnann í heilbrigðisþjónustunni. Með því að efla menntun, bæta starfsumhverfi og aðstöðu tryggjum við að þjónustan verði enn sterkari á næstu árum. Nýútskrifaðir sjúkraliðar koma inn með ferska sýn og nýja þekkingu, sem styrkir stéttina og gerir hana betur í stakk búna til að mæta þörfum landsmanna. Heilbrigðisþjónustan er grunnur velferðar okkar. Hún hvílir á samvinnu sjúkraliða, hjúkrunarfræðinga, lækna og annarra sérfræðinga sem vinna saman að því að tryggja öryggi, gæði og heilbrigði allra, alla daga ársins. Með samstilltu átaki eflum við þessa þjónustu og tryggjum henni áframhaldandi styrk.

Á skrifstofu félagsins vinnum við markvisst að því að styðja félagsmenn í hvívetna. Við leggjum áherslu á að auðvelda aðgang að sí- og viðbótarmenntun og þróun með stuðningi úr fræðslusjóðum félagsins. Við bjóðum fjölbreytta orlofskosti og afslætti, miðlum mikilvægum upplýsingum um það sem er að gerast í heilbrigðisþjónustunni, og stöndum í baráttunni fyrir betri starfskjörum og aðbúnaði sjúkraliða á vinnustöðum.

Að lokum, þegar við tökum fyrstu skrefin inn í nýtt ár, langar mig að þakka ykkur öllum fyrir ykkar ómetanlega starf. Sérstaklega vil ég senda hlýjar þakkir til allra sjúkraliða sem standa vaktina yfir hátíðarnar, allan sólahringinn, á meðan aðrir landsmenn njóta samverunnar með ástvinum sínum. Þið tryggið öryggi og velferð okkar allra og sýnið óeigingjarna þjónustu sem við megum vera stolt af.

Ég óska ykkur öllum gæfu, gleði og góðrar heilsu. Njótið hverrar stundar með fjölskyldu og vinum og gangið hægt um gleðinnar dyr. Megi nýja árið færa ykkur bjarta daga, ný tækifæri og áframhaldandi styrk í ykkar mikilvæga starfi. Gleðileg jól og farsælt nýtt ár!

Til baka