Jöfnun vinnuskila fyrir vaktavinnufólk
19 feb. 2021
Við gildistöku betri vinnutíma í vaktavinnu, frá 1. maí 2021, mun verða breyting á helgidagafríi en í stað þess verður tekið upp nýtt fyrirkomulag
sem heitir jöfnun vinnuskila.
Breytingin felur í sér að árleg vinnuskylda vaktavinnufólks sem vinnur á reglubundnum vöktum verður að jafnaði sú sama og hjá dagvinnufólki.
Vinnuskylda vaktavinnufólks lækkar því um 7,2 vinnuskyldustundir miðað við fullt starf vegna hvers sérstaks frídags og stórhátíðardags,
skv. gr. 2.1.4.2, sem falla á mánudag til föstudags að undanskildum aðfangadegi og gamlársdegi sem skal vera 3,6 klukkustundir fyrir hvorn dag
miðað við fullt starf.
Markmið með jöfnun vinnuskila er að gera starfsfólki í vaktavinnu kleift að taka út frí jafnóðum, líkt og dagvinnufólk, vegna styttri vinnuskila
þegar rauðir dagar falla á virkan dag. Meginmarkmið kerfisbreytinganna er að stuðla að betri heilsu, auknu öryggi starfsfólks og auknu jafnvægi vinnu og einkalífs. Með breytingunni er þannig komið til móts við vaktavinnufólk og tryggt að þau fái frí strax og þau hafa unnið á rauðum degi. Með þeim hætti má fyrirbyggja uppsafnaða þreytu enda nær starfsfólk hvíld og endurheimt með reglubundnum hætti.
Um jöfnun vinnuskila gildir:
• Að jafnaði skal taka út lækkun á vinnuskilum vegna sérstakra frídaga innan tímabils vaktskrár.
• Starfsmaður getur óskað eftir því að safna upp vinnuskilum vegna sérstakra frídaga og stórhátíðardaga. Óski starfsmaður eftir því
skal hann tilkynna sínum yfirmanni um það fyrir framlagningu vaktskrár þegar ávinnsla á sér stað.
• Yfirmanni er skylt að verða við óskum starfsmanns enda verði því viðkomið vegna starfsemi stofnunar.
• Miðað skal við að uppsafnaðir dagar nái ekki yfir lengra tímabil en þörf er á með hliðsjón af óskum starfsfólks og þörfum starfseminnar.
• Á sumarorlofstíma er orlofsúttekt í forgangi umfram uppsöfnun vinnuskila vegna sérstakra frídaga og stórhátíðardaga.
Dæmi varðandi uppsöfnun:
Starfsmaður óskar eftir því að safna upp vinnuskilum vegna frídaga í apríl til úttektar vegna fyrirhugaðrar afmælisferðar í september.
Hægt er að verða við því starfseminnar vegna og safnar starfsmaðurinn upp vinnuskilum sem nemur 4*7,2 klst. = 28,8 klst.
Um er að ræða frídaga sem falla á skírdag, föstudaginn langa, annan í páskum og uppstigningardag.
Vinnuskil starfsmanns í apríl verða þá 36 klst. á viku, án þess að tekið sé tillit til vægi vinnuskyldustunda, eða sú sama og ef ekki væru rauðir dagar
sem bæru upp á virka daga.
Starfsmaðurinn er þá + 28,8 klst. í vinnuskilum eftir apríl mánuð sem hann mun jafna út í september.