Fréttir

Hjúkrunarráð er tímaskekkja

9 jún. 2020

Sjúkraliðar eiga ekki aðild að hjúkrunarráði Landspítalans þótt þeir eigi að baki sérstakt nám í hjúkrun og vinni við að sinna sjúklingum við allar athafnir daglegs lífs, sem á ensku nefnist „bedside nursing“ og við köllum „nærhjúkrun“. – Þetta er að mínu mati alger tímaskekkja.

Á vefsíðu Landspítalans skilgreinir hjúkrunarráð hlutverk sitt þannig að það sé meðal annars ráðgefandi vettvangur fyrir stjórnendur spítalans og einnig fyrir umræður um hjúkrun, innan stofnunar og utan. Markmiðið er að veita árangursríka hjúkrun. Það á líka að veita stjórnendum ráð um rekstur, stjórnun, uppbyggingu og nýtingu sjúkrahússins.

Ný stefna hjúkrunar og viðfangsefni

Í nýsamþykktri stefnu Landspítala um framtíðarsýn hjúkrunar er meðal annars tekið á mannauði og umbótastarfi í hjúkrun. Eðli málsins samkvæmt tekur mannauðurinn til allra hjúkrunarstétta, þ.e. hjúkrunarfræðinga, ljósmæðra, sjúkraliða auk annarra sem veita hjúkrun, með áherslu á að þeir sem þjónustuna veita búi yfir nauðsynlegri faglegri hæfni til að tryggja gæði og öryggi hjúkrunarþjónustunnar. Jafnframt er áhersla á öfluga, samhenta og hvetjandi teymisvinnu þar sem færni og þekking hvers og eins starfsmanns nýtist sem best á hverjum tíma.
Heilbrigðisráðuneyti hefur skilgreint störf sjúkraliða í reglugerð þannig að hann ber ábyrgð á störfum sínum við hjúkrun og umönnun í samræmi við menntun, þjálfun og færni sem hann hefur tileinkað sér. Til viðbótar segir einnig að þegar fagleg færni er metin skuli taka tillit til viðbótarmenntunar sem sjúkraliði hefur aflað sér.

Breytinga er þörf

Við sjúkraliðar erum lykilstétt í nærhjúkrun. Það hafa dæmin ítrekað sýnt. Á það reyndi sérstaklega þegar álagið á heilbrigðiskerfinu var á þolmörkum vegna Covid-19. Þá kom samtakamáttur samvinnu og samskipta hjúkrunarstétta berlega í ljós. Það er því í raun furðulegt, ósanngjarnt og skrítið að sjúkraliðar skuli ekki eiga sæti í hjúkrunarráði Landspítalans.
Alþingi hefur nú kjörið tækifæri til að breyta þessu með því að samþykkja frumvarp Svandísar Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra um breytingar á lögum um heilbrigðisþjónustu sem leggur meðal annars til að læknaráð og hjúkrunarráð verði lögð niður í núverandi mynd. Í staðinn komi þverfagleg ráð fagstétta. Það er í samræmi við vaxandi áherslu á teymisvinnu þar sem ólíkar fagstéttir vinna saman að settu marki, þ.e. að veita sjúklingi eins góða og örugga þjónustu og mögulegt er hverju sinni.

Á meðan 700 sjúkraliðar eiga ekki fulltrúa í hjúkrunarráði og þar með enga rödd innan spítalans er ráðið einfaldlega tímaskekkja.

Grein Söndru B. Franks, formanns Sjúkraliðafélags Íslands, birtist í Morgunblaðinu 9. júní 2020.

Til baka