Heyrir einhver ákallið?
7 apr. 2022
Hvað er um 6.000 milljarðar króna og er til fimm ára? Það er glæný fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar sem var mælt fyrir á Alþingi í vikunni. Í þessu lykilplaggi kemur framtíðarsýn stjórnvalda skýrlega í ljós. Þegar rýnt er í gögnin sjáum við að Covid-samdrátturinn var minni en sviðsmyndir gerðu ráð fyrir. Ríkishallinn minnkar hraðar en búist var við. Ríkisútgjöldin stefna í það sem þau voru fyrir Covid. Skuldahorfur eru mun jákvæðari en talið var í upphafi faraldursins. Gott mál.
Skoðum svo aðeins hvað mælist ítrekað sem mikilvægasta málefnið í hugum landsmanna? Það eru heilbrigðismálin enda taka þau stærstu sneið ríkisútgjaldanna. En hvað segir nýja fjármálaáætlun stjórnvalda um þróun útgjalda í heilbrigðismálin?
Nær ekki að halda í fjölgun og öldrun
Árleg aukning til heilbrigðismála til ársins 2026 er á bilinu 1,3%-1,7%. Þessi aukning nær hins vegar ekki að halda í árlega mannfjölgun og aukna öldrun þjóðarinnar. Þá má fastlega gera ráð fyrir að verðbólgan verði nokkuð há næstu árin en í ár er gert ráð fyrir um 6% verðbólgu.
Það sem vekur einnig athygli er að á síðasta ári fjármálaáætlunarinnar lækka útgjöldin til heilbrigðismála um 2 prósentustig á milli ára! Af hverju er lækkun þá? Því til viðbótar kemur það eflaust mörgum á óvart að framlög til hjúkrunar- og endurhæfingarþjónustu lækka beinlínis næstu fimm árin, þrátt fyrir mikla fjölgun eldri borgara.
Árið 2019 námu heilbrigðisútgjöld vegna þeirra sem voru 65 ára og eldri 48% af öllum heilbrigðisútgjöldum hins opinbera. Fólk í þessum aldurshópi var þó einungis 14,2% mannfjöldans.
Með hækkandi aldri þjóðarinnar fjölgar hlutfallslega þeim íbúum sem glíma við heilsufarsvanda af einhverju tagi og þurfa á heilbrigðisþjónustu að halda. Núna eru um 48.500 íbúar eldri en 67 ára og þeim fjölgar um tæp 10.000 á næstu fimm árum.
Í skýrslu um langtímahorfur í opinberum fjármálum kemur fram að vegna lýðfræðilegrar þróunar, fólksfjölgunar og öldrunar þjóðarinnar þarf hækkun á heildarútgjöldum til heilbrigðismála að vera um 50% á föstu verðlagi á næstu þremur áratugum ef viðhalda á óbreyttu þjónustustigi.
Vandinn blasir við
Það liggur fyrir að Landspítalinn hefur þurft að loka rýmum vegna skorts á sjúkraliðum og hjúkrunarfræðingum, auk þess sem umtalsverður hluti þessara stétta mun hefja töku lífeyris á næstu árum. Einnig hefur verið vandamál að hluti þessara heilbrigðisstétta, hverfur frá starfinu fáum árum eftir útskrift.
Þá heyrum við ítrekað ákall heilbrigðisstétta um „neyðarástand á bráðamóttökunni“ og „mikið álag sem stefnir öryggi sjúklinga í hættu“.
Þessu til viðbótar kemur skýrt fram í umræddri fjármálaáætlun að mönnun í heilbrigðisþjónustunni sé „ein af stærstu áskorununum“ og þá þurfi að „fjölga heilbrigðisstarfsfólki“. Sérstaklega er tekið fram að það sé „skortur á sjúkraliðum og hjúkrunarfræðingum“. Þá sé það áætlun stjórnvalda að „heilbrigðisstofnanir verði eftirsóttir vinnustaðir“ og að „huga þurfi að samkeppnishæfni íslensks heilbrigðiskerfis um hæft starfsfólk.“ Þá stendur sérstaklega í plagginu að „mikil áhætta felst í því ef ekki tekst að snúa þessari þróun við því að heilbrigðisþjónusta verður ekki veitt án heilbrigðisstarfsfólks.“
Ef þetta eru markmið stjórnvalda, af hverju sjáum við það ekki endurspeglast í tölum fjármálaáætlunarinnar. Af hverju sjáum við þetta ekki í launaseðlum sjúkraliða? Af hverju sjáum við þetta ekki í þeim viðræðum sem núna eru í gangi um stofnanasamninga sjúkraliða? Hvað er málið?
Sandra B. Franks, formaður Sjúkraliðafélags Íslands