Fréttir

Gleðilegan 1. maí

1 maí. 2024

Kæru sjúkraliðar

1. maí er okkur í verkalýðshreyfingunni afar mikilvægur en hann ætti líka að vera það fyrir alla aðra í samfélaginu. Ef litið er yfir farinn veg þá sjáum við fingraför öflugrar verkalýðsbaráttu víða um okkar samfélag og innviði.

Það var ekki síst vegna baráttu verkalýðsfélaga og verkafólks sem við fórum að sjá velferðarkerfi myndast og mótast á Íslandi. Mannsæmandi laun, starfsaðstæður og aðbúnaður, vinnutími og öryggi á vinnustöðum eru allt þættir sem rekja má til verkalýðsbaráttu. En einnig skattkerfi og annað stuðningskerfi, eins og atvinnuleysisbætur, barnabætur, og umbætur í fæðingarorlofi sem má rekja til þessarar baráttu.

Í mínum huga er verkalýðsbarátta grunninn mannréttindabarátta. Þetta er barátta um sanngjarna skiptingu auðæfa samfélagsins, þetta er barátta um jöfn tækifæri, – félagslegan jöfnuð, – þetta er barátta gegn fátækt. Þetta er í raun barátta um hversu konar samfélag við viljum búa í.

Við búum í landi sem skorar hátt miðað við ríkidæmi á hvern landsmann. Þrátt fyrir það eru allt of margir sem búa við fátækt. Við skorum líka hátt hér á Íslandi þegar kemur að jafnréttimálum. Þrátt fyrir það erum við enn að greiða konum lægri laun vegna þess að þær eru konur.

Nú eru kjarasamningar lausir hjá okkur sjúkraliðum og öðrum félögum ökkar innan BSRB. Og sem fyrr er reynt til þrautar að ná sátt um samninga. Það er eðlileg krafa að vinnuframlag okkar sé metið að verðleikum til hærri launa. Sjúkraliðafélag Íslands er sem fyrr tilbúið til leiks. Okkar tilvera er mikilvæg. Við viljum að sjúkraliðar séu metnir að verðleikum og fái laun í samræmi við sérhæfingu og mikilvægi starfanna. Það er því mikilvægt að leiðrétta laun kvenna á hinum kynskipta vinnumarkaði.   

Á tyllidögum tala ráðherrar vel til okkar, ekki síst okkar sem störfum í heilbrigðiskerfinu. Og við vitum að starf okkar skiptir máli enda margsinnis komið fram að sjúkraliðar gegna lykilhlutverki í heilbrigðiskerfinu. Nú er komið nóg af þessu tali stjórnvalda, núna viljum sjá raunverulegar aðgerðir.

Þið, mínir kæru sjúkraliðar, hafið sem fyrr staðið ykkur frábærlega og komið sterk inn í sumarið. Það er ekkert sem eins uppbyggilegt fyrir mig en að vera í góðum samskiptum við ykkur. Samvinna okkar í gegnum félagið heldur áfram. Við á skrifstofu félagsins sendum ykkur bestu hátíðar- og baráttukveðjur í tilefni dagsins.

Gleðilegan 1. maí

Til baka