Fyrning uppsafnaðs orlofs
19 jan. 2024
Flutningur orlofs milli orlofsára er óheimill samkvæmt orlofslögum og í kjarasamningum er jafnframt ákvæði sem kveður á um ákveðna fyrningu orlofs.
Í kjarasamningum aðildarfélaga BSRB var samið um breytingar á orlofskafla kjarasamninga. Þar var öllum tryggður 30 daga orlofsréttur, óháð aldri og starfsaldri. Meðal þeirra markmiða sem bjuggu að baki breytingunni var að tryggja að starfsfólk fái notið orlofs til að ná hvíld og endurheimt en safni orlofsdögum ekki upp. Samkvæmt lögum er flutningur orlofs milli ára óheimill en með breytingunum var því starfsfólki sem átti uppsafnað orlof gefinn þriggja ára aðlögunartími til að nýta sína uppsöfnuðu orlofsdaga, að hámarki 60 talsins, þrátt fyrir bann við flutningi milli ára.
Fljótlega eftir gerð síðustu kjarasamninga breyttust aðstæður á vinnumarkaði vegna heimsfaraldurs kórónuveiru og ein af birtingarmyndum þess var óhóflegt álag á starfsfólk, undirmönnun stofnana og mun minna svigrúm fyrir fólk til þess að fara í orlof og vinna á uppsöfnuðu orlofi. Af þeim sökum hafa mörg ekki náð að vinna upp sitt uppsafnaða orlof á sl. þremur árum og einhver hafa jafnvel safnað upp enn fleiri orlofsdögum.
Með hliðsjón af framangreindu var tekin ákvörðun, í samráði við opinbera atvinnurekendur, að fresta niðurfellingu orlofsdaga. Í tilfelli starfsfólks ríkis og Reykjavíkurborgar hefur niðurfellingu verið frestað til 30. apríl 2024 en Samband íslenskra sveitarfélaga hefur frestað niðurfellingu um ótilgreindan tíma og munu stjórnendur innan sveitarfélaga gera skriflegt samkomulag við starfsfólk sitt um töku uppsafnaðs orlofs.