Fréttir

Fagnám til diplómuprófs fyrir starfandi sjúkraliða: Öldrunar- og heimahjúkrun

21 jan. 2021

Á heimasíðu Háskólins á Akureyri má nú lesa langþráðar upplýsingar um fyrirhugað fagnám til diplómaprófs fyrir starfandi sjúkraliða.
Upplýsingar um skipulag námsins er að finna hér.

Undanfarna mánuði hefur sérskipaður vinnuhópur unnið að námsbrautarlýsingu nýrrar námsbrautar fyrir starfandi sjúkraliða innan Heilbrigðisvísindasviðs Háskólans á Akureyri. Um er að ræða viðbótarnám fyrir útskrifaða sjúkraliða á grunnstigi háskólanáms.

Þessi nýja námsbraut er frábær leið fyrir starfandi sjúkraliða til að byggja ofan á þekkingu sína og færni. Í náminu er lögð áhersla á eflingu klínískrar færni og þekkingar á samskiptum sem meðferðartæki, sem og á þátttöku í þverfaglegu samstarfi og uppbyggingu fagmennsku. Kjörsvið öldrunar- og heimahjúkrunar, sem fer af stað haustið 2021, er fyrst og fremst hugsað til að auka gæði í heilbrigðis- og velferðarþjónustu til handa öldruðum einstaklingum og fjölskyldum þeirra.

Inntökuskilyrði
Krafa er að umsækjandi hafi lokið sjúkraliðanámi og hafi gilt starfsleyfi frá Embætti landlæknis.
Umsækjandi þarf að starfa við öldrunar- og heimahjúkrun á meðan náminu stendur. Vinnuskylda á námstímanum er að lágmarki 2 mánuðir í 100% starfi.

Gögn sem þurfa að fylgja umsókn:
Staðfest afrit prófskírteina
Leyfisbréf frá Embætti landlæknis
Staðlað kynningarbréf
Meðmælabréf vinnuveitenda

Notað er staðlað matslíkan við ákvörðun um hverjir komast inn í námið.

Gefin eru stig fyrir eftirfarandi þætti:
Viðurkennt sérnám eða framhaldsnám
Fjöldi viðbótareininga
Meðaleinkunn 7 eða yfir
Starfsreynsla
Kyn (vegna kynjahalla)
Gæði kynningarbréfs
Meðmælabréf fylgi umsókn

Tekið er við umsóknum frá miðjum mars til 5. júní. Námspláss er fyrir 20 nemendur og lágmarksfjöldi er 10.

 

 

Til baka