Evrópudagur sjúkraliða
26 nóv. 2024
Evrópudagur sjúkraliða er í dag en hann er tilefni til að heiðra og viðurkenna mikilvægt framlag sjúkraliða um allan heim. Á þessum degi er kastljósinu beint að ómetanlegu starfi sjúkraliða við að veita umönnun, hjúkrun og stuðning við landsmenn alla.
EPN samtök sjúkraliða (The European Council of Practical Nurses) eru evrópsk samtök sem vinna að því að efla faglega þróun sjúkraliða og stuðla að auknu samstarfi milli landa. EPN leggur áherslu á að deila þekkingu, reynslu og bestu starfsvenjum til að styrkja stöðu sjúkraliða og bæta gæði heilbrigðisþjónustu á alþjóðavísu. Á heimasíðu EPN má nálgast upplýsingar um samtökin.
Stjórnvöld standa frammi fyrir mikilvægum áskorunum í heilbrigðiskerfinu. Fyrst ber að nefna þörfina á að bæta mönnun til að mæta vaxandi eftirspurn eftir heilbrigðisþjónustu, sérstaklega í ljósi öldrunar þjóðarinnar. Aukinn fjöldi eldri borgara kallar á fleiri hæfa sjúkraliða til að tryggja góða umönnun og stuðning. Í aðdraganda alþingiskosninga er mikilvægt að stjórnmálamenn hafi það í huga.
Innleiðing nýrrar tækni er hins vegar einnig lykilatriði. Með því að nýta tæknilausnir má auka skilvirkni, bæta upplýsingaflæði og létta á vinnuálagi sjúkraliða. Tækni eins og fjarheilbrigðisþjónusta og sjálfvirkni í verkferlum geta stuðlað að betri þjónustu og auknu öryggi sjúklinga.
Heilbrigðisþjónusta er grunnstoð í hverju samfélagi en að líta á heilbrigðisþjónustu sem mannréttindi undirstrikar skyldu stjórnvalda til að tryggja jafnan aðgang að gæðameðferð fyrir alla. Sjúkraliðar gegna lykilhlutverki í þessu samhengi, þar sem þeir veita ómetanlega umönnun og hjúkrun sem hefur bein áhrif á heilsu og vellíðan landsmanna.
Það er því brýnt að stjórnvöld taki á þessum áskorunum með markvissum aðgerðum. Með því að fjárfesta í mönnun, menntun og tækni geta þau styrkt heilbrigðiskerfið og tryggt að sjúkraliðar hafi þau úrræði sem þarf til að veita fyrsta flokks þjónustu. Aðeins þannig getum við staðið vörð um heilsu og vellíðan samfélagsins í heild.
Á þessum Evrópudegi sjúkraliða vil ég þakka sjúkraliðum vinnuframlagið, ósérhlífni við að sinna þeim veiku ásamt þeirri faglegu samvinnu við aðrar heilbrigðisstéttir. Ég er stolt af því að eiga hlutdeild með sjúkraliðum, þessari öflugu fagstétt, og óska ég þeim innilega til hamingju með EPN daginn.
Höfundur er formaður Sjúkraliðafélags Íslands