Eru konur minni menn?
24 okt. 2023
Með aðgerðaleysi stjórnvalda styðja þau núverandi stöðu og snuða heilu fagstéttirnar, eins og okkur sjúkraliða, um fjármuni sem hlaupa á milljörðum.
Hér í jafnréttisparadísinni Íslandi og á árinu 2023 er við lýði kynbundinn launamunur, kynskiptur vinnumarkaður, kynbundið ofbeldi, kynbundinn framgangsmáti á vinnustöðum, kynbundin skipting á hinni svokölluðu þriðju vakt og kynbundið ójafnræði þegar kemur að eignum og ráðstöfun fjármagns. Á öllum þessum sviðum hallar á konur vegna kynferðis þeirra.
Hvernig væri umræðan ef við myndum snúa þessu við og karlar byggju við þessa stöðu? Að karlar fengju t.d. 10 prósentum lægri laun en konur bara vegna þess að þeir væru karlar. Sennilega myndi heyrast hærra í þeim hópi og brugðist við með aðgerðum. En aðgerðir eru það sem þarf. Það dugar einfaldlega ekki lengur að bíða eftir „viðhorfsbreytingunni“ eða halda fleiri ráðstefnur á fínum hótelum um „stöðuna“ og „ójafnréttið“.
Ein stærsta kvennastétt landsins eru sjúkraliðar þar sem 97% þeirra eru konur. Þetta er líka ein fjölmennasta starfsstétt hins opinbera og næstfjölmennasta heilbrigðisstétt landsins. Þetta er ekki hálaunastétt en hún vinnur mjög mikilvægt og krefjandi starf eins og allir vita.
Hvað með kvenna- kjarasamninga?
Ein „aðgerð“ til ná til þessarar stóru kvennastéttar er í gegnum svokallaða stofnanasamninga en í þeim eiga einstaka stofnanir að bæta kjör einstakra stétta. Samt eru þessi samtöl okkar við fulltrúa heilbrigðisstofnana (ekki síst Landspítalans) um stofnanasamninga eins og að kreista blóð úr steini. Lítið sem ekkert gerist og oft er okkur mætt með fullkomnu skilningsleysi. Af hverju er þetta tæki ekki nýtt í kvennabaráttunni?
Önnur „aðgerð“ til að vinna gegn kynbundnum launamun er í gegnum kjarasamninga sem núna eru handan við hornið. En þar er boltinn hjá stjórnvöldum. Af hverju taka stjórnvöld ekki ákvörðun um að næstu kjarasamningar eigi að snúast um konur? Að nú sé komið að konum og að gerðir verði svokallaðir „kvennakjarasamningar“ og taki markviss skref í að uppræta kynskiptan vinnumarkað og kynbundinn launamun. Á mannamáli er þetta leiðrétting sem þýðir að laun hefðbundinna kvennastétta hækka hlutfallslega meira en hjá öðrum. Þetta þýðir ekki að laun kvenna verði hærri en laun karla heldur einungis jöfn. Þessi leið er ekki bara sanngjörn heldur er hún einnig hagkvæm fyrir samfélagið allt.
Þriðja „aðgerðin“ sem mætti nefna er hið svokallaða starfsmat. Þegar launamunur karla og kvenna sem starfa hjá sveitarfélögum er skoðaður kemur í ljós að hann er töluvert minni en hjá þeim sem starfa hjá ríkinu eða á almennum vinnumarkaði. Þetta ræðst af þeim aðgerðum sem gripið hefur verið til hjá sveitarfélögunum, sem nota hið svokallaða starfsmatskerfi við launamyndun starfsfólks. Starfsmat „metur ólík störf í mismunandi starfsstéttir út frá sömu viðmiðum og dregur þannig úr launamun vegna kynbundinnar skiptingar vinnumarkaðarins“.
Dæmi um þrjár aðgerðir
Hér hafa þrjár aðgerðir verið nefndar sem forstöðumenn og stjórnvöld geta beitt ef vilji er fyrir hendi. Þetta gerist nefnilega ekkert öðruvísi. Launamunurinn hverfur ekki af sjálfu sér, það þarf að grípa til aðgerða og breyta núverandi aðferðafræði um launamyndun.
Staðreyndin er sú að störf sem almennt eru unnin af konum eru minna metin í launum en hefðbundin karlastörf. Konur búa því enn við launamisrétti sextíu árum eftir að launajafnrétti var leitt í lög á Íslandi.
Lögin tala um jafnrétti. Stjórnarskráin talar einnig um jafnrétti. En samfélagið tryggir það ekki. Það er til staðar kerfisbundið vanmat á störfum kvenna. Fyrst kerfið er okkur óhagstætt þarf að breyta kerfinu.
Það þarf að taka mikilvægar ákvarðanir til að tryggja aðgerðir. Með aðgerðaleysi stjórnvalda styðja þau núverandi stöðu og snuða heilu fagstéttirnar, eins og okkur sjúkraliða, um fjármuni sem hlaupa á milljörðum, bara fyrir það eitt að vera konur.
Grein Söndru B. Franks var fyrst birt á mbl.is