Fréttir

Einkavæðing áhyggjefni víða um heim

1 nóv. 2017

B798000D D7A5 44D6 A75F 34D8AA4F2434

Hugmyndir um einkavæðingu í opinbera geiranum, til dæmis í heilbrigðiskerfinu, vekja áhyggjur víðar en á Íslandi og eru eitt af umræðuefnum á heimsþingi Public Service International (PSI), alþjóðlegra heildarsamtaka opinberra starfsmanna, sem fulltrúar BSRB og aðildarfélaga bandalagsins sitja.

Umræðuefnin á þingi sem fram fer nú í vikunni í Genf eru fjölmörg. Yfirskrift þingsins er „fólk umfram gróða“ (e. people over profit). Á þinginu er farið yfir helstu stefnu- og baráttumál PSI á heimsvísu. Málefnin eru fjölmörg og meðal annars þess sem er rætt um einkavæðingin sem virðist tröllríða öllum opinberum stofnunum hvar sem er í heiminum. Þá er fjallað um baráttu einstakra þjóða, svo sem baráttu Filippseyinga fyrir viðurkenningu á réttindum starfsmanna og baráttu japanskra slökkviliðsmanna til að stofna stéttarfélög í skugga kjarnorkugeilsunar og jarðskjálfa.

Á þinginu er einnig fjallað um öryggi heilbrigðisstarfsmanna, hvort heldur sem er á Vesturlöndum eða í miðjum Ebólu faraldri í Líberíu, og baráttuna gegn skattaundanskotum stórfyrirtækja, sem er umfangsmikil og á alheimsvísu. Þá er einnig fjallað um mannréttindi, umhverfismál, innflytjendur og mikilvægt framlag þeirra til vinnumarkaðarins, flóttafólk og mögulega fjölgun þeirra í framtíðinni, nýjar áskoranir, framtíðarvinnumarkaðinn, tæknibreytingar og fjölmargt fleira.

Horft til framtíðar og fortíðar

Þingið sitja fulltrúar stéttarfélaga og bandalaga innan PSI frá 150 aðildarlöndum. Fulltrúar Íslendinga frá BSRB og aðildarfélögum þess eru Árni Stefán Jónsson, fyrsti varaformaður BSRB og formaður SFR stéttarfélags, Arna Jakobína Björnsdóttir, formaður Kjalar, Kristín Á. Guðmundsdóttir, formaður Sjúkraliðafélags Íslands, Birna Ólafsdóttir frá Sjúkraliðafélagi Íslands, auk þeirra Þórarins Eyfjörð og Sólveigar Jónasdóttir frá SFR.

Alheimsþingið er haldið á fimm ára fresti og þar eru teknar ákvarðanir um framkvæmdáætlanir næstu ára og litið bæði til fortíðar og framtíðar. Ályktanir þingsins eru fjölmargar og taka oft mikinn tíma í vinnslu þegar svo margar þjóðir koma að borðinu, en í þeim birtist meðal annars sameiginlegur skilningur okkar á stefnu PSI og framkvæmd hennar.

Framtíðin er okkar að móta

Guy Ryder, forseti Alþjóðavinnumálastofnunarinnar (ILO), var gestur á þinginu og tók meðal annars þátt í umræðum um framtíðarvinnumarkaðinn. Þar bað hann fólk að varast að týnast í tölum og útreikningum um fjölda nýrra starfa í vangaveltum sínum um framtíðarvinnumarkaðinn. Þess í stað þurfi að einbeita sér að kröfunni um lýðræði framtíðarinnar, tryggja félagslega virkni og leysa úr verkefnum mikilla fólksflutninga.

Rosa Pavanelli, forseti PSI, og fleiri töluðu á svipuðum nótum. Í máli hennar kom fram að í framtíðinni verði valdið fólgið í þekkingu á tækninni og það þyrfti að tryggja að það vald væri í réttum höndum. Ekki sé hægt að taka breytingum framtíðarinnar sem fórnarlömb heldur verið að taka þeim sem þátttakendur og höfundar. Framtíðin sé okkar að móta.

Til baka