Covid-19 og konur í framlínu
8 mar. 2021
„Án framlags kvenna í framlínu, ekki síst sjúkraliða og hjúkrunarfræðinga,
væri Ísland ekki á þeim ákjósanlega stað gagnvart Covid-19 sem raun ber vitni.“
Í dag hefur rofað til í Covid-faraldrinum. Ísland er á besta stað allra þjóða í baráttunni gegn veirunni. Í verstu hryðjum faraldursins áttu fórnfýsi og elja þeirra sem stóðu í framlínunni stærstan þátt í því að heilbrigðiskerfið hélt velli. Án framlags kvenna í framlínu, ekki síst sjúkraliða og hjúkrunarfræðinga, væri Ísland ekki á þeim ákjósanlega stað gagnvart Covid-19 sem raun ber vitni. Þetta er hollt að undirstrika á alþjóðlegum baráttudegi kvenna, 8. mars.
Álagið á framlínuna
Slítandi álag á framlínufólk birtist í þremur lotum faraldursins með margvíslegum hætti. Manneklan í heilbrigðisgeiranum olli því að í framlínu þurfi sama fólkið, ekki síst sjúkraliðar og hjúkrunarfræðingar, að ganga langar vaktir svo vikum skipti.
Stöðugur ótti við mögulegt smit var einn af álagsþáttunum. Fólk óttaðist að bera smit inn á heimilið eða smita samstarfsfólk. Óttinn brýst fram í því að mjög margt fólk í framlínu einangrar sig félagslega, og fer í sjálfskipaða sóttkví milli vakta. Fólk sker á tengsl fyrir utan nánustu fjölskyldu, og stundum við hana líka. Eftir mánuði, misseri, jafnvel heilt ár, hefur þetta djúp áhrif á líðan fólks í framlínunni.
Ekki bætir úr skák að þar sem Covid-19 er bráðsmitandi er óhjákvæmilegt að í framlínunni klæðist fólk mjög óþægilegum sóttvarnarbúningum frá toppi til táar. Fyrir utan óþægindin rjúfa sóttvarnarbúningarnir líka mikilvæg tengsl sem endranær skapast milli sjúklinga og okkar sjúkraliða, sem sjá um nærhjúkrun.
Kúfurinn og kulnun í starfi
Vegna álagsins af völdum Covid-19 var fjölda aðgerða, stórra og smárra auk hvers kyns meðferða, slegið á frest til að skapa rými til að ráða niðurlögum veirunnar. Þegar Covid-19 er frá þarf kerfið að vinna þann kúf niður. Sú vinna mun að sjálfsögðu mæða á sömu stéttum og voru í framlínu næstum allt síðasta ár.
Fyrir þær er lotan því ekki búin. Vinnuálagið heldur áfram, en með öðrum hætti. Margar kvennanna sem mest mæddi á í framlínu eru orðnar mjög þreyttar, sumar útkeyrðar. Þær, eins og kerfið, hafa líka sín þolmörk.
Samanlagt hefur því álag á kvennastéttir í framlínu verið mjög mikið. Það hefur ekki einungis verið líkamlegt, heldur líka andlegt og félagslegt. Líkleg langtímaáhrif sem geta birst eru vel þekkt: Síþreyta, depurð og kvíði. Við þannig aðstæður eykst hætta á kulnun í starfi.
Þótt rannsóknir á þessum áhrifum liggi ekki fyrir gefa nýlegar kannanir BSRB skýra vísbendingu um stóraukið álag. Þegar fyrsta bylgjan stóð sem hæst í apríl í fyrra sögðu 53% opinberra starfsmanna að álag hefði aukist vegna Covid-19. Í byrjun þessa árs, þegar síðasta bylgjan var í rénun, var hlutfallið komið upp í 63%.
Þetta er skýr vísbending um stóraukið álag á fólkið okkar í framlínunni. Þar eru konur, einkum sjúkraliðar og hjúkrunarfræðingar, í miklum meirihluta.
Tillögur til stjórnvalda
Stjórnvöld hafa ekki kynnt nein sérstök áform um að bregðast við þessu aukna álagi, sem hefur fyrst og fremst lagst á konur. Merkin eru þó þegar farin að sjást á útkeyrðu starfsfólki.
Ég tel því sem formaður Sjúkraliðafélags Íslands, þar sem að 98% félagsmanna eru konur, að stjórnvöld þurfi að bregðast við með fernum hætti:
• Í fyrsta lagi þarf að tryggja að þær sem staðið hafa vaktina í framlínu í meira en heilt ár, endurheimti hvíld.
• Í öðru lagi þarf að hrinda af stað rannsókn þar sem fylgst er með langtímaáhrifum álagsins vegna Covid-19 á stéttir í framlínustörfum.
• Í þriðja lagi þarf að opna greiða leið fyrir þau sem voru í framlínu, þar sem mest álag var á kvennastéttum, til að leita sér aðstoðar vegna ýmissa langtímaáhrifa Covid-19, sem tengjast álagsbundnum þáttum og kulnun í starfi.
• Í fjórða lagi þarf að tryggja að starfsfólk í framlínu, sem vegna fordæmalausra aðstæðna af völdum Covid-19 lagði á sig miklu meira en krafist er í samningum og starfslýsingum, fái sanngjarna umbun fyrir ófyrirséð og fordæmalaust álag.
Sandra B. Franks, formaður Sjúkraliðafélags Íslands