Fréttir

1. maí kveðja

30 apr. 2022

Kæru sjúkraliðar!

Dagurinn í dag minnir okkur á að baráttan fyrir bættum kjörum lýkur aldrei. Stéttin okkar vinnur mikið og óeigingjarnt starf. Það er í eðli okkar að vilja standa okkur vel og í gegnum heimsfaraldurinn höfum við staðið vaktina.  Á tímum faraldursins kom það berlega komið í ljós hversu mikið mæddi á heilbrigðisstarfsfólkinu og án sjúkraliða hefði heilbrigðiskerfið ekki staðist álagið. Sjúkraliðar voru á öllum vígstöðum og sýndu aðdáunarverða framgöngu. Mig langar að þakka ykkur, og öllu heilbrigðisstarfsfólki, fyrir þá samvinnu og samhug sem einkennt hefur alla þessa vinnu.

Það er eðlileg krafa að vinnuframlag okkar sé metið að verðleikum til hærri launa. Við vitum að starf okkar skiptir máli og höfum ítrekað hlustað á þakkarorð stjórnvalda. En við greiðum ekki skuldir okkar með þakklætinu. Stjórnvöld þurfa að átta sig á að sjúkraliðar þurfa að geta lifað mannsæmandi lífi á launum sínum það. Vinnuaðstæður og laun fyrir krefjandi starf þarf að batna. Þessi dagur minnir okkur á það. 

Sjúkraliðafélag Íslands er sem fyrr tilbúið til leiks. Okkar tilvera er mikilvæg. Við viljum að sjúkraliðar séu metnir að verðleikum og fái laun í samræmi við sérhæfingu og mikilvægi starfanna. Framundan eru krefjandi og mikilvægar kjaraviðræður, sem eiga að leiðrétta laun kvenna á hinum kynskipta vinnumarkaði. Kvenna kjarasamningar!!!  

Þið, mínir kæru sjúkraliðar, hafið staðið ykkur ótrúlega vel í vetur og komið sterk inn í sumarið. Við á skrifstofu félagsins sendum ykkur bestu kveðjur í tilefni dagsins. Saman stöndum við vaktina. Sagan sýnir að samstaða er afl sem ekkert fær staðist.

Til hamingju með daginn. 

Til baka