Ásökunum hagsmunaaðila um rangtúlkun hafnað
10 jún. 2021
BSRB hafnar alfarið ásökunum hagsmunaaðila um að bandalagið hafi rangtúlkað niðurstöður skoðanakönnunar um rekstrarform í heilbrigðiskerfinu en fagnar þeirri umræðu sem könnunin hefur vakið um þann vanda sem skapast getur af aukinni einkavæðingu í heilbrigðisþjónustunni.
Læknum og öðrum sem tengdir eru rekstri læknastofa er auðvitað í sjálfsvald sett hvernig þeir kjósa að túlka niðurstöður könnunarinnar. Það er svo sjálfstætt áhyggjuefni þegar fjölmiðlar kjósa að taka upp gagnrýnina án þess að minnast á hagsmunatengsl þeirra sem setja hana fram. Talnaleikfimin felur ekki þá staðreynd að afgerandi meirihluti landsmanna er andvígur auknum einkarekstri í heilbrigðiskerfinu.
Sú staðreynd ætti að blasa við þegar litið er til þess að um 81 prósent vilja að sjúkrahúsin séu starfrækt af hinu opinbera, um 68 prósent eru þeirrar skoðunar um heilsugæslustöðvar og tæp 58 prósent vilja að hjúkrunarheimili séu fyrst og fremst rekin af ríki eða sveitarfélögum. Þessir þrír þættir eru kjarni íslenska heilbrigðiskerfisins og taka til sín um það bil átta af hverjum tíu krónum sem varið er í rekstur þess.
Í afmörkuðum hlutum heilbrigðiskerfisins, til dæmis sjúkraþjálfun, lýðheilsustarfi, læknastofum geðheilbrigðis- og sálfræðiþjónustu og tannlækningum fullorðinna, er umtalsverður hluti landsmanna sáttur við blandað kerfi, eins og kemur skýrt fram í skýringarmyndum með umfjöllun BSRB og í fyrirlestri á kynningarfundi um könnunina. Það er hins vegar afar lítill hluti af heilbrigðiskerfinu þegar litið er til kostnaðar við reksturs þess og fráleitt að gefa þeim þáttum sama vægi og veigamestu þáttum kerfisins eins og einhverjir gagnrýnendur hafa kosið að gera.
Afar lítill áhugi á einkarekstri
Könnunin var unnin af Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands fyrir Rúnar Vilhjálmsson, prófessor í félagsfræði við hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands, en BSRB greiddi fyrir könnunina. Eins og Rúnar benti á í fyrirlestri á opnum fundi þar sem niðurstöðurnar voru kynntar er áhugi almennings á einkarekstri í heilbrigðiskerfinu afar lítill, meira að segja þegar kemur að þjónustu eins og læknastofum sem nú eru alfarið reknar af einkaaðilum
Það eru hreinir og klárir almannahagsmunir að einkavæðing í heilbrigðiskerfinu verði ekki aukin enn frekar frá því sem nú er enda tryggir félagslegt kerfi best jafnt aðgengi að þjónustu og bætta lýðheilsu með sem minnstum tilkostnaði. Þegar heilbrigðisþjónustan er einkavædd takmarkast um leið möguleikar stjórnvalda til að skipuleggja hana. Því stærri sem hlutur einkarekinna stofa er í heilbrigðiskerfinu og því meira sem einstaklingar greiða úr eigin vasa, því erfiðara er fyrir stjórnvöld að framfylgja stefnumótun sinni, forgangsraða og skipuleggja heilbrigðisþjónustuna.
BSRB mun áfram standa vörð um hagsmuni landsmanna og standa gegn aukinni einkavæðingu í heilbrigðiskerfinu. Það er gott til þess að vita að þorri landsmanna standi að baki bandalaginu í þeirri baráttu.