Ársskýrsla Vestmannaeyjadeildar 2024

Aðalfundur svæðisdeildar Vestmannaeyja var haldinn fimmtudaginn 7. nóvember síðastliðinn í sal kvenfélagsins Líknar. Mættir voru 22 sjúkraliðar.

Áður en fundur hófst var óskað eftir að einhver byði sig fram í fundarstjórn, bauð Ragnheiður Lind Geirsdóttir sig fram og stóð sig með stakri prýði.

Á fundinn til okkar mætti Anna Rós Hallgrímsdóttir frá Grunnskóla Vestmannaeyja til að kynna fyrir okkur verkefnið „Kveikjum Neistann„. Afar áhugavert og virkilega gaman að fá hana til að kynna þetta merkilega verkefni.

Boðið var upp á kræsingar frá Einsa Kalda; kjúkling og lambakjöt með tilheyrandi gómsætu meðlæti og rauðvín, hvítvín og bjór með. Síðan var á eftir kaffi og konfekt.

Þetta var mjög fínn fundur, ýmislegt rætt og spáð í málin. Báðum tvo sjúkraliða um að gefa kost á sér í að sjá um jólafund og buðu sig fram þær Guðný Bernódusdóttir og Þórdís Gyða Magnúsdóttir.

Formaður las skýrslu stjórnar frá liðnu starfsári, kynnti rekstraráætlun fyrir 2024 – 2025 og fór yfir reikninga deildarinnar, sem voru einróma samþykktir af fundargestum.

Einn stjórnarmeðlima, Fjóla Sif Ríkharðsdóttir, óskaði eftir að ganga úr stjórn. Í hennar stað kemur inn Harpa Vattnes. Fjólu Sif eru færðar innilegar þakkir fyrir störf sín og Harpa boðin hjartanlega velkomin.

Einnig var tekið fyrir hver yrði fyrir valinu sem varamaður til að sitja fulltrúaþingið vorið 2025 og var Anna Guðný Laxdal Magnúsdóttir samþykk því að vera áfram.

Áslaug Steinunn, fyrrverandi formaður svæðisdeildarinnar, kvaddi sér hljóðs og sagði okkur frá því að þau hjá Sjúkraliðafélaginu væru að plana dag sjúkraliða í maí 2025, þar sem yrði meðal annars málþing og eitthvað fleira, þetta væri allt á undirbúningsstigi. Voru sjúkraliðar á fundinum afar spenntir fyrir þessu og lýstu yfir áhuga á að mæta.

Við héldum jólafund fimmtudaginn 23. nóvember 2023, komu saman um 20 sjúkraliðar, borðuðu góðan mat, skiptust á pökkum, spjölluðu og höfðum gaman. Um tíma leit út fyrir að ekkert yrði af jólafundi þetta árið  vegna dræmrar þátttöku, en síðan rættist úr því og við hittumst allar hressar og kátar og áttum yndislega jóla kvöldstund.

Það fórst því miður fyrir að halda upp á Evrópudag Sjúkraliða 26. nóvember 2023, en þó vöktum við margar athygli á deginum og okkur á samfélagsmiðlum og síðan var prestunum hérna í Eyjum færð peningaupphæð til að aðstoða þá sem lítið hafa á milli handanna.

25. janúar 2024 kom stjórnin saman til að ákveða varðandi rekstraráætlun svæðisdeildarinnar. Á aðalfundinum 2023, hafði Áslaug Steinunn fyrrverandi formaður deildarinnar nefnt, að þessi áætlun þyrfti að vera lögð fyrir aðalfund, þannig að hér eftir pössum við upp á að hafa það þannig.

Almennur félagsfundur var haldinn miðvikudaginn 28. febrúar 2024. Mættir voru um 20 sjúkraliðar, ýmis mál rædd og allir gæddu sér á pizzum og gosi.

25. maí 2024 útskrifuðust fimm sjúkraliðar sem eru búsettir í Vestmannaeyjum. Það voru líka, að mig minnir, þrjár konur ofan af landi útskrifaðar, höfðu verið í fjarnámi frá FÍV. Bjóðum við þær allar hjartanlega velkomnar í okkar raðir.

20. september 2024 fór formaður ásamt trúnaðarmönnum úr Eyjum á trúnaðarmannaráðsfund í Reykjavík. Þar var fjallað um ýmislegt sem er alltaf í umræðunni hjá sjúkraliðum, kjaramálin, menntamál, bæði endurmenntun og einnig diplómanámið á Akureyri og lífeyrismál. Alltaf gott að hitta fólkið og hnykkja á ýmsum málum sem brenna á okkur.

Fyrsti fundur vetrarins var haldinn í fundarherbergi sjúkrahússins þann 26. september síðastliðinn. Á fundinn mættu Bjartey Ósk Stefánsdóttir og Erna Sævarsdóttir og kynntu fyrir sjúkraliðum fyrirhugaða ferð til Færeyja, sem farin verður vorið 2025. Formaður sagði aðeins frá trúnaðarmannaráðsfundinum sem var nýliðinn og síðan gæddu sjúkraliðar sér á pizzum og gosi.

Í fyrstu viku október var haldið þing BSRB, sem formaður hefði átt að sækja, en vegna óviðráðanlegra aðstæðna sá formaður sér ekki fært að mæta, en eftir myndum og umfjöllun eftir þingið að dæma, þá virðist þetta hafa verið einstaklega vel heppnað og skemmtilegt. Eins var með fund sem haldinn var með formönnum svæðisdeilda þann 21. október, formaður sá sér því miður ekki fært að mæta á hann.

Fyrir hönd svæðisdeildar SLFÍ í Vestmannaeyjum,
Ásdís Emilía Björgvinsdóttir

Til baka