Ársskýrsla Norðurlandsdeildar eystri 2024

Breytingar urðu síðastliðið haust þegar Hafdís Dögg Sveinbjarnardóttir hætti sem formaður deildarinnar, en hún var búin að vera formaður í fjölda ára og við þökkum henni enn og aftur fyrir vel unnin störf í gegnum árin. Hún tók að sér nýtt hlutverk í framkvæmdastjórn Sjúkraliðafélagsins og óskum við henni velfarnaðar á því sviði. Einnig hætti Freydís Anna Ingvarsdóttir sem varaformaður deildarinnar en hún hafði verið í því hlutverki í 10 ár og þökkum við henni sömuleiðis fyrir vel unnin störf. Við brotthvarf þeirra gaf Kristín Helga Stefánsdóttir kost á sér sem formaður án mótframboða og var því sjálfkjörin formaður. Erla Birgisdóttir bauð sig fram sem varaformaður án mótframboða og hlaut því kjör sem varaformaður. Alexía María Gestsdóttir gaf kost á sér sem ritari, einnig án mótframboða, og hlaut því kjör sem ritari. Róbert Guðnason og Harpa Hlín Jónsdóttir héldu áfram sem meðstjórnendur og Júlía Mist Sigurgeirsdóttir kom ný inn sem varamaður í stjórn.

Stjórn deildarinnar skipa nú þau Kristín Helga Stefánsdóttir, formaður, Erla Birgisdóttir, varaformaður, Alexia María Gestsdóttir, ritari, Harpa Hlín Jónsdóttir, meðstjórnandi, Sonja Isabel Ruiz Martinez, meðstjórnandi og Júlía Mist Sigurgeirsdóttir, meðstjórnandi.

Meðlimir deildarinnar voru 248 í janúar 2024. Haldnir voru þrír stjórnarfundir á starfsárinu. Kristín Helga fór svo þó nokkrar ferðir til Reykjavíkur ýmist til að fara á félagsstjórnarfundi eða kjarasamningafundi þar sem hún er í kjaramálanefnd félagsins og samningar voru lausir. Það var óvænt en mikill léttir þegar náðist að semja við ríkið þann 3. júlí en það er stærsti viðsemjandi okkar.

Aðalfundur deildarinnar var haldinn á Hlíð þar sem fóru fram venjuleg aðalfundarstörf ásamt fræðslu um nýrnasjúkdóma. Evrópudagur sjúkraliða var svo haldinn hátíðlegur með kaffihlaðborði þann 26. nóvember 2024 en mæting var mjög dræm.


Í maí fengum við svo frábæran snyrtifræðing til okkar sem fræddi okkur um umhirðu húðarinnar og ýmsar snyrtivörur, mætingin var ágæt og þeir sem mættu voru mjög ánægðir með fræðsluna.

Fulltrúaþing Sjúkraliðafélagsins var haldið í maí og voru Kristín Helga, Erla og Alexía fulltrúar deildarinnar á því. Ekki var farið í vorferð þetta árið en til stendur að skoða það næsta vor. Þátttaka í viðburðum deildarinnar hefur verið frekar lítil en stjórnin vill bæta úr því og ætlar að reyna efla viðburði og kanna hvar áhugasvið sjúkraliða deildarinnar liggur. Fundir sjúkraliða eru skemmtilegir og mjög þarft fyrir okkur sem heilbrigðisstarfsmenn að hittast reglulega, fá fræðslu og félagsskap frá hvort öðru.

Til baka