Ársskýrsla 2007 – 2008
11 nóv. 2008
19 hressir sjúkraliðar í Gaudí garðinum, Barcelóna 28. apríl í vorSjúkraliðadeild Vestmannaeyja.Ársskýrsla 2007 2008.
Sjúkraliðadeild Vestmannaeyja.
Ársskýrsla 2007 2008.
Nú er stóru ári senn að ljúka hjá okkur í Eyjum. 2 febrúar nú 2008, varð deildin okkar 30 ára. Að deginum til buðum við bæjarbúum upp á blóðþrýstings-, blóðsykurs- og súrefnismettunarmælingar.
Einnig var kaffi og með því í boði fyrir alla. Styrkir frá Glitni, Sparisjóðnum, Vinnslustöðinni og Ísfélaginu gerðu okkur þetta kleift.
Um kvöldið var svo hátíðarkvöldverður, grín og glens. Sérstakir gestir okkar á afmælinu voru, formaðurinn okkar Kristín Á. Guðmundsdóttir og Birna Ólafsdóttir, skrifstofustjóri , SLFÍ, færðu þær deildinni stóran blómvönd í vasa, hjúkrunarfræðingar færðu okkur kaffivél og færum við þeim bestu þakkir fyrir.
Það má segja að allt hafi snúist um afmælið, hjá okkur, í lok apríl var haldið til Barcelóna í 5 daga skemmtiferð. 19 sjúkraliðar fóru í ferðina og skemmtu sér allir konunglega. Við mælum allar með borginni, hún er full af lífi og menningu. Við eigum ábyggilega eftir að fara aftur út fyrir landsteinanna.
Samningar voru lausir nú í apríl og öll vitum við hvernig það fór, 20.300 ,- kr. á línuna. Eins og ástandið er í dag er ekki gott að segja hvað 2009 ber í skauti sér, við verðum bara að krossleggja fingur og vona það besta. Við eigum eftir að komast í gegnum þessa erfiðleika og standa sterkari eftir.
Kristín og Birna komu til okkar og héldu kynningarfund, kjaramál og sjúkraliðabrúin voru aðal umræðuefnið. Sjúkraliðar fengu góð svör og eru sáttari. Ég vona að brúin sé komin til að vera því fjölgun í stéttinni er okkur nauðsynleg, við verðum bara sterkari, samstaða er afl sem ekkert fær staðist.
Sigrún Óskarsdóttir sjúkraliði útskrifaðist í Desember 2007 úr framhaldsnámi í öldrunarhjúkrun, hún er fyrsti sjúkraliðinn sem það gerir, héðan úr Eyjum. Hún hóf störf núna 5. nóvember á sjúkrahúsinu í Eyjum og mun hún vinna á móti hjúkrunarfræðingi, á öldrunargangi. Frábært að menntun hennar skuli vera nýtt, þetta er ný staða sem er í mótun, stöndum saman og sýnum henni stuðning. Hafdís Sigurðardóttir og Hjördís Kristinsdóttir sjúkraliðar á Heilsugæslu hafa sótt um í fjarnámi, í framhaldsnámi í öldrunarhjúkrun, frá Heilbrigðisskólanum í Ármúla. Námið hefst í janúar 2009, allt bóklegt nám fer fram á netinu, kennt í WebCt/Blackboard og 15. maí 20. ágúst er vinnustaðanám. Vonandi komast þær að, þær eiga það skilið! Og áfram með menntamálin, nú í desember útskrifast 11 sjúkraliðar, sjúkraliðahópurinn stækkar og styrkist, enn frekar, engin kreppa þar. Gott mál J. Nýir meðlimir eru ávallt velkomnir í Sjúkraliðadeildina okkar í Eyjum.
Á sjúkrahúsinu er nú hægt að sækja um flutning á milli deilda, innan ríkisstofnanna. Þetta er hugsað sem starfsmannaskipti, í stuttan tíma, til að efla sig í starfi. Undirrituð sótti um að fara á Líknardeildina í Kópavogi og fékk.
Að vísu kom enginn í staðinn, en þetta er bara að byrja, smá byrjunarerfiðleikar. Ég var í mánuð á Líknardeildinni, móttökurnar voru frábærar og tíminn allur. Ég sótti ýmsa fræðslu, fór m.a. á námskeið sem Samtök um líknandi meðferð héldu og bar yfirskriftina , Líknarmeðferð byggð á þörf en ekki sjúkdómsgreiningu. Heimsótti geisladeildina og lyfjadeildina 11 E á Landsspítalanum við Hringbraut. Þetta var endurnærandi tími fyrir sál og líkama, ég mæli með þessu!
Í byrjun júní fórum við Hafdís Sigurðardóttir á ráðstefnu hjá Evrópusambandi sjúkraliða, (EPN)sem haldið var í Álasundi í Noregi. Yfirskrift ráðstefnunnar var heimahjúkrun og félagsleg þjónusta , en hér heima er mikið talað um að samþætta þessa þjónustu. Frábær ferð í alla staði og gaman að hafa sjúkraliða með mér frá Eyjum, en yfirleitt er ég ein héðan á þessum ferðalögum mínum.
Að lokum vil ég minna á heimasíðuna okkar slfi.is það er verið að uppfæra hana núna svo hún verður bara enn betri.
Með sjúkraliðakveðju.
Torfhildur Þórarinsdóttir, formaður J.