Fréttir

Ályktun aðalfundar BSRB

21 okt. 2011

BSRB
Aðalfundur BSRB fór fram í dag, föstudaginn 21. október, í BSRB-húsinu að Grettisgötu 89. Dagurinn hófst með erindi Torbens M. Andersen, hagfræðiprófessors við Árósaháskóla og síðan tóku hefðbundin aðalfundarstörf við. Eftirfarandi ályktun var samþykkt á fundinum og send út að honum loknum.

Ekkert svigrúm til frekari skerðinga

Aðalfundur BSRB mótmælir harðlega áframhaldandi árásum ríkisstjórnarinnar á velferðarkerfi landsmanna með nýju fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar. Velferðarkerfið er hornsteinn samfélagsins sem hefur gert öllum kleift, óháð efnahag og aðstæðum, að njóta sama réttar til þjónustu. Fyrirhugaður niðurskurður í heilbrigðiskerfinu með tilheyrandi uppsögnum á starfsfólki mun fela í sér enn frekara álag á þá starfsmenn sem eftir eru og er álag þeirra nú þegar of mikið. Jafnframt mun niðurskurðurinn fela í sér skerðingu á þjónustu til þeirra sem mest þurfa á henni að halda. Aðalfundur BSRB krefst þess að ríkisstjórn sem kennir sig við aukna velferð leiti annarra leiða en að skerða ennfrekar velferðarkerfið.

Foreldrar hafa ekki efni á fæðingarorlofi

Aðalfundur BSRB óttast að Fæðingarorlofssjóður og það fordæmisgefandi fæðingarorlofskerfi sem byggt hefur verið upp á Íslandi sé í hættu. Í fjárlögum komandi árs er gert ráð fyrir svipuðum útgjöldum til sjóðsins þar sem útgjöld hans á yfirstandandi ári reyndust um 1 ma.kr. lægri en áætlað var. Bent er á að sífellt færri foreldrar hafa nýtt rétt sinn til fæðingarorlofs þar sem greiðslur úr sjóðnum hafa verið skertar til muna. Greiðsluþak sjóðsins er nú orðið svo lágt að fleiri og fleiri foreldrar, sér í lagi feður, telja sig ekki hafa efni á að taka fæðingarorlof. Þetta er að hluta til ástæðan fyrir tekjuafgangi Fæðingarorlofssjóðs. BSRB telur að nýta eigi tekjuafganginn til hækkunar greiðsluþaksins á ný og tryggja þannig rétt barna til samvista við báða foreldra líkt og markmiðið var með setningu fæðingar- og foreldraorlofslaga.

BSRB leggst gegn breytingum á séreignarlífeyriskerfinu

Síðustu ár hefur öflugt séreignarlífeyriskerfi verið byggt upp á Íslandi. Nú er höggvið að rótum þess með tillögum að skattlagningu á inngreiðslum yfir 2% í séreignarlífeyrissjóði. Fyrirhugaðar aðgerðir ríkisstjórnarinnar opna á þann möguleika að tvískatta hluta af séreignarlífeyrissparnaði fólks og telur aðalfundur BSRB fullvíst að slíkar aðgerðir yrðu upphafið að endalokum séreignarlífeyriskerfisins. Bandalagið leggst alfarið gegn breytingum á séreignarlífeyriskerfinu og óttast jafnframt að þessar aðgerðir gætu verið fyrsta skrefið í átt að almennri skattlagningu inngreiðslna í lífeyrissjóði sem myndu á endanum rýra kjör lífeyrisþega til mikilla muna.

Lífeyrissjóðir eru ekki bankar

BSRB hafnar því alfarið að skattleggja eigi launagreiðslur lífeyrissjóða og setja þá þannig undir sama hatt og banka og vátryggingafélög líkt og lagt er til í nýju fjárlagafrumvarpi. Slík skattlagning mun auka allan rekstrarkostnað lífeyrissjóðanna sem aftur hefur áhrif á réttindi lífeyrisþega lífeyrissjóðanna.

Til baka