Alþjóðlegur baráttudagur kvenna
8 mar. 2025
Á hverju ári þann 8. mars er heimsbyggðin minnt á staðreynd sem ætti að vera öllum ljós. Konur halda samfélaginu gangandi. Alþjóðlegur baráttudagur kvenna er ekki aðeins dagur til að fagna þeim áföngum sem náðst hafa heldur einnig til að minna á að jafnrétti er enn ekki í höfn. Það hefur aldrei fengist að fyrirhafnalaust, og mun ekki fást nema með þrýstingi og þrotlausri baráttu.
Þessi dagur á rætur að rekja til upphafs 20. aldar þegar konur víða um heim hófu að krefjast betri launa, sanngjarnari vinnuskilyrða og kosningaréttar. Þeir sem sögðu að baráttan væri óþörf urðu að horfast í augu við staðreyndir. Þeir sem sögðu að breytingar væru ómögulegar sáu þær gerast fyrir augunum á sér. En þrátt fyrir að konur hafi brotið niður marga múra, þá eru enn óteljandi hindranir sem bíða þess að verða felldar.
Ekkert svið samfélagsins endurspeglar jafnréttisbaráttuna betur en heilbrigðis- og umönnunarstéttir. Þar vinna konur myrkranna á milli, halda heilbrigðiskerfinu gangandi, hjúkra, hlúa að og veita umönnun við krefjandi aðstæður. Þær mæta til vinnu þrátt fyrir skort á starfsfólki, ófullkomið vaktakerfi og viðstöðulaust álag. En hvað fá þær í staðinn? Laun sem endurspegla ekki hið ómetanlega framlag þeirra. Og staðreyndin er sú að án þessarar vinnu sem að stærstum hluta er borin uppi af konum, myndi allt hrynja.
Úr orðum í aðgerðir
Ef fólk spyr af hverju enn sé þörf fyrir alþjóðlegan baráttudag kvenna, ætti að vera nægilegt að benda á staðreyndirnar. Þó að kvennastéttir í heilbrigðis- og umönnunargeiranum hafi staðið fremstar í fararbroddi í heimsfaraldri, var umbunin þeirra enn meiri álag og slit.
Það er ekki nóg að klappa konum á bakið og segja þeim að þær séu hetjur, það þarf að tryggja þeim mannsæmandi laun og öruggt starfsumhverfi. Launakjör í heilbrigðis- og umönnunarstéttum þurfa að endurspegla það ómetanlega hlutverk sem þær gegna. Heilbrigðisstarfsfólk sem vinnur við viðstöðulaust álag er útsett fyrir kulnun, sem dregur úr gæðum þjónustu og eykur hættuna á mistökum. Ef launakjör og starfsumhverfi væru bætt, myndi það ekki aðeins skila betra lífi fyrir starfsfólkið sjálft heldur einnig bæta þjónustu við sjúklinga og aðstandendur þeirra.
Öruggt starfsumhverfi er ekki forréttindi heldur sjálfsögð krafa. Margir sem starfa í heilbrigðisgeiranum, sérstaklega á hjúkrunarheimilum og bráðadeildum, þurfa að takast á við líkamlegt og andlegt álag sem oft er langt umfram það sem sanngjarnt getur talist. Þeir sem sinna umönnun þurfa einnig að eiga möguleika á að hafa áhrif á stefnumótun – þeir eru í framlínunni og hafa dýrmæta innsýn í raunverulegt ástand heilbrigðiskerfisins, en of oft er þeirra rödd hunsuð í stefnumótunarferlinu. Þó konur hafi náð langt í valdstöðum hér á landi, er enn þörf á að tryggja að þau sem starfa á gólfinu hafi áhrif á ákvarðanir sem snerta þeirra eigin starfsaðstæður.