Fréttir

Alþjóðleg vinnuráðstefna í Genf

23 jún. 2024

Í síðust viku kom Sandra B. Franks formaður heim eftir tæplega þriggja vikna námslotu við Alþjóðavinnumálastofnunina (International Labour Orginization – ILO) í Genf. Árlega er þar haldin alþjóðleg vinnuráðstefna (International Labour Conference – ILC) þar sem saman koma yfir 5000 fulltrúar ríkisstjórna, atvinnurekenda og launþega frá 187 aðildarlöndum til að ræða málin og vinna að réttlátari vinnumarkaði um allan heim.

ILO var stofnað árið 1919 og er stofnun Sameinuðu þjóðanna sem vinnur að málefnum vinnumarkaðarins á heimsvísu. ILO er mjög mikilvægur vettvangur til að takast á við áskoranir vinnumarkaðarins. Á vettvangi stofnunarinnar er fylgst með alþjóðlegum vinnumarkaðsmálum og eru þar reglur og staðlar mótaðir með samstarfsaðilum og unnið að verkefnum sem stuðla að virðingu starfa.

Norrænu námsfélagarnir frá Noregi og Svíþjóð
Magnús M. Norðdahl, íslenski fulltrúinn í ILO

Genfarskólinn

Sandra tók þátt í ráðstefnunni í gegnum Genèveskólann, sem er norrænn trúnaðarmannaskóli. Skólinn var stofnaður árið 1931 og hefur lagt sitt af mörkum við að upplýsa nemendur um alþjóðlegan vinnumarkað. Þau fóru tvö frá Íslandi, einn frá ASÍ, Ævar Þór, og Sandra frá BSRB, en alls voru 27 manns í norrænu sendinefndinni. Markmið með þátttöku fulltrúana fellst í að efla samvinnu og skilning á norrænu samstarfi, auka vitund um starfsemi ILO, alþjóðlegri samvinnu og alþjóðavæðingu.

Söndru fannst það ótrúleg upplifun að taka þátt í þessu starfi. Mjög vel var tekið á móti hópnum, sem reyndar fékk kynningu og lófaklapp í einum af stóru sölunum við opnun ráðstefnunnar. Aðspurð sagði Sandra hún hefði verið fljót að áttað sig á að allir vildu tala við fulltrúana í norrænu sendinefndinni og deila eigin reynslu. Dagarnir hefðu verið langir þar sem þau mættu í byggingu Sameinuðu þjóðanna um klukkan átta á morgnanna vegna öryggisráðstafana. En fundirnir stóðu svo yfir daginn frá kl. 09.00 til 18:30. Fólk kom allstaðar að, einskonar suðupottur ólíkra menningarheima frá mismunandi löndum, – frá Afríky, Asíu, Evrópu, Mið-Austurlöndum, Norður- og Suður-Ameríku og löndum sem ég hafði ekki heyrt um. En allir höfðu rödd og allir höfðu jafnan aðgang að þátttöku. Þarna var sannarlegt lýðræði í framkvæmd.

Umönnunarumhverfi – Care economy

Care economy var sá málaflokkur sem Sandra valdi að fylgjast með en umræða um þessi mál hafði ekki verið á málefnaskrá stofnunarinnar áður. Í umræðunni kom ítrekað fram að meirihluti þessa mikilvæga vinnuafls samanstendur af konum, sem margar hverjar eru farandverkamenn. Þær lenda oft í slæmum vinnuaðstæðum og eru á lágum launum.  Care-nefndin hafði það markmið móta samræmdar reglur og staðal fyrir sómasamleg störf í umönnunargeiranum.

Sandra, Ingvild, Emelie og Daníel úr norrænu sendinefndinni, ákváðu þegar þau sóttu námslotu í Svíþjóð, að fylgja þessum málaflokk eftir og gera verkefni, sem síðan var kynnt fyrir samnemendunum. Hópurinn fylgdist vel með öllum fundunum og hlustuðu á málefnavinnuna, töluðu við fjölmarga fulltrúa frá ýmsum löndum og vöktuðu framvindu Care-nefndarinnar.

Mikilvægi samstarfs

Fram kom að mörg lönd vilja einkavæða störf í umönnunargeiranum, en með samningum við ríkið. Stóra spurningin sem mikið var fjallað um var hvar mörkin ættu að liggja til að tryggja að allir fái nauðsynlega umönnun, samhliða því að vernda réttindi starfsmanna til öruggrar vinnu, sem stuðlar einnig að jafnrétti og launum sem hægt er að lifa af?

Þegar allur heimurinn er undir er erfitt að finna einhliða svar. En til að ná alþjóðlegum árangri í að meta gildi umönnunarstarfsins kom fram að gera þurfi nauðsynlegar breytingar og koma á bindandi alþjóðlegu samstarfi, til að tryggja að heimurinn hafi nóg af starfsfólki til að sinna umönnunarstörfum. Stuðningur við alþjóðastofnanir eins og ILO sem vinnur að velferð og réttindum vinnandi fólks í launuðum og ólaunuðum stöfum hefur því aldrei verið eins mikilvægur og nú.

Til baka